Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 15:42:27 (4171)

1996-03-21 15:42:27# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[15:42]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það gerist nú skammt stórra högga í milli hjá ríkisstjórninni og ég fæ ekki betur séð en að hún sé að lenda í svipaðri aðstöðu og fyrrv. ríkisstjórn sem eftir nokkurra mánaða setu á ríkisstjórnarstólum hafði komið öllu samfélaginu upp á móti sér. Fer nú að verða hægt að segja um þessa ríkisstjórn eins og Jón Grindvíkingur sagði um Arnas Arnæus: ,,Minn herra á öngvan vin.`` Það kann þó að vera að ríkisstjórnin eigi enn þá vini í Garðastrætinu. Í það minnsta er ekki hægt að draga aðrar ályktanir af fréttum í blöðum þessa dagana en að vinnuveitendur séu harla ánægðir með frammistöðu hæstv. félmrh. en Alþýðusambandið og önnur stéttasamtök í landinu eru að rísa upp til varnar.

Hér erum við að ræða um enn eitt málið sem þessi ríkisstjórn hefur komið af stað en þau snúast öll um það að gjörbreyta aðstæðum á íslenskum vinnumarkaði. Það er ekki annað hægt en að horfa á þessi mál í samhengi og reyna að átta sig á því hvað er verið að gera hér. Ég get ekki látið hjá líða að minnast á þau vinnubrögð sem okkur þingmönnum er boðið upp á. Ég veifaði í morgun þessum bunka sem er þetta frv. upp á 50 síður. Það er algjörlega óviðunandi að leggja svona stórt mál fyrir með þessum hætti og ætlast til þess að hér fari fram málefnaleg og alvarleg umræða þegar gengið er svona fram. Þetta er algjörlega óviðunandi. En frammi fyrir þessu stöndum við og við verðum að reyna hvað við getum til að fara ofan í þetta mál. En ég mótmæli vinnubrögðum af þessu tagi.

