Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 21. mars 1996, kl. 19:00:33 (4189)

1996-03-21 19:00:33# 120. lþ. 113.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur

[19:00]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Mér sýnist sem nokkuð sé dregið af hæstv. félmrh. og brosið sem var á honum fyrr í dag farið að leka niður eftir munnvikjunum. Þó er það svo, herra forseti, að ég tel að hæstv. félmrh. hafi ærna ástæðu til þess að vera glaður í dag vegna þess að honum hefur tekist eitt sem engum ráðherra þessarar ríkisstjórnar hefur tekist áður: Honum hefur tekist að blása nýjum eldmóði í verkalýðshreyfinguna á Íslandi og honum hefur tekist að sameina stjórnarandstöðuna. Má vel vera að þegar upp er staðið og við verðum búnir að búa til nýjan breiðan flokk jafnaðarmanna þá minnumst við hæstv. félmrh. sem eins af þeim sem kveiktu fyrstu eldana alveg eins og í dag minnumst við Jónasar frá Hriflu sem eins af brautryðjendunum. En, herra forseti, ég verð að segja að í dag skín stjarna Jónasar frá Hriflu ekki ýkja skært í Framsfl. Það er eins og allt sé öðruvísi en það var áður og með öðrum brag.

Herra forseti. Ég sakna þess tíma þegar hæstv. félmrh. var bara óbreyttur hv. þm. stjórnarandstöðunnar hér í þessum sölum, hélt uppi merki vinstra andófsins innan Framsfl. og orti ljóð um auðvaldið og vonsku Sjálfstfl. Hver var það þá sem kom aftur og aftur í þennan góða stól og sagði: ,,Allt er betra en íhaldið``? Hver var það sem sagði að þeir sem legðu lag sitt við Sjálfstfl. væru gengnir í björg? Herra forseti. Ég vil ekki halda því fram að hæstv. félmrh. sé genginn í björg en mér finnst þessi umskipti hans vera merkileg og ég vona að forseti fyrirgefi mér það þó ég segi að það minni á þjóðsöguna um umskiptinginn í álfheimum. (Félmrh.: Átján barna föður.) Já, má vel vera að hann verði þegar upp er staðið handhafi frumburðarréttarins að nýjum flokki jafnaðarmanna hér á Íslandi. A.m.k. hefur enginn hæstv. ráðherra gert neitt sem gerir það að verkum að núna er nauðsynlegt frekar en nokkru sinni fyrr að taka duglega til hendinni. Ástæðan er fyrst og fremst það virðingarleysi gagnvart launamönnum sem hæstv. félmrh. hefur sýnt í störfum sínum til þessa.

Það er reyndar furðulegt að horfa til þess, herra forseti, að hæstv. félmrh. reyndi í tíð fyrri ríkisstjórnar að gera það sem hann gat til að efla samstöðu með verkalýðshreyfingunni. Ég minnist þess að haldinn var landsfundur Framsfl. og þá gekk Framsfl. fram fyrir skjöldu og hann bauð fulltrúum úr verkalýðshreyfingunni, m.a. núv. hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að ávarpa Framsfl. En svo er sköpum skipt að nú er gervöll verkalýðshreyfingin komin í harða andstöðu við hæstv. félmrh. sem var þó áður merkisberi félagshyggjunnar innan Framsfl.

Herra forseti. Ég tel að ekkert mæli því í móti að gerðar verði breytingar á vinnulöggjöfinni og það er rétt sem fram hefur komið að það er kominn tími til þess að íhuga róttækar breytingar á vinnulöggjöfinni. En menn verða að íhuga hverjir það eru sem eiga að starfa eftir þeim leikreglum sem eru lagðar til grundvallar samskiptum á vinnumarkaði. Það eru auðvitað atvinnurekendur og það er verkalýðshreyfingin. Þær breytingar sem þarf að gera á samskiptum á vinnumarkaði verður því að gera í samráði við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur. Nú er það hins vegar svo að það sem gerst hefur er að einungis er hlustað á annan aðilann. Það eru einungis atvinnurekendur sem er hlustað á og það er auðvitað klént að það skuli vera hæstv. félmrh. sem áður tók slaginn jafnan með verkalýðshreyfingunni og félagshyggjuöflunum í landinu sem stendur fyrir því.

