Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 19. mars 1996, kl. 16:10:01 (4054)

1996-03-19 16:10:01# 120. lþ. 110.7 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÁE
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur

[16:10]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þetta frumvarp sem hér er tekið til umræðu er illa undirbúið vegna þess að það hefur verið staðið rangt að vinnunni við það. Starfsmannastefna ríkisins endurspeglast í væntanlegum þremur þingmálum, þ.e. þessu frv., áður boðuðu frumvarpi um lífeyrissjóðsmál og í þriðja lagi frumvarpi sem var boðað af hálfu félmrh. um vinnudeilur á almennum markaði.

Lífeyrissjóðsfrv. hefur verið tekið út af dagskrá og margt bendir til þess að þriðja frv. verði heldur ekki lagt fram. Þannig stendur nú orðið lítið eftir af heildarstefnu ríkisins varðandi starfsmannamál.

Það er ámælisverðast varðandi þetta frumvarp, sem snertir 25 þús. starfsmenn ríkisins, að það skuli vera unnið án samráðs við samtök ríkisstarfsmanna. Hæstv. fjmrh. hefur haldið því fram að með þessu frumvarpi séu einungis skert kjör ríkisstarfsmanna hvað varðar tvö atriði, þ.e. biðlaun svo og æviráðningu. Vissulega eru þau tvö atriði skert með ótvíræðum hætti í þessu frv. En það er margt fleira sem tengist kjarasamningum opinberra starfsmanna sem komið er inn á í þessu frv. Vitaskuld, hæstv. fjmrh., verður að líta á heildarlöggjöf um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamninga í samhengi. Kjarasamningar tengjast vitaskuld þessari rammalöggjöf. Þau efnisatriði hefði átt að ræða við stéttarfélög við næstu kjarasamninga. Það er ámælisvert af hálfu ríkisstjórnarinnar að koma fram með einhliða heildarlöggjöf á þessu sviði sem er unnin án samráðs og gefur engin tækifæri á að taka upp kjarasamninga.

Þetta frumvarp hefur fengið mikla gagnrýni en það er einnig margt sem vantar í frv., t.d. hvað viðvíkur réttarstöðu starfsmanna, um starfsemi stéttarfélaga og samningsferil.

Vitaskuld er mikilvægt að endurskoða lög um opinbera starfsmenn. En þetta mál snertir, eins og ég gat um áðan, 25 þús. starfsmenn ríkisins og um þriðjungur af útgjöldum ríkisins, eða um 36 milljarðar, rennur til launagreiðslna eins og getið er um í frumvarpinu. Hér er því um geysilega mikilvægan þátt í þjóðlífi okkar að ræða og því skiptir miklu máli að vandað sé til undirbúnings við breytingar.

Meginmarkmið frv. er að auka vald forstöðumanna einstakra stofnana, m.a. til að bæta stjórnun í ríkisrekstri og gerð eru skarpari skil á milli starfsmanna ríkisins, þ.e. hverjir eru í samningsumhverfi almenna markaðarins og hverjir eru í samningsumhverfi hins opinbera. Það á að reyna að færa ríkisrekstur nær því sem gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Ég tek undir það sjónarmið að það beri að stefna því að afnema mun á opinberum og almennum vinnumarkaði. Þetta á þá vitaskuld við kaup, kjör og réttindi. Stærsti þátturinn varðandi þetta er vitaskuld lífeyrissjóðsmál en þau mál verða ekki tekin til umræðu í þessu samhengi nú um stundir.

Það er mjög vikið að í greinargerð með frv. og kom fram í máli hæstv. fjmrh. að það eigi að reyna að bæta stjórnun í opinberum rekstri þannig að betur verði komið til móts við þarfir neytendanna, borgaranna í þessu landi. Sem liður í því er sjálfstæði stofnana aukið og vald forstöðumanna þeirra og með því telur hæstv. fjmrh. að þetta sé fært nær hinum almenna vinnumarkaði.