Þegar við skoðum þetta mál þá vakna spurningar um vinnubrögð sem tíðkast í samskiptum á vinnumarkaði hér á landi á milli þeirra sem venjulega eru kallaðir aðilar vinnumarkaðarins, þ.e. Alþýðusambandsins annars vegar og Vinnuveitendasambandsins hins vegar og svo er ríkisvaldið með alla sína viðsemjendur. Og það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að það er afar sérkennilegt og óvenjulegt að ríkisvaldið skuli grípa inn í samskipti á vinnumarkaði eins og hér er verið að gera. Þetta er afar óvenjulegt. Það minnir á að Alþjóðavinnumálastofnunin hefur tekið Ísland sérstaklega fyrir og bent á að afskipti ríkisvaldsins af kjaramálum hér á landi eru ekki í samræmi við samþykktir sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur gert og það hafa verið gerðar alvarlegar athugasemdir við þessi afskipti. Ég hygg að sá óróleiki sem óneitanlega hefur verið að finna hér á vinnumarkaði um áratuga skeið eigi að miklu leyti rætur að rekja til þess hvernig ríkisvaldið hefur hagað sér. Við höfum horft upp á það áratugum saman að hvað eftir annað hefur verið gripið inn í samninga með lögum, bráðabirgðalögum eða efnahagsaðgerðum af ýmsu tagi þar sem hrifsað er með annarri hendinni það sem degi áður var gefið með hinni. Og ef einhver ber þunga sök að mínum dómi á því ástandi sem við horfum upp á á íslenskum vinnumarkaði þá er það ríkisvaldið. En það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá því að samtök íslenskra vinnuveitenda bera líka þunga ábyrgð. Þá vísa ég til þess að það er engu lagi líkt hvernig Vinnuveitendasambandið liggur á öllum umbótum sem til gagns mega verða á íslenskum vinnumarkaði. Þá er ég m.a. að hugsa um tilskipanir Evrópusambandsins um vinnutíma, um uppsagnarskilyrði og fleira slíkt svo og um samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Á þessu öllu liggur VSÍ. Það liggja m.a. fyrir Alþingi tillögur um að við staðfestum samþykktir en þar er VSÍ mjög fast fyrir. Þeir vilja innleiða hér allt sem lýtur að frjálsri samkeppni og menn tíunda það daga og nætur hvað samkeppnin sé nú góð og að nauðsynlegt sé að búa vel að markaðskerfinu. En þegar kemur að hinni hliðinni, laununum og aðstæðum vinnandi fólks, þá má ekkert gera. Þetta undarlega hugarfar ríkir bæði hjá ríkisvaldinu og er þá nokkuð sama hvaða ríkisstjórn á í hlut og hjá Vinnuveitendasambandinu. Í þessu hugarfari er að leita ástæðnanna fyrir því sérkennilega ástandi sem hér er og hefur m.a. birst í því að verkföll og vinnutap hefur verið hér meira en annars staðar þekkist innan OECD. Framkvæmdastjóri ASÍ benti okkur á það á fundi fyrr í dag að í rauninni væri þetta ekki sambærilegt vegna þess að hér verður hvert einasta verkalýðsfélag að boða verkfall og þess vegna verður tíðni verkfalla miklu hærri hér en erlendis. En þegar litið er á vinnudagatap þá er talan hér miklu hærri en við sjáum annars staðar og ég vil ekki síst rekja það til ríkisins því síðasta stóra verkfall, allsherjarverkfall sem hér var háð, var árið 1987 en síðan þá hafa allar stærri vinnudeilur átt sér stað hjá ríkinu. Ef undan er skilið sjómannaverkfallið síðasta þá hafa allar stærri og lengri vinnudeilur átt sér stað hjá ríkinu. Þetta vekur upp miklar og alvarlegar spurningar um þetta hugarfar og hvaðan það er ættað. Það er einfaldlega ættað frá nítjándu öldinni. Menn eru fastir í furðulegu hugarfari sem maður finnur ekki einu sinni hjá allra hörðustu frjálshyggjumönnum í Bandaríkjunum vegna þess að þar er einfaldlega allt önnur umræða í gangi um nauðsyn þess að búa fólki góðar vinnuaðstæður. Þar er ákveðin nýsköpun og ný hugsun að ryðja sér til rúms.

Sú hugsun sem liggur að baki þessa frv. og sú stefna sem þar er verið að boða er það sem á erlendum málum er kallað ,,corporatismi`` eða stóru samflotin, það að reyna að steypa öllu í sama farveginn. Það er rætt um launastefnu, það á að móta launastefnu eins og kemur fram í greinargerð eða athugasemdum með frv., en samningsfrelsið, réttur einstakra félaga, eða einstakra stétta til að semja um kaup og kjör er takmarkaður. Þetta er einfaldlega sú stefna sem hér er. Að mínum dómi er þarna verið að reyna að festa niður það launakerfi sem við búum nú við og það er algjörlega óásættanlegt. Bæði horfum við upp á það að launamunur er mikill þegar horft er á launakerfið í heild. Launamunur kynjanna er algjörlega óviðunandi og lægstu laun eru allt of lág þannig að hér þarf uppstokkun að eiga sér stað. Það þarf að eiga sér stað uppstokkun á launakerfinu og samskiptum á vinnumarkaði en með þeirri lögbindingu og því valdi ríkissáttasemjara sem hér er verið að boða gerist auðvitað ekkert slíkt. Samkvæmt öllu því sem ég hef lesið og kynnt mér um vinnumarkaðsmál að undanförnu þá gengur þessi stefna í frv. --- það er náttúrlega ekki nóg með að hún gangi gegn samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og mannréttindasáttmála Evrópu og vinnumálasáttmála Evrópu o.s.frv., heldur gengur hún þvert á það sem menn eru að þróa í Evrópu. Þar er verið að hverfa frá þessu samfloti enda eru aðstæður einfaldlega orðnar allt aðrar en þær voru þegar það var upp á sitt besta á níunda áratugnum út í Skandinavíu og Evrópu þegar efnahagslífið var í blóma. Þetta gekk afskaplega vel í Svíþjóð þegar allt var þar í blóma og verkalýðshreyfingin var sterk. En nú eru mjög breyttar aðstæður og menn tala mikið um nauðsyn á sveigjanleika á vinnumarkaði og sveigjanleika í launakerfinu. Það er miklu meiri hreyfing á vinnuaflinu o.s.frv. o.s.frv. Allt þetta þarf að skoða. Mín skoðun er sú að hér sé verið að festa í sessi kerfi sem byggist á úreltum hugmyndum og felur það í sér að sú nauðsynlega uppstokkun sem þarf að eiga sér stað kemst ekki á.