Ýmislegt í frv. hæstv. félmrh. er þess eðlis að það er meira en einnar messu virði að skoða það. Annar staðar finnst mér skína gegn góður vilji til að bæta úr agnúum en mér þykir að margt af því hafi skrumskælst í meðförum hæstv. ráðherra vegna fljótfærni og bráðlætis. Það kann vel að vera að færa mætti það til betri vegar. Mörg atriði eru hins vegar þess eðlis að ekki er hægt að samþykkja þau. En mér þykir á þessari stundu, herra forseti, að ekki skipti meginmáli hvort ég sem þingmaður Alþfl. er með eða móti þessu. Það sem mér finnst á þessari stundu ráða úrslitum um stuðning við frv. er hvernig það er til orðið. Það er til orðið með valdbeitingu og offorsi sem er ekki hægt að þola.

Við í þingsölum höfum líka orðið fórnarlömb þessa offors og valdbeitingar. Í dag hefur það gerst að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa komið og spurt stjórnarandstöðuna grannt út í afstöðu til einstakra hluta eða frv. í heild og verið undrandi á því að menn hafi ekki getað svarað fyrir endanlega afstöðu einstaklinga eða flokka til frv. Það er þannig, herra forseti, að forustumenn stjórnarandstöðunnar stóðu í þessum stóli í dag og fóru vinsamlegast fram á að fá meiri tíma til þess að ræða það frv. sem við erum með til umfjöllunar hið fyrsta sinni. Ástæðan var vitaskuld sú að frv. er í eðli sínu flókið, málið er viðkvæmt og snertir málefni sem verkalýðshreyfingin, sem allir flokkar stjórnarandstöðunnar tengjast með einum eða öðrum hætti, hefur talið vera sín helgustu vé. Þar á ég við verkfallsréttinn.

Mér finnst menn hafa rætt í dag tiltölulega gáleysislega t.d. um verkfallsréttinn, talað um hann eins og úrelt þing. En ég held að enginn hafi rekið það jafnkröftuglega ofan í þá sem þannig töluðu og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, sem er enn með saltstorku í hári og sólglit í auga, og sýndi auðvitað fram á að þó að mönnum sé meinilla við að ráðast til verkfalla, þá er það neyðarúrræði sem er ekki hægt að leggja af. Það er þing sem menn verða að nota þegar í nauðir rekur. Það sýnir saga Guðmundar Hallvarðssonar sem greindi frá því að í hans eigin verkalýðsfélagi hefðu menn verið með kröfugerð uppi á borðum atvinnurekenda í tíu mánuði og það hreyfði hvorki hár né taug hjá atvinnurekendum fyrr en boðað var til verkfalla. Það er algerlega ljóst að þarna er um helgan rétt að ræða sem er óhjákvæmilegt að standa vörð um. Ég held að margt í þessu frv. ráðist gegn verkfallsréttinum með hætti sem er ekki hægt að fallast á og ég kem að síðar í mínu máli.

Mál eins og vinnulöggjöfin og frv. til laga um stéttarfélög og vinnudeilur er svo viðkvæmt að menn ryðjast ekki fram með frumvörp og löggjöf um það nema það sé algerlega útséð um að samkomulagið náist með frjálsum samskiptum. Þetta mál kallar á friðsamlega sambúð stórvelda en það eru þau sem komast að samningum um kaup og kjör á almennum vinnumarkaði. Ég tel að í þessum efnum hafi hæstv. ríkisstjórn brugðist. Ég velti því líka fyrir mér, herra forseti, hvort vera kunni að henni sé kappsmál að sýna afl sitt, að láta kné fylgja kviði í þessu máli, vegna þess að hún hefur auðvitað þurft að sæta því að vera rekin til baka með önnur umdeild frumvörp á allra síðustu dögum. Ég rifja upp að það var gert með þeim hætti að einn af fyrrv. þingmönnum Sjálfstfl. kallaði hæstv. fjmrh. ónýtt fúasprek sem hæstv. forsrh. hefði sett á hné sér og brotið. Það kann því vel að vera að menn þurfi nú að sýna aflið gagnvart verkalýðshreyfingunni.