Nú er það svo að fjölmargt vantar í þetta frv. til nútímalegri stjórnunar. Þannig vita flestir að undirstaða fyrir árangursríka stjórnun er langtímastefnumótun og það að færa sig úr miðstýrðu fyrirkomulagi yfir í dreifstýringu. Það eru til margvíslegar stjórnunaraðferðir í opinberum rekstri sem hægt er að hafa að leiðarljósi. Hægt er að nefna nokkrar stjórnunaraðferðir í þessari umræðu. Það er t.d. rætt um stjórnun í undantekningartilvikum, það er rætt um stjórnun með því að vera sýnilegur, í þriðja lagi rætt um stjórnun með verkefnadreifingu, í fjórða lagi er talað um stjórnun með markmiðssetningu, í fimmta lagi er talað um stjórnun með ákvörðunarreglum. Á þessari upptalningu sést greinilega án þess að ég ætli að útskýra muninn á einstökum stjórnháttum, að stjórnun er sérgrein innan viðskiptafræði og hagfræði þar sem mikið þróun hefur átt sér stað síðustu áratugi. Það er lítið vikið að þessum breyttu viðhorfum í frv. þótt svo að ég viti að fjmrn. hefur undanfarin ár reynt að tileinka sér ýmsa þætti í nýrri hugsun, t.d. hvað viðvíkur samningsstjórnun og gæðastjórnun svo alkunn hugtök séu nefnd.

[16:15]

Það hefði hins vegar verið mjög til bóta ef í greinargerð hefði verið sett skýrari útfærsla varðandi þessa þætti í stað þess að forstöðumanni væru falin öll völd.

Markmið opinbers reksturs hlýtur vitaskuld að vera að ná árangri en til þess þarf að beita nýjustu þekkingu. Mjög margt í starfsemi ríkisins er á samkeppnisvettvangi og þá verður vitaskuld að laga sig að þeim leikreglum sem þar gilda. Sömuleiðis þarf að hafa vel í huga sérstöðu ríkisvaldsins í velferðar- og menntamálum þar sem gilda allt önnur lögmál en á samkeppnismarkaði. Þessi aðgreining sem er í sjálfu sér pólitískt ágreiningsefni kemur mjög lítið fram í frv. og vitaskuld hefði ríkisstjórnin átt að gera betur grein fyrir pólitískum markmiðum sínum við þessa lagasetningu. Það ber einnig að hafa í huga að opinber umsvif hérlendis eru lítil miðað við önnur lönd. Þannig er umfang ríkisins eða opinberra aðila hérlendis sem hlutfall af þjóðarframleiðslu langtum minni en á Norðurlöndunum og mun minni en að meðaltali innan OECD. Þetta er athyglisverð staðreynd í ljósi þess að oft er því haldið fram að opinber rekstur og opinber umsýsla séu að sliga íslenskt hagkerfi. Því fer víðs fjarri.

Það er ámælisvert í frv. að æviráðning starfsmanna er afnumin án þess að það sé gefinn nokkur kostur á launauppbót til að vega á móti þeim réttindamissi. Ýmsir ríkisstarfsmenn hafa litið þennan rétt mjög alvarlegum augum en grundvallaratriðið er að hér er um samningsbundinn rétt að ræða sem endurspeglast í lægri launum þar sem menn leggja mikið upp úr þeim rétti. Þetta er einn þeirra þátta sem er ekki hægt að setja í lög einhliða nema taka upp kjarasamninga samhliða. Allsherjarvald fjmrn. varðandi flesta þá þætti sem viðkoma hinu nýja skipulagi gengur eins og rauður þráður í gegnum frv. Þannig virkar fjmrn. sem yfirfrakki við ráðningar og kemur þetta skýrt fram í 7. gr. frv.