Hæstv. félmrh. vitnar til þess að verið sé að sækja fyrirmyndir til Danmerkur. Það kemur fram í greinargerð og í gögnum sem ég hef undir höndum að þær vinnureglur sem menn búa við í Danmörku hafa þróast á mjög löngum tíma. Þær hafa þróast í samskiptum danskrar verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda og það get ég sagt af reynslu minni af því að búa í Danmörku og reyndar hef ég búið í Svíþjóð líka, að afstaða gagnvart verkalýðshreyfingunni er einfaldlega allt önnur. Menn hefðu aldrei nokkurn tímann komist upp með þær aðgerðir út í Skandinavíu sem stjórnvöld hafa gripið til hér á undanförnum áratugum, aldrei nokkurn tímann. Bæði vegna þess að styrkur verkalýðshreyfingarinnar er þar meiri, vegna þess að flokkur verkalýðshreyfingarinnar hefur verið þar við völd og einfaldlega vegna þess að menn hafa komið sér saman um vinnureglur. Hér hefur hins vegar allt verið í hers höndum svo áratugum skiptir. Þessar fyrirmyndir og samanburður við Danmörku á því einfaldlega ekki við rök að styðjast.

Það væri ástæða til að fara rækilega ofan í þróun vinnumarkaðsmála hér á undanförnum áratugum. Ég ætla að sleppa því í bili en vil geta þess að maður hefði haldið að menn væru nokkuð sammála um að verkalýðshreyfingin gegndi ákveðnu og mikilvægu hlutverki í samfélaginu, ekki einungis því að gæta réttinda vinnandi fólks og að semja um kaup og kjör heldur er hún einn af þeim aðilum sem koma að mjög mörgum málum í samfélaginu. Stundum má gagnrýna að hún og Vinnuveitendasambandið eru kölluð til heldur oft, en verkalýðshreyfingin er þó umbjóðandi mjög margra í okkar samfélagi og hefur að baki sér mjög breiðan hóp þannig að hún á að endurspegla ákveðnar hugmyndir þótt reyndar megi oft efast um að hún geri það. En það er viðurkennt í ýmsum alþjóðasáttmálum sem menn hafa verið að koma sér saman um og í sáttmálum Evrópuríkjanna að verkalýðshreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki og staða verkalýðsfélaga er tryggð í stjórnarskránni. Það er gengið út frá því í stjórnarskránni að verkalýðshreyfingunni beri hlutverk í samfélaginu. Og jafnframt ef menn rifja upp þær umræður sem fóru fram þegar verið var að breyta stjórnarskrá lýðveldisins Íslands á síðasta ári þá var einmitt vísað til þessa mikilvæga hlutverks. Það sama má segja um Vinnuveitendasambandið að það gegnir líka ákveðnu hlutverki. En það verður ekki annað ráðið af þeim hugmyndum sem menn hafa verið að reifa og leggja fram hér á Alþingi undanfarna daga og vikur en að verið sé að breyta þessu hlutverki. Það er verið að reyna að draga úr áhrifum verkalýðshreyfingarinnar. Það er verið að draga úr möguleikum fólks til að hafa áhrif á umhverfi sitt, kaup og kjör, í hverjum lagabálkinum á fætur öðrum. Þarna er ákveðin hugmyndfræði að baki. Þó hæstv. félmrh. sé alltaf að vísa til Danmerkur þá er það að hluta til Nýja-Sjálandshugmyndafræðin sem býr hér að baki, þ.e. einhverjar hugmyndir um að verkalýðshreyfingin hafi of sterk ítök. Það eru slíkar hugmyndir sem hér búa að baki. Það er ekki einleikið og að sjálfsögðu ætti það að vera mjög umhugsunarvert fyrir hæstv. félmrh. að verkalýðshreyfingin skuli öll mótmæla en Vinnuveitendasambandið og Vinnumálasamband samvinnufélaga lýsa yfir ánægju sinni. Það er ekki allt með felldu þegar þannig er í pottinn búið.