Ég held að einnig sé nauðsynlegt að rifja það upp að við Íslendingar erum aðilar að margvíslegum alþjóðlegum sáttmálum og þessa sáttmála verðum við að halda. Það hefur auðvitað komið í ljós að hæstv. félmrh. er illa við útlönd og vill að Íslendingar hafi sem minnst samskipti við þau. En það breytir því ekki að við erum t.d. aðilar að félagsmálasáttmála Evrópu. Við höfum verið virkir þátttakendur í Alþjóðavinnumálastofnuninni og ég held að það séu fleiri samningar sem vinnumarkaðinn varða sem Íslendingar hafa staðfest með undirskrift sinni. Rauður þráður í gegnum alla þessa sáttmála og samninga er að ríkisvaldinu er óheimilt að beita verkalýðshreyfinguna ofbeldi. Það helgast af því að alveg sama í hvaða flokki menn eru, til hvaða stjórnmálahreyfingar menn heyra, flestir viðurkenna að velferðarþjóðfélög Norðurlandanna og Vestur-Evrópru eru að verulegu leyti til komin fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar. Oft er það svo að mönnum finnst að þar sé um staðnaða risaaeðlu að ræða og mönnum finnst oft að verkalýðshreyfingin gæti verið miklu lipurri og nútímalegri og er margt til í því. Menn skulu samt sem áður ekki taka það frá henni að sagan geymir sigra sem hafa náðst öllum til heilla og fyrir baráttu hennar. Ég ítreka að Alþfl. er ekki á móti því að gerðar verði breytingar á vinnulöggjöfinni en hann er á móti þeirri aðferð sem hér virðist vera beitt.

Við viljum ekki þá aðferðafræði sem beitt var á Ítalíu fyrir 1930 og kennd er við Mussolini. Hún fólst í því að brjóta verkalýðsfélögin í spað. En margt af því sem er í þessu frv. er þess eðlis. Það má vel vera að það sé hægt að sannfæra mig um eitthvað annað en ég tel að þessi vinnubrögð séu ofbeldi og þetta er óþarfi. Það er langt í það að komið sé að því að reyni á það hvort það hefði náðst samstaða millum aðila vinnumarkaðarins. Það var einhver hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem nefndi í dag að það mætti líkja hæstv. félmrh. við óðan fíl í postulínsbúð. Ég tek ekki undir það. (SJS: Það var Sighvatur sem var það.) Ég tek ekki undir það, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Í samanburði við þennan þungstíga hæstv. ráðherra þá er fyrrv. heilbrrh. eins og léttstígur ljónsungi þegar kemur að samskiptum við fólk og þá skilja menn kannski tilfinninguna sem ég hef fyrir hæstv. ráðherra.

Ég vildi segja það, herra forseti, að ég tel að alls ekkert hafi reynt á það hvort það næðist sátt. Ég tel að fyrst við erum að tala um fíla þá hefði hæstv. ráðherra verið í lófa lagið að leyfa að reyna á þetta sem næmi meðgöngu fílsins. Eru það ekki 23 mánuðir? Ég tók reyndar eftir því að hæstv. ráðherra sagði fyrir örskömmu að hann væri orðinn leiður á því að bíða og nú virði ég það við hæstv. félmrh. að hann er kappsamur maður og vinnusamur og illu heilli gengur undan honum. Ég segi illu heilli vegna þess að mér er í vaxandi mæli farið að vera illa við verkin hans. Ég kann ekki við það þegar bernskuráðherra á mælikvarða ráðherradóms kemur hér eftir að vera búinn að vera ráðherra í fimm eða sex mánuði og segir: ,,Þetta gekk ekki lengur. Ég varð að sjá til þess að eitthvert frv. kæmi fram.`` Þegar það gerðist, herra forseti, hvernig var staðan þá? Hún var nákvæmlega þannig að menn voru í tiltölulega góðum samræðum um hvernig ætti að breyta samskiptareglum á vinnumarkaðinum. En hæstv. ráðherra var það ekki nóg. Það er eins og hann hafi tekið í sig einhvers konar pólitíska salmonellu vegna þess að frv. gekk niður af honum með þvílíkum hraði að það er allt fullt af agnúum sem ættu auðvitað ekki að sjást og ég veit að í hjarta sínu er hæstv. ráðherra á móti. Ég skil satt að segja ekki hvað honum gengur til. Fyrst við erum komin út í bókmenntafræðilegar útleggingar minnist ég þess að bókmenntafræðin hefur skilgreint þá merku hetju dr. Jeckyll and Mr. Hyde. Það er alveg ljóst hver það er sem er núna sestur í stól félmrh. (Gripið fram í: Hvaða maður er það?) Það er dr. Jeckyll en það er Mr. Hyde sem ég kunni vel við í stóli hins óbreytta stjórnarandstæðings. En þetta skýrist vel, herra forseti, þegar maður les greinargerðina með frv. hæstv. ráðherra. Þá kemur auðvitað fram að í skipunarbréfi vinnuhópsins sem var að véla um þetta er honum falið að kynna sér þróun samskiptareglna í nálægum löndum og bera saman hvernig samtök atvinnurekenda og launafólks koma saman til þess að ræða þau mál sem þeim eru sameiginleg. Og það var lagt fyrir þennan hóp að taka saman skýrslu um niðurstöðurnar og ef það kæmi í ljós að það þyrfti að breyta löggjöfinni var hópnum falið að setja saman tillögur um það efni.

