Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 15:28:07 (4046)

1996-03-19 15:28:07# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[15:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu hef ég kynnt mér starfsemi opinberra stofnana og þekki mjög vel til í þeim mörgum og er einmitt að andæfa þeim niðrandi alhæfingum sem fram hafa komið frá hæstv. fjmrh. og starfsmönnum hans bæði í frv. og í athugasemdum við frv. Ég las upp úr frv. og athugasemdunum hér áðan. Einnig vitnaði ég til gerða ríkisstjórnarinnar. Ég vitnaði til sölunnar á SR-mjöli t.d. þar sem mönnum voru færðir miklir fjármunir á silfurfati. Menn hafa talað um hundruð milljóna í því efni. Ég talaði um söluna á Lyfjaverslun ríkisins. Tilefnið var að hæstv. fjmrh. sagði hér í upphafi síns máls að þetta snerist fyrst og fremst um skynsamlega og góða ráðstöfun opinberra fjármuna og ég ber brigður á það. Ég færi fyrir því rök og tel fram dæmi. Það sem við erum hins vegar að ræða um hér eru frv. sem skerða réttindi fólks. Réttindi sem eru í lögum og reglugerðum. Réttindi sem hefur verið samið um, áunnin réttindi. Þetta er til umræðu hér núna. Af minni hálfu hefur umfjöllunin verið mjög málefnaleg og meira að segja ótrúlega hófstillt því tilefnið er ærið til mikilla æsinga. Ég vona reyndar að þær eigi eftir að verða miklar ef það raunverulega vakir fyrir ríkisstjórninni að keyra þessi réttinda- og skerðingafrumvörp hér í gegnum þingið.