Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 11:21:40 (4365)

1996-03-22 11:21:40# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[11:21]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. þessa fyrirspurn sem er grundvallarspurning vegna þess að þetta mál snýst fyrst og fremst um aðferðir og leiðir til að ná markmiðunum. Það er munurinn á milli þeirra annars vegar sem vilja vinna hlutina í anda þess að framkvæmt sé af fúsum og frjálsum vilja og hinna sem vilja hafa lögþvingun og hlekki á fólki. Eins og ég gat um í ræðu minni áðan, eru þessi vinnubrögð og það sem hér er að gerast, gert samkvæmt kröfu atvinnurekenda. Þetta er gert samkvæmt kröfu Vinnuveitendasambandsins og Vinnumálasambandsins eins og kemur berlega fram í þeim ályktunum sem ég vitnaði í.

Ég held hins vegar að ýmsum þeim bestu markmiðum sem menn hafa verið að ræða um sé hægt að ná af fúsum og frjálsum vilja. Ef menn hafa viljann til að ganga til samninga, er hægt að ná þeim fram. Ef menn skoða þessar ályktanir sem fram hafa komið frá samtökum launafólks, er viljinn þar fyrir hendi til þess að efla og bæta vinnubrögðin, hann skortir ekki. Þann vilja hefur því miður skort frá atvinnurekendum og hjá þeirri ríkisstjórn sem vill fara að þeirra ráðum en ekki hinna.