Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 20. mars 1996, kl. 15:19:21 (4127)

1996-03-20 15:19:21# 120. lþ. 112.5 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur

[15:19]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Þetta er 344. mál þingsins á þskj. 599.

Tilgangur þessa frv. er að gera nauðasamninga að raunhæfu úrræði fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum. Samhliða frv. hafa tvö frv. verið lögð fram á hinu háa Alþingi, annars vegar frv. dómsmrh., en það er frv. til laga um réttaraðstoð við einstaklinga til að leita nauðasamninga, og hins vegar frv. félmrh., en það er frv. til laga um breyting á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga. Öll þessi frv. miða að því að uppfylla stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995, en í henni segir, með leyfi forseta:

,,Stuðla verður að því að einstaklingar, sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á því að ná tökum á fjármálum sínum.``

Þetta frv. eins og hin tvö miðar að því að ráða bót á þessum vanda. Frv. er ekki mjög flókið að gerð en ég skal viðurkenna að það kann að vera nokkuð erfitt að fylgja því eftir. Frv. er ein grein auk gildistökugreinar og breytingin sem verið er að gera kemur fram í síðari hluta greinarinnar, 1. gr. þessa frv., en þar er fjmrh. heimilt að samþykkja nauðasamning að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar enda sé ákveðnum skilyrðum fullnægt. Þessi skilyrði eru síðan tekin fram í 1. gr. frv. en þau eru:

1. Að gjaldandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt.

2. Skattkröfur séu ekki tilkomnar vegna endurákvörðunar skattyfirvalda á gjöldum vegna skattsvika.

3. Ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi.

Ástæða fyrsta skilyrðisins er augljós en löggjafinn hefur veitt heimildir til þess að loka atvinnurekstri þegar atvinnurekandi stendur ekki skil á ákveðum tegundum gjalda. Þar er um að ræða í fyrsta lagi virðisaukaskattur og í öðru lagi staðgreiðsla opinberra gjalda sem hvort tveggja eru svokallaðir vörsluskattar, þ.e. það eru skattar sem viðkomandi atvinnurekandi heimtar inn annars vegar hjá starfsmönnum sínum og hins vegar frá viðskiptamönnum sínum. Í þriðja lagi er um að ræða tryggingagjald sem stendur undir lögboðinni starfsemi eins og kunnugt er og vörugjald og slíka skattar sem eru skattar á atvinnureksturinn.

Í öðru lagi er augljóst að ekki verður þessari heimild beitt ef um er að ræða skatta sem eru tilkomnir vegna álaga eða viðurlaga af völdum skattsvika.

Loks er sett það skilyrði sem gjarnan er í lögum að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi. Skýringin á þessu er sú að í vissum tilvikum gerist það og því miður kannski allt of oft að einstaklingar eru gerðir gjaldþrota af því að þeir standa ekki skil á sköttum en gætu greitt eitthvað ef þeir hefðu tök á því að semja um skuldir sínar á grundvelli nauðasamnings. En nauðasamningur er réttarúrræði sem er viðurkennt í íslenskum rétti og er oft notaður þegar um er að ræða fyrirtæki en hefur ekkert verið notað þegar um einstakling er að ræða enda er nokkur kostnaður því samfara að efna til nauðasamnings. Ég ætla ekki að ræða um þann kostnað sérstaklega. Ég býst við að það hafi verið gert þegar hæstv. dómsmrh. flutti framsöguræðu fyrir lagafrv. um réttaraðstoð við einstaklinga en í því frv. eru heimildir gefnar fyrir dómsmrh. að veita fjármuni til þeirra einstaklinga sem hyggjast reyna að ná nauðasamningum.

Öllum er ljóst að gjaldþrotum hér á landi hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og eru að sjálfsögðu ýmsar ástæður fyrir því sem ástæðulaust er að tíunda hér, en mikið hafa verið til umræðu á undanförnum nokkrum árum. Á sama tíma hefur það gerst að ríkisvaldið hefur hert innheimtu opinberra gjalda. Það eru líka fjölmargar ástæður fyrir því, m.a. sú að löggjafinn hefur í auknum mæli fallið frá að gera skattskuldir að forgangskröfum í bú. Fyrir vikið þarf ríkissjóður og innheimtumenn ríkissjóðs að vera vel á varðbergi þannig að menn og fyrirtæki greiði skatta sína eins og eðlilegt getur talist.