Herra forseti. Þótt hæstv. ráðherra tali drjúgt um að það hafi verið búið að halda 48 fundi var það samt sem áður þannig að ekki var búið að ræða þau efni sem eru að stórum hluta uppistaðan í frv. Þegar ég segi þetta, herra forseti, þá byggi ég ekki á frásögnum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur eða einhvers annars sem var í nefndinni. Ég byggi á greinargerðinni sem var með frv. hæstv. ráðherra vegna þess að þar kemur þetta skýrt fram.

[19:15]

Áfangaskýrslunni frá nóvember má skipta í þrjá þætti. Í fyrsta lagi eru þar hugmyndir sem hópurinn hafði rætt ítarlega og þar má nefna viðræðuáætlun, miðlunartillögu, tengingarregluna og meðferð samningsumboðs. Í öðru lagi kemur líka fram að hópurinn telur, og ég vitna í greinargerðina, með leyfi forseta, að ,,það þurfi að huga að reglum um vinnudeilur, inntak þeirra og hvort efni séu til að setja nánari formreglur um ákvarðanir, vinnustöðvanir og framkvæmd þeirra``. Herra forseti. Ég legg áherslu á orðalagið ,,það ber að huga að``. Þetta er niðurstaðan í nóvember 1995.

Í þriðja lagi eru síðan reifuð atriði og tekið fram, að því er hæstv. ráðherra segir sjálfur í greinargerðinni, að hafi ekki verið rædd til hlítar. Þá erum við komin að hlutverki sáttasemjara og hinu umdeilda fyrirkomulagi atkvæðagreiðslu, hvernig á að boða til vinnustöðvana og vinnustaðafyrirkomulagið.

Herra forseti. Með öðrum orðum kemur fram í áfangaskýrslunni að þessi mikilvægu atriði eru órædd í nefndinni. Þar kemur einungis fram að það þurfi að taka þau til ítarlegri umræðu. Það er ekki gert og það má vera að þetta hafi leitt til þess að sumt í þessu frv. er þess eðlis að það er alls ekki hægt að samþykkja það jafnvel þó að það væri lagt fram með miklu meiri friði en núna er.

Herra forseti. Ég hegg eftir því í máli talsmanna stjórnarliðsins og hæstv. félmrh. að þegar verið er að réttlæta það að þetta frv. er lagt upp er talað um að verið sé að auka áhrif einstaklingsins, verið sé að draga úr vægi verkalýðsforustunnar. Verið sé að auka vægi einstaklingsins og réttindi hans. Það er látið líta svo út sem hér sé um afskaplega lýðræðislegt frv. að ræða enda kann það að vera svo að sínum augum líti hver á silfrið og það kann vel að vera að hér séu menn eins og kom fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals áðan sem telja að hér sé um verulega lýðræðisbót að ræða. Jafnvel þó að eitthvað kunni að vera til í því frá sjónarhóli hans, ef menn reyna að líta á þetta frv. hlutlaust og skoða hvernig réttur einstaklingsins er bættur eða aukinn, þá er a.m.k. hægt að komast að þeirri niðurstöðu, herra forseti, að það orki tvímælis að réttur einstaklingsins sé verulega aukinn.