9. gr. þess er hins vegar ein aðalgrein frv. Hún felur í sér stóraukið vald forstöðumanna stofnana ríkisins. Þetta sem er hornsteinn frv. er ekki vel útfært. Forstöðumanni er falið vald með ráðningum og honum er einnig veitt heimild til að veita sérstakar launauppbætur. Hér er einum manni falið mjög mikið vald nánast eftirlitslaust. Þetta er nefnilega ekki svipuð aðferð og gildir á hinum almenna vinnumarkaði þar sem forstjóri eða framkvæmdastjóri hefur vissulega vald til að borga umfram kjarasamninga. Það er oft gert. Á almenna markaðnum er það framkvæmdastjóri sem ber beina ábyrgð gagnvart stjórn síns félags og verður að mæta með ákvarðanir sínar, m.a. launaákvarðanir gagnvart undirmönnum, hjá sinni stjórn ef á þarf að halda. Sömuleiðis er stjórnin ábyrg gagnvart hluthöfum sínum á aðalfundi á ári hverju. Þannig eru tvö skref frá framkvæmdastjóra fyrirtækis sem hann verður að hafa í huga þegar hann tekur t.d. einstaklingsbundnar launaákvarðanir. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir í reynd neinum yfirmönnum forstöðumanna nema að forminu til, þ.e. ráðherra. Forstöðumönnunum er falið sjálfdæmi í að hygla einstökum undirmönnum sínum eftir engum reglum. Hér er brotið á öllu eðlilegu samningsumhverfi og einnig því sem gildir á hinum almenna vinnumarkaði.

Einnig má spyrja sig hvort forstöðmenn geti farið með þetta vald. Ef litið er yfir sviðið hjá hinu opinbera er það vitaskuld svo að margir gætu farið vel með þetta aukna vald sem þeir fengju og náð árangri með nýjum tækjum. Aðrir myndu hins vegar, vegna þess að það er misjafn sauður í mörgu fé, ekki valda og jafnvel misnota þessi auknu réttindi sem 9. gr. frv. felur þeim. Þetta mál, sem tengist samningsferli innan stofnana ríkisins, þarf að skoða miklu betur.

Í 17. gr. frv. er mjög alvarlegt ákvæði þar sem sagt er að starfsmönnum sé skylt að vinna þá yfirvinnu sem forstöðumaður telur nauðsynlega. Þetta ákvæði þekkist ekki á hinum almenna vinnumarkaði. Það er alfarið í valdi starfsmanns hverju sinni hvort hann vill vinna yfirvinnu og það er eðlilegt að svo sé einnig á opinberum vinnumarkaði. Í 21. gr. frv. er getið um fjölmarga þætti sem geta valdið áminningu yfirmanns án þess að kveða skýrt úr um það að starfsmaður eigi kost á að tala máli sínu. Þar er bætt við að ef það er unnt þá skal hann gera það. Og auðvitað spyr maður sig að hvers mati er það þá hvort honum eigi að vera mögulegt að fá að tala máli sínu ef hann fær áminningu. Hér er brotið á starfsmönnum. Hugsunin í þessari grein er augljós. Hún er að gera réttarstöðu hans lakari en áður.

Í II. hluta frv. er fjallað um embættismenn. Þar er mjög rúmur listi settur upp. Með þessu ákvæði er tekinn samningsréttur af fjölmörgum stéttum opinberra starfsmanna svo sem starfsmönnum ráðuneyta, dómstóla, sýslumannsembætta, lögreglu- og tollstjóraembætta, Almannavarna, Fangelsisstofnunar og Landhelgisgæslu. Þá má spyrja sig af hverju t.d. allir starfsmenn Stjórnarráðsins eru flokkaðir í þessa lávarðadeild, sem hér er gert ráð fyrir að setja upp.