Ég get tekið undir það sem fram kom í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að á meðan verið er að breyta því hvernig verkalýðsfélögin koma að vinnudeilum þá er ekki hreyft við Vinnuveitendasambandinu. Það er einfaldlega ekki hreyft við því. Þar er ríkjandi alveg ótrúleg miðstýring sem m.a. felst í því að einstökum vinnuveitendum er harðbannað að semja um betri kjör við sitt fólk. Ég man eftir slíkum dæmum þar sem Vinnuveitendasambandið hefur gripið inn í og hreinlega skipað mönnum að rifta samningum og breyta þeim þegar búið var að semja um eitthvað betra. Þetta er algjörlega óviðunandi og er eitt af því sem hefur leitt til þess tvöfalda launakerfis sem við búum við. Ég vil í því sambandi vísa í grein sem kom í Vísbendingu í maí 1995 þar sem verið er að lýsa þessu launakerfi sem hér er og m.a. birt annars vegar launavísitala eins og hún var reiknuð og hins vegar hvernig greitt tímakaup er í raun og veru. Það sem gerðist með þeirri uppsveiflu sem varð 1987 var það að alls konar yfirborganir ruku upp úr öllu valdi vegna þess að menn eru alltaf að semja um lágmarkstaxta. Og þessi miðstýring og ófrelsi sem Vinnuveitendasambandið stendur fyrir leiðir til þess að einstök fyrirtæki, einstakir geirar atvinnulífsins geta hreinlega ekki samið um betri kjör. Þeir geta það ekki vegna þessarar hörðu miðstýringar. Þetta er kerfi sem kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég ætla þá aðeins að víkja að lögunum frá 1938 og þeirri umræðu sem þá átti sér stað, því það er alveg ótrúlega skemmtilegt að lesa þá umræðu. Ég er nú reyndar ekki nærri því búin að því, en það er ótrúlegt hvað viðhorfin voru þá lík og nú enda eru réttindi vinnandi fólks og þeirra sem lægst hafa launin afar viðkvæmt atriði. Ég get ekki stillt mig um að vitna í eina af mörgum ræðum Héðins Valdimarssonar og bið ég hæstv. félmrh. að hlusta vel. Hann sagði á sínum tíma --- því miður er ekki dagsetning hér en þetta er 1938. Hann sagði, með leyfi forseta:

[16:00]

,,Það er mikil áherzla lögð á það af þeirri n., sem unnið hefir að þessu frv., sérstaklega framsóknarmönnum, og eins hv. þm. Snæf., hvernig þessum málum er hagað í okkar nágrannalöndum, og sjálfsagt er það líka rétt að hafa hliðsjón af því, hvernig þeim málum er skipað þar. En mönnum hættir mjög við að vilja apa allt eftir okkar nágrannaþjóðum, án þess að skilja þann mun, sem er á öllum landshögum hér frá því, sem er í öðrum löndum, sérstaklega á Norðurlöndum, sérstaklega ef maður tekur vinnuskilyrðin þar og á hinum Norðurlöndunum, því að þar er kominn upp mikill iðnaður, svo að vinnulöggjöfin þar snertir mikið iðnaðarfólk og verksmiðjufólk.``

Þetta er kjarni málsins, hæstv. forseti. Það eru ekki alltaf sambærilegar ástæður og það sem byggir á langri reynslu í samskiptum vinnuveitenda og vinnandi fólks í Danmörku, hvort sem það var 1938 eða núna, er ekki sambærilegt. Þetta er ekki sambærilegt þó að margt gott megi læra af því sem menn hafa verið að gera þar.