Mér finnst að það beri á hroka hins máttuga gagnvart þeim sem má sín minna og ég skil ekki af hverju Framsfl. af öllum flokkum, Framsfl. sem fór í kosningar undir kjörorðinu ,,Fólkið í fyrirrúmi`` er einhver sálfræðileg nauðsyn á því að sýna fram á afl sitt. Af hverju telur hæstv. félmrh. eftirsóknarvert að reyna að neyta aflsmunar gagnvart fólki eins og kemur fram í framlagningu frv. og eins og kemur líka fram í einstökum atriðum þessa frv.? Þetta birtist á ólíklegum stöðum, herra forseti, en mér finnst t.d. að sú grein sem fjallar um skilgreiningu á vinnustöðunum sé ærið skrýtin og mér finnst talsvert mikill hroki og ekki nein bót fyrir rétt einstaklingsins að skilgreina t.d. fjöldauppsagnir sem vinnustöðvun. Í þessari grein telur hæstv. félmrh. að það sé mikil nauðsyn að leggja fjöldauppsagnir að jöfnu við vinnustöðvun. Þetta mætti skilja. Ég gæti skilið þetta ef ákvæðið væri takmarkað t.d. við stofnanir sem ynnu að öryggismálum sem tengdust að einhverju leyti almannahagsmunum. En það er auðvitað ekki svo. Hverjum einasta hóp starfsfólks er bannað að segja upp sem heild. Ég velti því fyrir hvort ekki sé verið að draga úr rétti fólks með þessum hætti. Ef t.d. starfsfólk einhvers fyrirtækis er orðið dauðþreytt á yfirgangi erfiðs atvinnurekanda, vill að leiðir skilji til fulls, geta menn einfaldlega ekki samkvæmt þessu látið hann róa og vistað sig á nýjum stað. Mér datt í hug þegar ég las þetta var að hér væri hæstv. félmrh. að hnýta gamla vistarbandið á nýjan leik með nútímalegu sniði. Hann er beinlínis að banna fólki að sýna óferjandi atvinnurekanda hvar Davíð kaupir öl réttlætisins með því að segja upp störfum sem heild. Ég tel þetta ekki rétt. Ég tel þetta fráleitt og ég tel að með þessu sé sneitt að þeim réttindum launamanna að fá að ráða því hverjum og hvar það selur vinnuafl sitt. Þarna er um ósamræmi að ræða. Hæstv. félmrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar segir í einu orði að hann vilji efla rétt og áhrif einstaklinganna innan verkalýðshreyfingarinnar en með þessu ákvæði tel ég að beinlínis sé ráðist að rétti einstaklingsins. Ég lít svo á að uppsögn sé einstaklingsbundinn réttur starfsmanns. Hann er ekki hluti af sameiginlegum rétti samtakanna. Ég tel að það sé grundvallarmunur á uppsögnum og vinnustöðvun, líka á fjöldauppsögnum. Uppsögn er ákvörðun einstaklings og hún þarf ekki að spegla neitt annað en hreinlega uppgjöf viðkomandi starfsmanns gagnvart þeim kringumstæðum sem viðkomandi atvinnurekandi hefur skapað honum og kannski viðurkenningu viðkomandi starfsmanna á vanmætti þeirra til þess að breyta þessum aðstæðum til bærilegs horfs. Vinnustöðvun er hins vegar félagslegt úrræði heildar, það er sameiginlegt neyðarúrræði einstaklinga sem hafa afsalað sér hluta af einstaklingsrétti sínum yfir til hinna formlegu samtaka og það er allt annað. Það er reginmunur á þessu tvennu, herra forseti.

Ég tel að ýmislegt fleira dragi fremur úr því að verið sé að auka rétt einstaklingsins með þessu frv., herra forseti. Ég bendi t.d. á að við ákveðnar aðstæður finnst mér að dregið sé úr rétti einstaklingsins miðað við heildarrétt stéttarfélags sem er vitaskuld í algerri andstöðu við yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar. Ég bendi á að þegar hópur félagsmanna vill leggja niður störf og fara í verkfall þarf miklu hærra hlutfall manna til að taka þátt í atkvæðagreiðslu en þegar félagið allt ákveður það. Það finnst mér vísa burt frá því að verið sé að auka réttindi hinna smærri eininga og einstaklingsins.

Herra forseti. Þegar sáttasemjari er kominn inn í ferli vinnudeilu er bersýnilega um verulega aukningu á miðstýringu að ræða. Þar með tel ég að réttur einstaklingsins sé fyrir vikið minni og tvímælalaust minni en í dag. Það má auðvitað deila um það hvort þetta sé rétt eða rangt. Það getur vel verið að við vissar kringumstæður sé nauðsynlegt að auka miðstýringu til þess að kalla fram lyktir á kjaradeilum. Hins vegar er ekki hægt að segja að það leiði til þess að réttur einstaklingsins sé aukinn. Ég tel því að ýmis atriði sé að finna sem eru þess eðlis að ekki er hægt að halda því fram að verið sé að auka rétt einstaklingsins innan verkalýðshreyfingarinnar, og á kostnað hvers?