Heilmikil umræða hefur einnig orðið vegna afskrifta á sköttum. Þar hefur eins og alþingismenn vita borið mjög á þeim misskilningi að allar afskriftir eigi rætur að rekja til eiginlegra skattskulda, en auðvitað er þar um að ræða afskriftir á upphæðum sem ríkissjóði eru eignfærðar en eru raunverulega ekki til heldur áætlaðar af skattstjórum þegar engin framtöl finnast þannig að um er að ræða ofáætlaðar eignir sem þarf að afskrifa þegar í ljós kemur að engin innstæða er fyrir þeim eða jafnvel ekki nein ástæða til álagningar af hálfu skattstjóranna þegar framtal loks kemur fram.

Það er ávallt mjög erfitt fyrir innheimtumenn ríkissjóðs að segja til um það án sérstakra lagareglna, hvort það borgar sig fyrir ríkissjóð að taka þátt í nauðasamningum. Ríkið hefur verið mjög íhaldssamt í þeim efnum, ekki síst til þess að gæta að því að svokallaðri jafnræðisreglu sé fylgt og hún virt við skattheimtuna og það sé haft að leiðarljósi á hverjum tíma að skattheimtan geri ekki mun á Jóni og séra Jóni. Verði frv. þetta að lögum mun fjmrn. hafa heimild til að mæla með nauðasamningum að fullnægðum þeim skilyrðum sem ég hef vakið athygli á. Sérstaklega þarf að vekja athygli á því að heimildin er ekki bundin við einstaklinga utan rekstrar heldur á hún jafnt við um einstaklinga og lögaðila. En þess ber að geta að það eru fyrst og fremst lögaðilar sem bera gjöld þau sem um ræðir í 1. tölul. 1. gr. þessa frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fara ítarlega í athugasemdir með frv. Frv. er einfalt og ljóst er að það getur að verulegu leyti orðið til hjálpar ýmsum þeim sem hafa lent í kröggum og komið í veg fyrir ótímabær gjaldþrot. Það er von ríkisstjórnarinnar að frv. leiði til þess að fleiri úrræði séu til staðar en áður, þegar fólk hefur ratað í ógöngur vegna féleysis.

Þá er gert ráð fyrir því að umsögn innheimtumanns og Ríkisendurskoðunar liggi ávallt fyrir eins og reyndar er skylda að gerist í 111. gr. skattalaganna. Sú grein var sett í lög í janúar 1989 ef ég man rétt, að undangengnum mjög hörðum deilum á Alþingi í kjölfar þess að þáv. fjmrh. gaf eftir skattskuldir nokkurra fyrirtækja. Miklar umræður urðu um það mál í desember 1988 sem frægt er orðið og þarf ekki að rifja upp margt í því sambandi svo mjög sem það er í minni manna. Hins vegar er alltaf hætta á því þegar Alþingi grípur í taumana að of langt sé gengið og satt að segja hefur ástandið verið þannig á undanförnum árum að fjmrh. hefur nánast engar heimildir haft til að semja við skuldara nema fullar tryggingar kæmu fyrir. Til þess að meta það hefur innheimtumaður ríkissjóðs þurft að leggja til að samið verði við viðkomandi einstakling. Samningurinn um greiðslufrest hefur einungis náð til vissra skattskulda og loks hefur Ríkisendurskoðun þurft að gefa samþykki sitt.

Það er hugmyndin með þessu frv. að sami háttur verði hafður á og Ríkisendurskoðun taki árlega saman fyrir Alþingi skýrslu um nauðasamninga eins og sú stofnun gerir um skuldbreytingar á skattskuldum eins og ég hef áður nefnt.

Það er ekki hægt að gera sér grein fyrir því á þessari stundu hvað frv. mun kosta ríkissjóð eða kannski öllu heldur skila ríkissjóði í fjármunum. Það er hugsanlegt að skil munu að einhverju leyti batna því að þess gætu orðið dæmi að skyldmenni og vinir yrðu tilbúnir til að veita einstaklingum sem lent hafa í fjárhagskröggum stuðning ef um er að ræða nauðasamning sem gæti komið í veg fyrir gjaldþrot. Þess vegna er nánast útilokað að meta kostnaðaráhrif þessa frv. sem hér er á ferðinni.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að lokinni 1. umr. málsins að óska eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.