Stéttarfélög og vinnudeilur

Föstudaginn 22. mars 1996, kl. 23:33:43 (4464)

1996-03-22 23:33:43# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, LB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[23:33]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki setið lengi á þingi og þekki því ekki vinnubrögðin hér svo vel. En vinnubrögð hæstv. félagsmálaráðherra hljóta að teljast hreint með ólíkindum. Á þriðjudagskvöldið er þessu frv. til breytingar á lögum nr. 80/1938 laumað inn í þingið í skjóli myrkurs. Á miðvikudegi er tilkynnt að taka skuli þetta frv. til meðferðar í þinginu, á fimmtudegi er það tekið til meðferðar og á verður að koma því til nefndar fyrir páskahlé. 58 ára gömlum lögum verður að koma til nefndar fyrir páskahlé, fyrr verður þingið ekki sent í leyfi. Ef þetta eru vinnubrögðin sem almennt tíðkast í þinginu, herra forseti, get ég ekki annað en dregið þau í efa.

Ekki veit ég hvort þessi vinnubrögð endurspegla frv. allt en við yfirlestur á því er ýmislegt sem kemur manni í opna skjöldu, svo vægt sé til orða tekið.

Í 1. gr. frv. er talað um að starfsmönnum fyrirtækis þar sem að jafnaði starfa a.m.k. 250 starfsmenn sé heimilt að stofna þar stéttarfélag. Þetta er á bls. 1. Á bls. 9 er síðan skilgreining á vinnustaðarfélögum og þar segir:

,,Vinnustaðarfélag starfsmanna í fyrirtækjum með a.m.k. 250 starfsmenn að jafnaði öðlast réttarstöðu stéttarfélags ...`` Þetta verður eiginlega að lesa aftur. Heimilt er að stofna stéttarfélag, herra forseti, sem fær réttarstöðu stéttarfélags. Það er ekki nema von að menn átti sig ekki alveg á því hvað hæstv. félmrh. er að fara.

Ekki fækkar öfugmælunum við frekari lestur því að í raun og veru er lestur þessarar greinargerðar hreinasti brandari. Í markmiðslýsingu frv. er tekið fram að markmiðið með því sé að fækka viðsemjendum. Í frv. kemur síðan fram að skilyrði til að stofna stettarfélög séu ekki önnur en þau að það starfi a.m.k. 250 starfsmenn í fyrirtæki. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru það 50--60 fyrirtæki sem uppfylla þessi skilyrði og 50--60 stéttarfélög í viðbót við þau 350 sem nú eru við lýði geta varla verið til þess fallin að fækka viðsemjendum. Það er a.m.k. mjög merkileg skilgreining.

Af hverju þessi tala 250 er valin frekar en einhver önnur er mér gersamlega fyrirmunað að skilja. Þrátt fyrir ítarlega leit í greinargerð með frv. er engar upplýsingar þar að finna um af hverju þau eru ekki 300, 600, eða þá 25. (Gripið fram í: Eins og Vilmundur vildi.) Eins og Vilmundur vildi, já. Vilmundur vildi 25. Með tilliti til þess sem ég sagði í upphafi um vinnubrögðin í þinginu held ég að samning þessa frv. hafi aldeilis staðið undir merkjum hvað það varðar.

Þá vantar enn fremur í þetta frv. skilgreiningu á því hvað er stéttarfélag. Ástæða þess að ég tel að það vanti í frv. er einkum sú að í frv. er sérstaklega kveðið á um mismunandi reglur um leynilegar atkvæðagreiðslur. Í 2. mgr. 2. gr. segir: ,,Þegar kjarasamningur hefur verið undirritaður af til þess bærum fulltrúum samningsaðila gildir hann frá undirskriftadegi, nema hann sé felldur við leynilega atkvæðagreiðslu með meiri hluta greiddra atkvæða og minnst fimmtungi atkvæða samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá innan fjögurra vikna frá undirritun, sé ekki á annan veg samið. Fari fram almenn leynileg póstatkvæðasgreiðsla meðal félagsmanna um gerðan kjarasamning gildir niðurstaða hennar óháð framangreindu. Nú tekur kjarasamningur einungis til hluta félagsmanna eða starfsmanna fyrirtækis og er þá heimilt að ákveða í kjarasamningi að þeir einir séu atkvæðisbærir um hann, enda komi þar skýrt fram hvernig staðið verði að atkvæðagreiðslu.``

