Landflutningasjóður

Mánudaginn 18. mars 1996, kl. 18:52:39 (4023)

1996-03-18 18:52:39# 120. lþ. 109.13 fundur 317. mál: #A landflutningasjóður# (hlutverk) frv. 23/1996, Frsm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur

[18:52]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um landflutningasjóð, nr. 62/1979, með síðari breytingum. Nefndarálitið er á þskj. 699 ásamt breytingartillögu.

Samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn lögfræðinga samgrn., þá Helga Jóhannesson og Jósef Þorgeirsson, og Guðmund Arnaldsson viðskiptafræðing frá Landvara.

Í frv. sem hér um ræðir er í grundvallaratriðum verið að víkja frá því hlutverki sem svokallaður landflutningasjóður hefur haft. Sjóðurinn var stofnaður á árinu 1979 og hafði það hlutverk að lána til landflutningafyrirtækja eins konar stofnlán eða fjárfestingarlán. Hann var fjármagnaður þannig að landflutningabílstjórar greiddu 1% af tekjum sínum inn í þennan sjóð. Fimm árum síðar var þessum inngreiðslum hætt. Sjóðurinn hefur verið til staðar en hlutverki hans er í raun og veru lokið. Eignir sjóðsins eru rúmar 15 millj. kr. og er ætlunin samkvæmt þessu frv. að ráðstafa þessum peningum til landflutningagreinarinnar til þess að mæta þeim miklu breytingum sem eru að verða á starfsumhverfi landflutningabílstjóranna.

Þetta er mjög mikilvægt vegna þess að yfir okkur er að dembast margs konar reglur og tilskipanir utan úr Evrópu sem gera það að verkum að miklar breytingar eru að verða í þessari atvinnugrein sem menn þurfa að laga sig að og mjög þýðingarmikið að það sé aðstoðað við þessa aðlögun sem auðvitað er þegar hafin.

Um það er alger sátt meðal bílstjóra og þeirra aðila sem stofnuðu þennan sjóð og hafa raunverulega búið hann til með innborgunum sínum að ráðstafa honum með þessum hætti. Gert er ráð fyrir því með þeirri brtt. sem við leggjum til að þegar hlutverki sjóðsins er lokið, falli þessi lög úr gildi. Það eru með öðrum orðum sett sólarlagsákvæði inn í breytingartillöguna okkar sem hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,5. gr. orðast svo: Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1996. Öllum eignum landflutningasjóðs skal ráðstafað í samræmi við tilgang hans innan átta ára frá gildistöku laga þessara. Lög um landflutningasjóð falla úr gildi 1. júní 2004.``

Árni Johnsen, Egill Jónsson, Stefán Guðmundsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Bryndís Guðmundsdóttir sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu, en undir nefndarálitið rita auk formanns og framsögumanns Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Ragnar Arnalds.