Ég ætla líka að leyfa mér að vitna í ræðu Einars Olgeirssonar sem var kannski meðal allra hörðustu andstæðinga frv. á sínum tíma. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þá ætla ég að fara inn á einstaka kafla frv. Fyrsti kaflinn á að vera til hagnaðar fyrir verkalýðinn, og það er sá kafli sem hv. þm. Ísaf. leggur sérstaklega mikið upp úr.`` Ég ætla að skjóta því hér inn í að það sama gerðist í þessari umræðu 1938 og við urðum vitni að hér á þriðjudagskvöldið, að þingmenn Alþfl. voru ekki alveg sammála en það gerðist nú með þingmenn Alþb. í þeirri umræðu. Svo segir hér áfram: ,,Hann er líka það agn, sem alþýðusambandsstjórnin ætlar að fá menn til að ganga inn á þetta frv. með, og er honum sérstaklega veifað framan í verkalýðinn í sambandi við væntanlega samþykkt þessa frv. Í þessum kafla eru engin réttindi, sem verkalýðurinn hefir ekki þegar gert að veruleika, þar sem hann er nógu sterkur. Það er langt frá því, að þarna séu öll þau réttindi, sem hann hefir gert að veruleika, þar sem hann er nógu sterkur. Það er hinsvegar vitanlegt, að þau ákvæði í þessum kafla, sem veita verkamönnum réttindi, verða hrein og bein pappírsákvæði, þar sem verkalýðurinn er ekki nógu sterkur til að framkvæma þau.``

Hér kemur að því sem skiptir höfuðmáli. Það er það hvort verkalýðshreyfingin hefur þann styrk að geta staðið vörð um réttindi sín eða hvort ríkisvaldið í þessu tilviki ætlar að beita valdi sínu og þvinga í gegn breytingar þvert á vilja þeirra sem eiga að búa við viðkomandi lög.

Hæstv. forseti. Ég ætla þá að víkja að einstökum atriðum þessa máls. Þar kem ég fyrst að því sem mér þykir vera eitt af stórmálum þessa frv. en hefur ekki verið mikið fjallað um. Það er það sem þegar kemur fram í 1. gr. um heimild fólks á vinnustöðum til að stofna vinnustaðarfélög. Þetta kerfi er við lýði í ýmsum löndum en þá er það líka það kerfi sem gildir. Mér vitanlega er ekki mikið um að það sé blandað kerfi. Hugsum okkur hvað þetta þýðir. Ég ætla að taka dæmi. Það er svo greinilegt að það er m.a. verið að hugsa um álverið þegar þetta er skoðað. Það er eitt af þessum fyrirtækjum. Hvað þýðir það fyrir verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði ef starfsmenn álversins stofna vinnustaðarfélag ásamt öllum hinum? Hvað verður þá um verkamannafélagið Hlíf? Ef starfsmenn Eimskips sem nú eru í verkamannafélaginu Dagsbrún ákveða að stofna vinnustaðarfélag og jafnframt hjá öðrum fyrirtækjum. Hæstv. félmrh. upplýsti mig um það fyrr í dag að það ku vera 60 fyrirtæki og 33 ríkisstofnanir sem falla undir þessa viðmiðun sem hér er, þ.e. hafi 250 manns eða fleiri í vinnu. Hvað verður um stóru verkalýðsfélögin ef þetta gerist, ef menn sjá sér hag í því að mynda frekar vinnustaðarfélög? Að mínum dómi verður vald þeirra, áhrif og möguleikar til að standa vörð um hag sinna félagsmanna einfaldlega úr sögunni. Menn verða að gera sér grein fyrir því fyrir utan það líka hvaða áhrif þetta hefur á félagssvæði verkalýðsfélaganna. Þetta boðar einfaldlega gjörbreytingu á því kerfi sem við búum við og menn verða þá að átta sig á því. Er það það sem við viljum? Er það það sem verkalýðshreyfingin vill? Er hún tilbúin til þess að breyta sínu skipulagi í þessa veru? Það er hennar að ákveða það. Það er verkalýðshreyfingin sem á sjálf að ákveða það við hvaða félagskerfi hún býr, ekki Framsfl. eða meiri hlutinn hér á Alþingi. Það er algert grundvallaratriði sem þarna er á ferð.