Mér finnst enn eitt tengjast þessu líka. Ég hjó eftir því að í dag sagði hæstv. félmrh. í yfirgripsmikilli framsögu sinni eða ég skildi hann svo að hann væri þess fýsandi að vinnustaðarsamningar yrðu efldir. Ég er sömu skoðunar. Ég held að það sé vel þess virði að íhuga það. En ég fæ ekki betur séð, a.m.k. við fljóta yfirferð en að hæstv. ráðherra sé með frv. að draga úr því að vinnustðarsamningar séu fýsilegri kostur. Samkvæmt þessu frv. verður erfiðara fyrir hóp innan stéttarfélagsins að knýja fram vinnustöðvun ef í nauðir rekur en stéttarfélagsins alls. Einhver nefndi í dag Rafiðnaðarsambandið. Hvað gerist ef Rafiðnaðarsambandið ætlar að boða vinnustöðvun til að leggja áherslu á kröfur sínar? Þá þarf að fara fram leynileg atkvæðagreiðsla, ein af sex tegundum atkvæðagreiðslna sem er að finna í frv., en í þeirri leynilegu atkvæðagreiðslu þarf a.m.k. fimmtungur félagsmanna að taka þátt. Ef það er aðeins hópur úr félaginu á tilteknum vinnustað sem er í samningum og hyggst neyta verkfallsréttarins þá er lögákveðin þátttaka ekki fimmtungur, heldur 50%. Þetta túlka ég, hæstv. félmrh., þannig að ekki sé verið að ýta undir kosti vinnustaðarsamnings heldur þvert á móti. Má vera að þarna hafi hæstv. ráðherra verið fullfljótur á sér og ekki skoðað málið nægilega vel.

Herra forseti. Mig langar að ræða 1. gr. Þar er talað um að starfsmönnum fyrirtækis, sem eru yfir tilteknum fjölda eða að jafnaði a.m.k. 250 starfsmenn, sé heimilt að stofna þar stéttarfélag enda séu að lágmarki þrír fjórðungar þeirra félagsmenn. Það hefur verið sagt í dag að þetta sé partur af arfleifð Alþfl. Það er með vissum hætti rétt vegna þess að einn af þekktustu forustumönnum Alþfl., Vilmundur heitinn Gylfason, var baráttumaður fyrir þessu. Hins vegar er rétt að það komi líka fram að hann ræddi þetta innan Alþfl. á sínum tíma. Mig minnir að það hafi verið 1978 sem tillaga frá honum um þetta var felld á flokksþingi Alþfl. Þetta finnst mér nauðsynlegt að segja við umræðuna út af atriðum sem hafa komið fram fyrr í dag.

Herra forseti. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort eitthvað banni mönnum í dag að stofna vinnustaðarfélag. Ég spyr hæstv. félmrh.: Er eitthvað í gildandi lögum sem kemur í veg fyrir að menn geti stofnað vinnustaðarfélög? Ég held að í lögum sé ekki neitt, hins vegar held ég að í samningum séu ákveðin forgangsréttarákvæði annarra félaga sem kynnu þarna að koma gegn þessu en að öðru leyti held ég að það sé aðeins áhugaleysi starfsmanna. Hæstv. félmrh. gat þess í dag, svo að ég reki eftir minni, að 60 fyrirtæki og 33 ríkisstofnanir féllu undir undir 250 manna takmörkunina. Ég velti því fyrir mér af hverju, ef mönnum þykir það betra, fer ekki fólkið á þessum vinnustöðum og stofnar sitt eigið félag? Ég held að ekkert komi í veg fyrir það.

Ég tel hins vegar að nú þegar séu við lýði ákveðið afbrigði af þessu fyrirkomulagi sem þarna er lagt til vegna þess að í álverinu eins og hér hefur komið fram í dag, í sementsverksmiðjunni og á Grundartanga er fyrirkomulagið þannig að samningsumboð viðkomandi stéttarfélaga er framselt til trúnaðarmannanna og a.m.k. á einum staðnum hafa stéttarfélögin sérstaka fulltrúa í samninganefndum og ekkert held ég sem bannar mönnum að taka þetta upp víðar.

Það var göfugt af hæstv. félmrh. að segja að hann vilji beita sér fyrir því að draga úr launamun innan viðkomandi fyrirtækja. Það er í sjálfu sér göfugt markmið og mig langar þess vegna að spyrja hæstv. félmrh. hvort hann hafi einhverjar innlendar eða erlendar kannanir sem benda til þess að slíkir vinnustaðarsamningar leiði til minni launamuns innan fyrirtækjanna. Ef svo er þá er það auðvitað stór kostur og mælir með þessu fyrirkomulagi. En ég ítreka það, herra forseti, að ég held að ekkert mæli gegn vinnustaðarsamningum í dag og er út af fyrir sig alveg til umræðu um fyrirkomulag af þessu tagi.