Herra forseti. Ég fæ ekki betur séð en svo að ef stéttarfélag sem hefur 12 þúsund starfsmenn og samningar taki til um 11 þúsund starfsmanna af þessum 12 þúsund, hljóti það að vera hluti af stéttarfélagi og því hljóta að gilda þær reglur sem kveðið er á í seinni hluta málsgreinarinnar að þriðjungur atkvæðisbærra manna greiði atkvæði gegn honum. Hér vantar alveg að skilgreina hvað átt er við þegar verið er að tala um hver sé hluti félagsmanna og hvað teljist stéttarfélag. Það er fáránlegt að ef samningar ná til 90 eða 95% félagsmanna skuli farið eftir þessari reglu. Það er ekkert í þessu frv. að finna sem skýrir út fyrir mér hvað átt er við í þessu sambandi.

Hér segir enn fremur, herra forseti, í upphafi athugasemda um þetta:

,,Hér á landi hafa um langt skeið farið fram umræður um nauðsyn þess að bæta samskiptareglur á vinnumarkaði með það að markmiði að auðvelda og einfalda gerð kjarasamninga.`` Síðan er þessi stórkostlega setning einhvers staðar í frv. að ætlunin sé að fækka viðsemjendum. Ég fæ ekki betur séð en það geti varla verið til þess fallið að fækka viðsemjendum eða einfalda gerð kjarasamninga að fjölga stéttarfélögum um 50--60. Lái mér hver sem vill þótt ég skilji þetta ekki. Ég sé að hæstv. félmrh. er orðinn þreyttur og farinn að geispa.

Herra forseti. Í 4. gr. þessa frv. er að finna ákvæði sem ég tel nauðsynlegt að skoða mun ítarlegar en gert hefur verið og ég vænti þess að félmn. muni gera það. Það er ákvæði þess efnis að þegar félag atvinnurekenda eða stéttarfélag ætlar að hefja vinnustöðvun er hún því aðeins heimil að ákvörðun um hana hafi verið tekin við almenna leynilega atkvæðagreiðslu með þátttöku a.m.k. fimmtungs atkvæðisbærra félagsmanna samkvæmt atkvæða- eða félagaskrá og að tillagan hafi notið stuðnings meiri hluta greiddra atkvæða. Síðan kemur þetta hefðbundna ákvæði um leynilega almenna póstatkvæðagreiðslu en síðan segir í 2. mgr. sömu greinar:

,,Nú er vinnustöðvun einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til. Þarf þá helmingur atkvæðisbærra að taka þátt í atkvæðagreiðslu og meiri hluti þeirra að styðja tillögu um vinnustöðvun.``

Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, en að með þessu ákvæði sé verið að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, þ.e. að einstaklingar sem falla undir fyrri hlutann, þ.e. að þegar stéttarfélag í heild sinni boðar verkfall nægi 10%, ef nægilega margir taka þátt í atkvæðagreiðslunni, til þess að greiða því atkvæði að farið verði í verkfall. En í seinni hlutanum eru það a.m.k. 25%. Ég fæ ekki betur séð, herra forseti, að þarna sé verið að mismuna mönnum hvað varðar heimild til að boða til vinnustöðvunar. Ég held að þetta sé atriði sem hv. félmn. ætti virkilega að leggja vinnu í að skoða. (PHB: Hún gerir það.) Hún gerir það, segir hv. 16. þm. Reykv. og ég er ánægður með að heyra það.

Helsta markmið vinnulöggjafar er að tryggja vinnufrið í landinu. Lögin eiga að tryggja að af árekstrum á milli aðila vinnumarkaðarins hljótist sem minnst tjón fyrir atvinnulífið í landinu. Í ljósi þess að þetta frv., sem samkvæmt orðum hæstv. félmrh. er ekki annað hugleiðingar á blaði, kemur öllu á annan endann í samfélaginu er vart hægt að segja að þetta markmið vinnulöggjafarinnar náist með framlagningu þess.