Í 2. gr. er kveðið á um aukið vald samninganefnda. Þarna er samflotshugsunin á ferð og þarna er líka komið að atriði númer tvö í þessu máli öllu sem eru þessar atkvæðagreiðslur og skilyrði til að hægt sé að boða vinnustöðvanir eða fella sáttatillögur sem kemur hérna seinna. Það þarf náttúrlega að uppfylla eins og við er að búast býsna mikil og hörð skilyrði til að hægt sé að boða verkfall en það þarf nú ekki mikið til þess að aflýsa því. Það eru ekki sömu kröfurnar. Þá fá ekki félagarnir að koma til og hafa sín áhrif. Þarna er ekkert samræmi og jafnframt eru kerfi eins og póstatkvæðagreiðsla eða það að það þurfi ákveðinn fjölda til að hægt sé að samþykkja verkfall ákaflega þung í vöfum. Það þekki ég sjálf frá samtökum opinberra starfsmanna þar sem ég hef sjálf farið tvisvar í verkfall. Þetta er þungt í vöfum og það er svo greinilegt hver hugsunin er á bak við þetta. Hún er einfaldlega sú að gera stéttarfélögum sem allra erfiðast fyrir að fara í verkfall.

Þetta þýðir m.a. það, hæstv. félmrh., að skyndiaðgerðir af því tagi að fara t.d. í eins dags vinnustöðvun eða vinnustöðvun vegna einhverrar ríkrar ástæðu, t.d. vegna aðgerða ríkisvaldsins eða einhvers sem gerist í þjóðfélaginu, eru nánast ómögulegar því það tekur óratíma að koma því í gegn. Þetta finnst mér vera mjög alvarlegt inngrip í frelsi stéttarfélaganna. Ég get skilið þá hugsun og ég get verið sammála hæstv. félmrh. að það er oft mjög bagalegt þegar lítill hópur boðar verkfall, jafnvel í trássi við meiri hluta félagsmanna. Það er mjög bagalegt og það er mál sem verkalýðshreyfingin á að taka á. En félögin eiga sjálf að ráða því hvernig þau haga sínum málum. Það er þeirra að ákveða það og það er fyrst og fremst þeim til skammar ef þátttakan er lítil. En eins og menn hafa verið að benda á það dugar ekki til þess að ná fram réttmætri verkfallsboðun þó að Dagsbrún fylli það sem áður hét Austurbæjarbíó með 500--700 manna fundi.

Hér vil ég líka benda á eitt sérstaklega í sambandi við Dagsbrún og það gildir eflaust um fleiri stéttarfélög, að samkvæmt félagaskrá Dagsbrúnar, þá eru þar allir félagar, allir þeir sem eru á lífi. Þar er stór hópur af gömlum mönnum sem komnir eru yfir sjötugt með full réttindi. Þeir hafa full réttindi. Þeir hafa kosningarrétt. Er eðlilegt að krefjast þess að félagið skili á kosningafund þessum tilskilda fjölda félaga? Væri ekki rétt að athuga það út frá því að þetta séu t.d. félagar sem eru 70 ára og yngri? Menn hljóta að sjá að þetta gengur einfaldlega ekki upp. Ég hygg að þetta eigi við um öll verkalýðsfélögin, að minnst kosti þessi gömlu rótgrónu verkalýðsfélög, Verkakvennafélagið Framsókn og fleiri félög, að fólk heldur áfram að vera félagar í þeim. Það er í alls konar starfi fyrir aldraða og það heldur sínum réttindum en það er ekki réttmætt að krefjast þess af félaginu að svo og svo margir mæti til þess að greiða atkvæði um vinnustöðvun þegar --- ja, hvað getur maður ímyndað sér, kannski 10%--15% félaganna eru yfir sjötugt? Ég er bara að slá þessari tölu fram. Ég veit auðvitað ekki hversu margir þeir eru. En þetta er atriði sem mér finnst að þurfi að skoða mjög alvarlega.