[19:30]

Hins vegar hnýt ég aðeins um síðasta málsl. 1. gr. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Fer það þá eitt stéttarfélaga með samningsumboð fyrir starfsmenn.`` Þá velti ég því fyrir mér hvort hæstv. félmrh. sé að íhuga að nema úr gildi með lögum ákvæði í samningum verkalýðshreyfingar núna sem gilda um forgang stéttarfélaga á tilteknum svæðum. Ég fæ nefnilega ekki séð að þessi síðasti málsliður 1. gr. geti nokkru sinni komist til fullnustu nema það sé með einhvers konar lagalegum gerningi gripið til þess að skerða samningana um forgangsréttinn. Þá komum við aftur að öðru, herra forseti. Mjög fáir stjórnmálamenn dirfast að leggja til nema í ýtrustu nauðum að löggjafinn beiti valdi sínu til þess að spretta upp samningum. En ég fæ ekki annað sé en það verði nauðsynlegt ef þessi málsliður verður að lögum gerður.

Þá komum við að enn öðrum hlutum sem eru félagsmálasáttmáli Evrópuráðsins. Ég held að ef það ætti með þessum hætti að fara með lagavaldi inn í gildandi samninga verkalýðshreyfingar, mundi það óhjákvæmilega leiða til þess að hæstv. félmrh. yrði kaghýddur úti í Genf fyrir að hafa brotið félagsmálasáttmála Evrópu. Það viljum við auðvitað ekki að hendi hæstv. félmrh. því að hann er allt of góður drengur til þess að það verði tekið í hann í útlöndum. Þarna er hlutur sem hefur ekki verið ræddur nægilega vel.

Ég sagði, herra forseti, í ræðu minni áðan að ég og minn flokkur erum algerlega á móti því hvernig þetta frv. er til orðið og lagt fram og munum væntanlega ekki styðja það. Eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði: Alþfl. er á móti frv. við þessar kringumstæður. Þó vil ég segja að ég tel nauðsynlegt að fara með einhverjum hætti í að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki réttlætanlegt í nútímaþjóðfélagi að örfámennir hópar sem hafa í krafti sérstakrar stöðu sinnar miklu hvassara verkfallsvopn en hin stærri heild, geti notfært sér þennan aukna kraft sinn til þess að koma, eftir að samningum heildarfélaga er lokið, og knýja fram hærri laun. Ég tel það ekki réttmætt og ég segi fyrir mína parta að mér finnst að nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir að örfámennir hópar geti á þennan hátt lamað atvinnulíf heilla svæða, heilla atvinnugreina og jafnvel í sumum tilvikum vegið að því sem kalla má almannahagsmuni. Þá komum við hins vegar að því hvernig við eigum að reyna að koma í veg fyrir þetta.

Ég viðurkenni fúslega, herra forseti, að sökum þess hversu brátt þessa umræðu bar að hef ég ekki hugsað mig um til hlítar í því máli. En ég ímynda mér að svipaðar samskiptareglur og tíðkast í Danmörku og við höfum kallað tengingarregluna í frv. geti skotið byttu undir þennan leka í samskiptum á vinnumarkaðinum. Ég tel sem sagt að tengingarreglan sem er hérna inni, sé regla sem verði beitt í framtíðinni og ég er hlynntur því að hún verði þróuð þannig að það sé hægt að koma í veg fyrir þennan agnúa sem ég var að ræða áðan. Ég leyfi mér hins vegar að efast um það, herra forseti, að sá háttur sem notaður er í frv., geri það nægilega vel. Ég held líka að tengslin á milli valda ríkissáttasemjara og tengingarreglunnar séu slæm. Ég held að í þeim efnum sé hlutverk og valdsvið ríkissáttasemjarans allt of mikið. Hann getur tekið sjálfur ákvörðun um að beita tengingarreglunni ef hann telur að viðræður félaga séu komnar í hnút. Það er ansi mikið vald sem ríkissáttasemjari fær þarna. Og það er ýmislegt fleira sem því tengist sem er vert að ræða.

Ég nefni það t.d. að inni í þessu frv. er líka annað gott nýmæli sem Alþfl. við aðrar kringumstæður mundi taka fagnandi. Það eru ákvæði sem lúta að áætlun vinnumarkaðarins um viðræður. Ég held að það sé góður hlutur sem gæti leitt til miklu skilvirkari vinnubragða. Ég tel að það hafi verið brestur á því stundum í fortíðinni og ef menn hefðu haft ákvæði af þessu tagi hefði það sett mönnum beggja vegna borðsins, atvinnurekendum og verkalýðsforustunni, hnitmiðaðri verkefni. Það hefði knúið báða aðila vinnumarkaðarins til að skilgreina kröfur sínar og markmið. Þar af leiðandi hefði mátt ætla að samningagangurinn yrði miklu skilvirkari fyrir bragðið.