Lögin um stéttarfélög og vinnudeilur hafa verið mikið til umræðu seinustu missiri. Kröfur hafa komið fram hjá vinnuveitendum um endurskoðun þessara tæplega 60 ára gömlu löggjafar, en verkalýðshreyfingin hefur ekki léð máls á þessum breytingum. Þegar vinnulöggjöfin var samþykkt á sínum tíma var það vilji löggjafans að lögin yrðu tekin til endurskoðunar. Í greinargerð með frv. vinnulöggjafarnefndar segir, með leyfi forseta:

,,Engum mun þó ljósara en nefndinni að ekki má við það búast að hér sé um neina framtíðarlausn að ræða. Annars staðar hefur fyrsta löggjöf af þessu tagi yfirleitt þarfnast lagfæringar og viðbóta eftir skamman tíma.`` Ég vil taka undir að það er nauðsynlegt að endurskoða þessa löggjöf. Eins og öll önnur mananna verk þarfnast hún endurskoðunar. En það er alveg ljóst að þegar verið er að setja samskiptareglur tveggja hópa er nauðsynlegt að um það ríki einhver sátt, ellegar er verr af stað farið en heima setið.

[23:45]

Síðan þessi lög voru sett eru liðin 58 ár og litlar breytingar hafa átt sér stað. 15 frv. til breytinga á vinnulöggjöfinni hafa verið flutt á Alþingi frá árinu 1939 og hafa verið samþykktar þrjár breytingar á þeim lögum, tvær minni háttar árið 1948 og 1958 og ein stærri þegar lögum um sáttastörf í vinnudeilum var breytt 1978. Þrjár þingsályktunartillögur hafa verið fluttar á Alþingi um endurskoðun vinnulöggjafarinnar en þær urðu ekki útræddar. Nokkur þingmannafrumvörp hafa einnig verið flutt sama efnis en ekkert þeirra náði fram að ganga. Strax árið 1939 fluttu sjálfstæðismenn frv. um hlutfallskosningar í stéttarfélögum en sjálfstæðismenn innan verkalýðshreyfingarinnar á þeim tíma töldu hlut sinn heldur rýran og börðust fyrir auknum rétti til þátttöku innan verkalýðshreyfingarinnar. Einnig töldu sjálfstæðismenn skipulag og uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar til þess fallið að koma í veg fyrir að þeir gætu komist þar til áhrifa.

Árið 1969 flutti Jón Þorsteinsson frv. um aukið vald sáttasemjara til að hafa áhrif á vinnudeilur, þar á meðal frestunarvald á verkföllum svo deiluaðilum ynnist meiri tími til lausnar vinnudeilu. Vilmundur Gylfason flutti árið 1980 tillögur um starfsgreinafélög, þar sem hugmyndin var að gera vinnustaðinn að grunneiningu þegar samið var um kaup og kjör. Þannig mundu allir þeir sem vinna við sömu framleiðslu á vöru, inna af hendi sömu þjónustu eða selja vinnu sína til sama vinnukaupanda, vera í sama starfsgreinafélagi. Alvarlegasta tilraun til að breyta vinnulöggjöfinni var þó gerð árið 1975 í tíð Gunnars Thoroddsens félmrh., en þá var samið nýtt frv. um stéttarfélög og vinnudeilur. Það frv. var reyndar aldrei flutt á Alþingi og þeim hugleiðingum hæstv. félmrh. á þeim tíma var því stungið ofan í skúffu og kannski væri hæstv. félmrh. það til eftirbreytni.

Í frv. Gunnars Thoroddsens voru margar breytingar fyrirhugaðar, t.d. að boðunartími vinnustöðvana yrði lengdur um þrjá sólarhringa úr sjö í tíu svo samningsaðilum og sáttasemjara veittist aukið svigrúm til að reyna að leysa vinnudeilu áður en hún kæmi til framkvæmda. Félmrh. yrði fengið frestunarvald á verkföllum og sáttasemjara yrði einnig veitt vald til að fresta vinnustöðvun um allt að fimm sólarhringa ætli hann að bera fram miðlunartillögu eða telja líkur á að deilan leysist.