Í 23. gr. frv. er kveðið á um embættismenn sem forstöðumenn eru einnig og eiga öllu að stjórna. Þar er ekki sagt að það eigi skilyrðislaust að auglýsa stöður þeirra. Þeir eru ráðnir tímabundið sem ég er sammála en mér finnst það eigi að vera skilyrði að embættin eigi að auglýsa hverju sinni. Það á ekki að vera unnt að framlengja skipunartíma án auglýsinga. Ef til vill er betra varðandi embættismenn að setja upp sérstakar dómnefndir sem gera hæfnismat á umsækjendum og í kjölfar þess álits verði ákvörðun tekin um ráðningu. Þetta fyrirkomulag, að fá faglega umfjöllun, þekkist innan háskólakerfisins alls staðar í heiminum við að leggja mat á mismunandi hæfi manna. Ég efast ekki um að þessi aðferð væri betri en einhliða ákvörðun ráðherra hverju sinni.

Í 30. gr. frv. er kveðið á um hvernig hægt er að leysa starfsmann frá störfum ef um sjúkleika yfir lengra tímabil er að ræða. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta ákvæði er eins og gildir á hinum almenna vinnumarkaði.

Í 36. gr. er gert ráð fyrir flutningi á embættismönnum milli embætta. Í greininni er gert ráð fyrir að það stjórnvald sem skipar mann í embætti geti flutt hann á milli. Hér er ekki gert ráð fyrir að embættismaðurinn hafi neitt um það að segja og finnst mér hér sé gengið á rétt manna þótt ég sé í grundvallaratriðum sammála því að menn séu fluttir milli starfa í opinberri þjónustu, sérstaklega þeir sem gegna ráðandi störfum. Ég hefði ég kosið að settar væru skýrari reglur og ekki haft, eins og allt frv. ber með sér, í valdi vinnuveitandans.

Það er nefnilega svo, herra forseti, að hagsmunir vinnuveitandans ganga eins og rauður þráður í gegnum frv. Það er oft og tíðum gengið á réttindi starfsmanna og á möguleika þeirra að hafa áhrif á starfsumhverfi sitt. Þetta er einnig í andstöðu við nútíma stjórnunarhætti, í andstöðu við það fyrirkomulag sem menn leitast nú við að láta fyrirtækjarekstur og opinberan rekstur þróast í meðal nágrannalandanna. Menn reyna sífellt að tengja starfsmenn inn í lýðræðislegt ákvarðanaferli í starfi sínu saman með stjórnendum frekar en að setja upp miðstýrt boðvald gagnvart undirmönnum eins og gert er í frv. Þetta tel ég vera einn alvarlegasta ágallann á frv., þ.e. að ekki er fundinn farvegur fyrir nútímalega stjórnunarhætti. Menn verða vitaskuld að búa lagaramma sveigjanleika til að laga sig að nútímastjórnunarháttum.

Í 38. gr. frv. er rætt um skyldur forstöðumanna stofnana. Þar er sagt að ef farið er fram úr fjárlagaheimildum geti ráðherra veitt forstöðumanni áminningu eða veitt lausn frá embætti ef um ítrekaða, stórfellda vanrækslu í starfi er að ræða. Ég tel rétt að forstöðumenn verði dregnir til ábyrgðar ef þeir fara fram úr áætlunum með því að stýra sinni stofnun ekki af þeirri aðgæslu sem þeim ber sem starfsmönnum almennings.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. ef þetta verður nú að lögum hvort hann telji að einhverjum forstöðumönnum beri nú að segja upp störfum. Það væri mjög athyglisvert að vita hvernig hæstv. ráðherrar hugsa sér að beita þessu ákvæði eða hvort þetta er raunverulega bara marklaust tal og menn fái að vera áfram lélegir ríkisforstjórar eins og hingað til og látnir í friði. Ég hefði talið eðlilegt að öllum yfirmönnum ríkisins yrði sagt upp störfum í kjölfar þessara breytinga. Stöður þeirra yrðu auglýstar lausar til umsókna og þeir gætu þá sótt um aftur eins og aðrir þegnar þessa lands.