Það sem líka kemur fram um sameiginlegar atkvæðagreiðslur er allt tengt þessari hugsun að það sé verið að gera heildarkjarasamninga fyrir vinnumarkaðinn sem ég vil segja að ég er ákaflega lítið hrifinn af m.a. vegna þeirra umbóta sem hér þurfa að eiga sér stað og vegna þess að ég er einfaldlega fylgjandi samningsfrelsi. Ég er fylgjandi því að félög hafi samningsfrelsi og ég tel líka að hugsunin um þessa ákveðnu launastefnu og að líta á launin sem nánast bölvald í samfélaginu, hagstærð sem alltaf þurfi að halda í böndum, er náttúrlega bara rugl. Einhver hefði sagt að þetta væri bull. En það er þarna einhver hugsun ríkjandi. Það er alltaf verið að reyna að koma böndum á launin. En menn verða að fara að gera sér grein fyrir því að við erum orðin hluti af stórum vinnumarkaði. Ég get vitnað til þess að við hæstv. félmrh. vorum einu sinni samherjar í umræðunni um Evrópska efnahagssvæðið. En það er auðvitað orðin staðreynd og ég hygg að við eigum eftir að sjá mjög aukin áhrif af því á komandi árum að fólk leiti meira eftir vinnu í öðrum löndum. Það verður fyrst og fremst að fólk fer héðan til annarra landa vegna þess að samanburðurinn verður okkur sífellt óhagstæðari og það að binda launamarkaðinn og launakjörin eins og menn hafa verið að gera hér er algerlega ótækt. Ég segi það enn og aftur. Ég veit ekki hvaða hagfræðikenningar liggja þar að baki. Ekki er það frjálshyggja, svo mikið er víst. (Gripið fram í: Framsóknarmennska.) Já, þetta er kannski einhver framsóknarmennska.

Tími minn er mjög að styttast en ég ætla að víkja að valdi sáttasemjara. Það er greinilegt að það er verið að styrkja stöðu sáttasemjara eða auka vald hans mjög verulega. Þar er sérstaklega eitt atriði sem við hljótum að gera mjög sterkar athugasemdir við og er í raun og veru alveg furðulegt. Það væri nú fróðlegt að fá að vita hvaðan það er ættað. Þetta er það sem þeir hjá Alþýðusambandinu kalla tengingu og þýðir að sáttasemjari fær vald til þess að láta félög með lausa samninga greiða atkvæði um kjarasamning sem eitthvert félag er búið að gera. Þetta er náttúrlega þvílík svipting á samningsrétti að þetta hlýtur að vera brot á ótal samningum og ákvæðum um mannréttindi. Þetta nær ekki nokkurri átt. Við tökum dæmi eins og hér var tekið fyrr í dag um að Verslunarmannafélag Reykjavíkur væri að gera samning fyrir sitt fólk og síðan eru meinatæknar með lausa samninga. Þá gæti sáttasemjari látið meinatækna greiða atkvæði um samning VR. Þetta er auðvitað einhver della sem nær ekki nokkurri einustu átt. (Félmrh.: Meinatæknar eru ríkisstarfsmenn.) Þeir eru ríkisstarfsmenn já. Jæja, tökum annan aðila af frjálsum markaði, hvaða félag sem er, mjólkurfræðinga eða hvað sem er. Það er reyndar rétt hjá hæstv. félmrh. að það er skilið á milli opinberra starfsmanna og hins almenna ... (Gripið fram í: Mjólkurfræðinga og trésmiði.) Já, einhverjir hópar sem geta haft mjög ríkulegar ástæður til að þurfa að gera sérsamninga eða vilja koma einhverjum ákveðnum málum í gegn, en eru þvingaðir til að greiða atkvæði um í raun einhvern annan samning sem er þá væntanlega almenns eðlis. Þetta er hluti af þessari svokölluðu launastefnu.