Nú hefur það oft komið fram í umræðunni að menn eru yfirleitt nokkuð sammála um að það sé nauðsynlegt að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur taki til endurskoðunar vinnubrögð sín. Um það er ekki deilt í þessu máli. En það sem deilt er um er vitaskuld fyrst og fremst að það er verið að ganga inn í skipulagsmál verkalýðshreyfingarinnar. Það er það sem deilt er um í þessu máli enda er verkalýðshreyfingin mjög andvíg slíkum breytingum og hefur staðið einhuga um að verja sinn helgasta rétt sem er verkfallsrétturinn. Verkalýðshreyfingin hefur því miður ekki séð neina ástæðu til breytinga á vinnulöggjöfinni enda hefur hún frá hennar bæjardyrum séð, a.m.k. virðist svo vera, reynst vel; lögin þjóni tilgangi sínum, bindi höfuðþætti í starfsemi verkalýðssamtaka, rétt til félagsstofnunar og réttarstöðu gagnvart viðsemjendum ásamt verkfallsrétti. Þá hefur reynslan sýnt að tillögur um meiri háttar breytingar á vinnulöggjöfinni þar sem verkalýðshreyfingin er ekki höfð með í ráðum eru dæmdar til að mistakast. Það er því ekki óeðlilegt að ef breyta á vinnulöggjöfinni sæki verkalýðshreyfingin eitthvað í staðinn fyrir slíkar breytingar. Nefna mætti aukin áhrif starfsmanna eða fulltrúa starfsmanna í rekstri fyrirtækja er myndu ná til ákveðinnar stærðar fyrirtækja. Í nágrannalöndum okkar eru víða starfandi slík vinnuráð. Víða í Evrópu er slíkum vinnuráðum skylt að lögum að fjalla um einstök málefni, svo sem fjárhagsáætlun og uppbyggingu fyrirtækja, vinnutilhögun og nýja starfshætti, afkastahvetjandi launakerfi og starfsmannamál.

Í Þýskalandi og Hollandi hafa fulltrúar starfsmanna í vinnuráðum lagalegan rétt til að seinka ýmsum mikilvægum ákvörðunum stjórna fyrirtækja. Eins og raunin er með verkalýðshreyfinguna og verkfallsréttinn, þá er hætt við að vinnuveitendur yrðu lítt fúsir til að framselja réttinn til að stjórna fyrirtækjum.

Þá er komið að kjarna málsins, hvort nokkur þörf sé á að breyta vinnulöggjöfinni. Spurningin er hvort aðilar vinnumarkaðarins geti ekki tekið upp nýjar starfsaðferðir við gerð kjarasamninga líkar þeim sem Ísal-samningurinn sem gerður var sl. vor felur í sér. Nýleg rannsókn í Bretlandi sýnir að stjórnendur fyrirtækja sem hafa tekið upp vinnustaðarsamninga eru sammála um að slíkt fyrirkomulag við gerð kjarasamninga hafi dregið úr verkfallsátökum og komið í veg fyrir launaskrið. Með því að fara meira inn á brautir vinnustaðarsamninga þar sem mörg stéttarfélög eða fulltrúar starfsmanna koma saman að sama samningsborðinu og semja sameiginlega við atvinnurekenda mundi skapast grundvöllur fyrir betra fyrirkomulagi en nú ríkir. Þetta fyrirkomulag er annað en það sem mælt er fyrir um í þessu frv. Hér er verið að tala um að stofna stéttarfélög, að stéttarfélög komi til á vinnustöðum og hafi samningsumboðið. Fyrirkomulagið í Bretlandi er annars eðlis. Slíkt fyrirkomulag sem ég vísaði til hér áðan mundi spara tíma stjórnenda fyrirtækja sem fer í að semja við mörg og ólík verkaýðsfélög jafnframt því að vera vettvangur þar sem stjórnendur og fulltrúar starfsmanna geta skiptst á skoðunum um ýmis málefni er varða framtíð og rekstur fyrirtækis, stefnumótun og allar fyrirhugaðar breytingar á rekstri fyrirtækisins kynntar. Þannig fengju starfsmenn meiri innsýn í stöðu fyrirtækis og gerðu sér betri grein fyrir stöðu þess. Allir kjarasamningar eru gerðir á sama tíma og væru í gildi jafnt, til langs tíma. Þetta kæmi í veg fyrir launaskrið sem vill oft verða þegar ákveðnir hópar sækja kjarabætur eftir að stór heildarsamtök launþega hafa gert kjarasamning.

Herra forseti. Þessi umgjörð sem hér er er kannski alveg dæmigerð fyrir þau vinnubrögð sem uppi hafa verið höfð við samningu þessa frv. þar sem hæstv. félmrh. hefur setið einn undir öllum þeim skömmum sem yfir hann hefur rignt. En kjarni málsins í þessu er vitaskuld sá og því mega menn ekki gleyma, að launþegar og atvinnurekendur geta hvorugir án annars verið þegar öllu er á botninn hvolft og eru hagsmunir sameiginlegir en ekki andstæðir. Því er mikilvægt fyrir aðila vinnumarkaðarins að taka upp nýjar leikaðferðir við gerð kjarasamninga.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar enda klukkan að verða tólf.