Það er áberandi þáttur í frv. að fjmrn. er með puttana í hverri einustu ákvörðun sem viðvíkur fagráðuneytunum. Ég hefði talið eðlilegra að menn hefðu reynt, samhliða eflingu sjálfstæðis stofnana ríkisins, að efla fagráðuneytið sem ábyrgan eftirlitsaðila gagnvart einstökum stofnunum. Þó svo að menn ræði um að dreifstýring eigi að vera aðall frv. þá falla menn aftur og aftur í þá gryfju að reyna að sanka öllum völdum til fjmrn. þegar kemur að hinni praktísku útfærslu. Ég tel þetta vera ranga stefnu.

Í 46. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ef starfsmaður hefur sagt upp störfum þá sé forstöðumanni stofnunar heimilt að lengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef margir leita lausnar samtímis. Þetta ákvæði þekkist ekki á almenna vinnumarkaðnum. Því væri fróðlegt að spyrja hæstv. fjmrh. hvort og hve mikið hann ætlar að launa starfsmönnum fyrir þessar auknur skyldur sem á þá eru lagðar umfram almennan vinnumarkað. Hér eru menn á villigötum eins og víða í frv.

Í 47. gr. segir ma.a., með leyfi hæstv. forseta:

,,Nú kýs starfsmaður að standa utan stéttarfélaga og skal hann þá njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Sé ekki um það að ræða skal fjármálaráðherra ákveða laun og launakjör þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga.``

Hér er opnaður sá möguleiki að hæstv. fjmrh. getur hyglað starfsmönnum sem kjósa að standa utan stéttarfélaga eða skipulags félagskapar um sín kjaramál. Hér er hæstv. fjmrh. fengið tæki til að brjóta niður félagsskap stéttarfélaga hvort sem stéttarfélögin eru á heildargrunni eða innan stofnana. Það er mjög alvarlegt ákvæði í þessu frv. að það skuli vera opnuð leið fyrir ríkisvaldið til að brjóta niður félagafrelsi á vinnumarkaði eins og þetta ákvæði getur leitt til.

Það kemur einnig fram í frv. að það vantar alveg ákvæði um samningsferli. Það vantar t.d. alveg ákvæði um starfsmannaráð. Það vantar ferli fyrir kjarasamninga byggða á stofnunum eða vinnustaðarsamningum. Nú er það svo að það eru sérstök lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lög nr. 94/1986. Hins vegar hefði þurft að taka þau mál í víðu samhengi inn í þessa umræðu.

[16:30]

Ég tel mikilvægt að fundinn sé samningafarvegur á einstökum stofnunum með skipulögðum hætti. Ég hef áður talað fyrir vinnustaðarsamningum og það er hluti af stefnuskrá Þjóðvaka. Þar er getið um þann þátt sem árangursríkt tæki við samninga, bæði fyrir verkalýðsfélög og vinnuveitendur. Þetta er nútímalegt form við kjarasamningsgerð sem víða er notað í heiminum, þótt við höfum ekki borið gæfu til þess að hverfa út úr þessu miðstýrða samningsumhverfi okkar.

Það vantar alveg opnun á þessa hugsun inn í þetta frv. um þetta ferli. Tónninn er allur sá að vinnuveitandinn hafi allt vald. Að því leyti gengur þetta frv. lengra í átt til valds vinnuveitenda en gildir á hinum almenna vinnumarkaði og er þó vald vinnuveitenda þar verulegt.

Í 52. gr. frv. er rætt um að það beri ekki að leita umsagna eða gefa stéttarfélögum kost á að fylgjast með málum sem varða ágreining milli starfsmanna og vinnuveitenda ef um verklagsreglur er að ræða. Nú vil ég spyrja: Hvað er átt við með verklagsreglur? Það er hægt að skilgreina það á þann hátt að starfsmenn hefðu lítinn málskotsrétt varðandi sín mál, komi til ágreinings á milli þeirra og hins alvalda forstöðumanns.