Nú er það hins vegar svo, herra forseti, að ég held að botninum undan þessari ágætu hugmynd hafi verið kippt með þeirri viðbót sem er að finna í frv. frá janúardrögunum sem þá voru kynnt. Þessi viðbót gerir ráð fyrir því að aðilar geti samið um það sín á milli hvort viðkomandi starfssvið verði undanþegið tengingarreglunni. Ég set sjálfan mig í spor verkalýðsforustu sem kæmi að slíkum samningum. Á hvað mundi ég leggja verulega mikla áherslu? Ég mundi leggja áherslu á að semja starfssvið mitt undan tengingarreglunni. Þar með er hætta á að stór hluti af viðræðum aðilanna sem miðuðu að því að búa til viðræðuáætlun fyrir gang samninganna mundi snúast um þetta og fyrir vikið yrði engin viðræðuáætlun til í samskiptum aðila vinnumarkaðarins og langmestur hluti þeirra yrði saminn af ríkissáttasemjara. Og það er allt annað heldur en upphaflega var stefnt að.

Herra forseti. Ef ég kem aftur að lýðræðinu, þá er það svo að ég tel að lýðræðinu sé ekki haldið nægilega til haga í ýmsum greinum frv. Ég tel t.d. að það sé allsendis ókleift að samþykkja lög sem fela í sér þau ákvæði sem hér er að finna í l-lið 6. gr., sem verður 31. gr., um miðlunartillögu. Mér finnst bókstaflega ekki hægt að bjóða fólki upp á kerfi sem gerir það að verkum að þó að yfirgnæfandi meiri hluti félagsmanna taki þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra sem greiða atkvæði sé á móti miðlunartillögu, þá er hún samt samþykkt. Það er skrumskæling á lýðræði, herra forseti. Það er alger skrumskæling á lýðræðinu. En það er eins og ég hef rakið fyrr í dag að það er hægt að taka dæmi af félagi þar sem atkvæðisbærir menn eru 2.000 talsins. 644 greiða atkvæði gegn tillögu en 662 með tillögu. Með öðrum orðum, 66,3% af atkvæðisbærum mönnum taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Meiri hlutinn fellir tillöguna en hún er eigi að síður samþykkt. Það er ekki hægt, herra forseti, að fallast á slíkt.

Ég verð líka að segja, herra forseti, að mér finnst heldur ankannalegt að finna í frv., þó flókið sé og þó málið sé mikilvægt, ákvæði um hvorki meira né minna en sex tegundir atkvæðagreiðslna. Ef ég hefði tíma, herra forseti, mundi ég fara aðeins yfir það. En mig minnir að í 2. gr., sem er breyting á 5. gr. laganna, sé gert ráð fyrir þrenns konar tegundum af atkvæðagreiðslu. Í 5. gr. er gert ráð fyrir að lögfest verði að samningur gildi frá undirritun nema hann sé felldur innan fjögurra vikna með meiri hluta atkvæða í leynilegri atkvæðagreiðslu þar sem minnst fimmtungur félagsmanna segir nei. Þetta er fyrsta formgerð atkvæðagreiðslunnar sem mælt er fyrir í 5. gr. En það er líka talað um að það sé hægt að viðhafa póstkosningu. Þá mundi aðeins gilda einfaldur meiri hluti. En þetta er sem sagt annað form atkvæðagreiðslu. Og síðan er nokkrum línum neðar gert ráð fyrir þriðja afbrigði atkvæðagreiðslu. Þar segir að í 5. gr. verði lögfest heimild til þess að hluti félagsmanna sem samningur tekur til greiði einir atkvæði um samninga að því tilskildu að það sé samið um það í kjarasamningum. En þá þarf hins vegar a.m.k. þriðjung félagsmanna til þess að segja nei, til þess að samningurinn falli og að sjálfsögðu meiri hluta.

Með öðrum orðum, herra forseti, í þessari einu grein er um að ræða þrjú mismunandi form atkvæðagreiðslu og í öllu frv. er að finna sex mismunandi afbrigði af atkvæðagreiðslu. Hefði ekki verið nær, hæstv. félmrh., að hafa minna offors en skoða málið betur. Það hefur verið talað um það, herra forseti, að það mætti líkja hæstv. félmrh. við ákveðna stórvaxna dýrategund í frumskógum Afríku. Ég vil ekki taka svo stórt upp í mig, herra forseti, en stundum finnst mér eins og hæstv. félmrh. hafi tekið sér skóflu í hönd, slegið í hausinn á manni og sagt síðan: Æ, ég hélt að þig klæjaði.