[16:15]

Eitt gott atriði er að finna hér, a.m.k. eitt sem var gott. Það er ákvæðið um viðræðuáætlun. Þurfi einhver á því að halda er það einmitt ríkið. Enginn hefur iðkað það í jafnríkum mæli þeirra sem eru að semja um kaup og kjör að draga viðræður fram á síðasta dag, helst að verkfall sé hafið þegar samninganefnd ríkisins sest við samningaborðið. Þess vegna vildi ég sjá þetta í aðeins breyttri mynd og veitti ekki af sem svipu á ríkisvaldið og aðra líka vegna þess að eflaust gæti slíkt oft og tíðum komið í veg fyrir verkföll og alvarlegar vinnudeilur. En þeir fullyrða hjá Alþýðusambandinu, og ég hef ekki tíma til að fara betur ofan í það, að þetta komi ekki að gagni í þeirri útfærslu sem hér er.

Hæstv. forseti. Ef allt hefði verið með felldu, hefðu Alþýðusambandið, BSRB, BHMR, Samband bankamanna, VSÍ og VMSÍ átt að koma allir að þessu máli og ná samstöðu um þær breytingar sem ég held að við getum verið sammála um að þurfi að gera á samskiptum á vinnumarkaði. Það er margt sem þarf að breyta í samskiptum á íslenskum vinnumarkaði og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að þau eru óeðlileg, hvort sem við lítum á ríkið eða Vinnuveitendasambandið og framkomu þess. En ríkisstjórnin hefur ákveðið að standa þannig að málum að hér er allt komið í háaloft. Það þarf ekki annað en líta á Morgunblaðið í dag með fyrirsögninni: ,,Málið er allt komið í uppnám. Það verður bitið á móti,`` segir formaður VMSÍ. Þegar slíkur andi ríkir og í hlut eiga einhver stærstu hagsmunasamtök og áhrifamestu hagsmunasamtök samfélagsins, er auðvitað ekki von á góðu. Ég vil hvetja hæstv. félmrh. til að leita sátta í þessu máli, draga þetta frv. til baka og gefa aðilum vinnumarkaðarins tóm til að semja sín á milli. Auðvitað þarf að sjá til þess að þar komi allir að. Þegar maður les þessa pappíra og skoðar þá nefnd sem hér var sett á laggir, er alveg hrópandi að sjá það hvernig alltaf er gengið fram hjá BHMR og bankamönnum sem auðvitað eiga að koma að löggjöf sem þessari. Við erum að ræða um löggjöf sem snertir hvern einasta vinnandi mann í landinu og þessi vinnubrögð, sem að mínum dómi eiga rætur að rekja til þeirra deilna sem löngum hafa einkennt samskipti BHMR og ríkisins, ná ekki nokkurri átt. Öll stéttarfélög eiga að eiga fulltrúa við borðið þegar verið er að semja um mál af þessu tagi.

Hæstv. forseti. Eins og í pottinn er búið með þetta frv. og mál allt, lýsi ég yfir fullri andstöðu við það. Það er nánast ekkert bitastætt í þessu frv. Það gengur þvert á hugmyndir um samningsfrelsi og réttindi vinnandi fólks. Það mun gera stéttarfélögunum mun erfiðara fyrir í kjarabaráttu sinni. Þarna er ákveðin miðstýringarhugsun að baki sem mér finnst afar ógeðfelld og ég held að þetta samrýmist engan veginn þeirri þróun sem átt hefur sér stað á vinnumarkaði í öðrum löndum og þeirri þörf sem vissulega er á sveigjanleika, bæði á vinnumarkaði og í kjarasamningum, jafnframt því að alltaf er þörf á mikilli samstöðu og ekki síst samstöðu til þess að standa vörð um réttindi vinnandi fólks.