Þá vantar alveg inn í þetta frv. með hvaða hætti eftirlit verði haft með forstöðumönnum. Þeim er gefið hér mikið vald, en valdi verður að fylgja eftirlit.

Í ákvæðum til bráðabirgða eru biðlaun skert. Biðlaunaréttur er tekinn af öllum nýjum starfsmönnum en skertur á þeim sem fyrir eru. Hér er um samningsbundin réttindi að ræða og að því leytinu til er frv. brot á kjarasamningi. Ég vil að þetta ákvæði sé tekið út úr frv. og fjallað um það sérstaklega við næstu kjarasamninga ef menn vilja breytingar á þessu ákvæði. Ég vil einnig spyrja hæstv. fjmrh. í sambandi við þetta um frv. um hlutafjárvæðingu Póst og síma. Þar er gert ráð fyrir að biðlaunarétturinn fylgi áfram yfir í hið nýja hlutafélag.

Hvers vegna er gerður munur á starfsmönnum? Ég sé ekki betur, hæstv. fjmrh., en að starfsmenn Pósts og síma fái rýmri rétt hvað viðvíkur þessu máli en starfsmenn ríkisins að öðru leyti samkvæmt þessu frumvarpi. Hér virðist vera um mótsögn að ræða í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum frv. og ég óska eftir því að hæstv. fjmrh. upplýsi hvort svo sé.

Í sambandi við samningsumhverfið má geta þess að það er ekki fjallað um neinar hugsanlegar breytingar á því hver fari með samningsumboð fyrir hönd ríkisins. Þótt sérstök lög gildi um kjarasamninga opinberra starfsmanna, færast fjölmargir ríkisstarfsmenn í annað samningsumhverfi og margir eru eftir í hinu fyrra kerfi. Það eru slæm vinnubrögð að móta ekki stefnu á þessu sviði. Nú er það svo að fjmrn. og þá sérstök nefnd, samninganefnd ríkisins, fer með gerð kjarasamninga fyrir hönd fjmrn. Þetta er miðstýrt fyrirkomulag. Samninganefnd ríkisins gerir alla kjarasamninga sem ríkið gerir og á það bæði við um stéttarfélög á opinberum vettvangi og almennum vinnumarkaði. Það er ekki gerð nein tillaga um breytingar á þessum þætti né rætt um það í frv. Ég tel hið miðstýrða fyrirkomulag á kjarasamningagerð ríkisins, og mér er nokkuð kunnugt um það ferli, einmitt af hinu illa. Ég tel betra að fara með samningsumboð vinnuveitendans, þ.e.a.s. ríkisins, í ríkara mæli yfir til ráðuneytanna og þá sérstaklega yfir til stofnana og þá vitaskuld í samvinnu við forstöðumenn einstakra stofnanna. Það þarf að færa þetta samningsumhverfi með formlegum hætti yfir til ráðuneyta og stofnana, þannig að í einstökum stofnunum mæti samninganefnd hins opinbera, þess vegna leidd af forstöðumanni, fulltrúum stéttarfélaganna eða starfsmannafélaganna á viðkomandi stofnunum. Þetta hefði ég talið miklu árangursríkari leið við kjarasamninga en nú tíðkast.

Í 49. gr. frv. er málskotsréttur við uppsögn starfsmanna takmarkaður verulega. Hér eru stjórnsýslulög tekin úr sambandi að nokkru leyti og þetta er ákvæði sem þarf vitaskuld miklu nánari skoðunar við. Það þarf að formfesta starfsmannaráð í þessari löggjöf en það vantar algjörlega. Minni réttindi sem þetta frv. felur í sér verður vitaskuld að bæta með hærri launum. Sömuleiðis er í þessu frv. allt of opin skilgreining á því hverjir teljast embættismenn hins opinbera. Það vantar algerlega stefnumótun um samningsstöðu stéttarfélaga við stofnanir og ráðuneyti. Frv. felur í sér lélegri ráðningarfestu en verið hefur og vald forstöðumanna er aukið verulega án þess að eftirlit með því valdi fylgi. Það vantar algerlega farveg ef deilur verða milli forstöðumanns og starfsmanna. Frv. gengur raunverulega út frá því að geðþóttavald forstöðumanna fái að ráða ríkjum í opinberri umsýslu. Þá er einnig afnuminn samnings- og verkfallsréttur hjá fjölmörgum stéttum.

