Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 11:20:02 (4364)

1996-03-22 11:20:02# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[11:20]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég nota mér þetta form til þess að beina spurningum til hv. síðasta ræðumanns. Mér fannst hann fjalla mjög málefnalega um það frv. sem liggur fyrir og er til umræðu. Þar sem mér er kunnugt um að þingmaðurinn sat í nefnd sem fjallaði um málið finnst mér fyllsta ástæða til að spyrja hvort hv. þm. hafi reynt að gera sér grein fyrir því hversu langt var í land með að svo ásættanleg niðurstaða næðist að málið gæti farið í þinglega umfjöllun.

Ég las úr máli hv. þm. að ýmislegt af því sem hér er á ferðinni sé til bóta. En mér heyrist að það sé hörð gagnrýni á málsmeðferð hæstv. félmrh., að hrifsa málið svona úr umfjöllun. Þess vegna langar mig að biðja um örlitla skýringu á því sem ég hef verið að velta fyrir mér undir þessari ræðu.