Frv. einkennist af algjöru samráðsleysi og auðvitað kann það ekki góðri lukku að stýra, eins og atburðir undanfarinna vikna hafa sýnt. Flutningur grunnskólans var settur í uppnám vegna einstrengingslegrar og kjánalegrar framgöngu stjórnvalda varðandi réttindamál. Stéttarfélög hafa gagnrýnt ýmislegt annað varðandi þetta frv., m.a. það að réttur til makalauna er afnuminn, veikindaréttur er skertur og fæðingarorlof er skert. Frv. felur í sér á fjölmörgum sviðum skerðingar sem menn verða vitaskuld að takast á við í kjarasamningum og þá í formi hækkaðra launa ef skerðingarnar eiga að ná fram að ganga.

Í þessu frv. er veikindaréttur og orlofsréttur í uppnámi að mati stéttarfélaga. Varðandi yfirborganir, sem hafa þekkst víða í opinberum rekstri, er gert ráð fyrir því að forstöðumaður geti einhliða breytt þeim án þess að starfsmaður hafi nokkurn rétt til umræðu um þann þátt.

Herra forseti. Það er mjög mörgu ábótavant í þessu frumvarpi, bæði hvað efni og málsmeðferð varðar. Það hefði þurft að vinna þetta frv. í samráði við stéttarfélög og fleiri aðila og það hefði þurft að gera það á þeim tíma þegar kjarasamningar eru lausir.

Það er skoðun mín að það beri að fresta þessu máli til haustsins og alls ekki stefna að afgreiðslu þess núna á vorþingi. Það á hins vegar að vinna þetta mál í þingnefnd þannig að leitað sé umsagna og málið sé betur undirbúið fyrir væntanlegt haustþing. Þá þyrfti að koma yfirlýsing ríkisstjórnarinnar við þessa umræðu að tekin verði út þau ákvæði er varða biðlaun og æviráðningu og aðra þættir sem snúa beint að kjörum starfsmanna. Þeir þættir yrðu þá skoðaðir í næstu kjarasamningum. Það þarf einnig að taka upp lög um kjarasamninga, búa þeim nýjan ramma og fara ofan í lífeyrissjóðsmálin við samningsgerðina í haust. Tillaga mín er sú að menn reyni að finna þessu máli þannig farveg að það verði unnið að þeim í samráði, en það er hugtak sem þessi ríkisstjórn virðist ekki þekkja.

Herra forseti. Það er ekki góð aðferðafræði fyrir ríkisvaldið að lenda í stríði við 25 þúsund starfsmenn sína varðandi réttindi og skyldur. Ríkisstjórnin hefur með frumhlaupi sínu nokkrar undanfarnar vikur stuðlað að því og það hefur skapast tortryggni milli ríkisvalds og starfsmanna þess. Þetta er vond stefna, þetta er vond stjórnmálastefna sem við stjórnarandstæðingar erum ósáttir við. Við hefðum staðið öðruvísi að þessum málum. Við hefðum gert það í samráði við stéttarfélög og aðra aðila og með markvissari stefnumótun varðandi fleiri þætti en fram koma í þessu frumvarpi.

Ég tel mikilvægt, herra forseti, að málið fái skoðun en verði ekki afgreitt á þessu vorþingi heldur látið bíða næstu samninga. Nauðsynleg undirbúningsvinna verði unnin nú á vorþingi þannig að hægt sé að stefna að því að afgreiða nýja heildarlöggjöf annaðhvort á haustþingi eða á næsta vorþingi. Þetta tel ég skynsamlega niðurstöðu í þessu máli.