1996-03-23 02:18:08# 120. lþ. 114.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur

[26:18]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það er satt að segja nokkuð sérkennileg staða uppi sem ég tel óhjákvæmilegt að vekja athygli á.

Stjórnarliðið er búið að sækja það af mikilli hörku að þetta mál verði afgreitt til nefndar eftir 1. umr. Síðan þegar ljóst er að umræðu er lokið, þá kemur í ljós að stjórn stjórnarliðsins heldur ekki betur utan um sitt fólk en svo að það er ekki hægt að ganga til atkvæða. Það er satt að segja alveg ótrúlegur slappleiki hjá forustumönnum stjórnarþingflokkanna. Og það er rétt hjá hæstv. iðnrh., ég heyri að hann er að hvetja hv. þingflokksformann Sjálfstfl. til að láta þetta mál til sín taka og láta þessi orð ekki liggja óbætt hjá garði því að þetta er auðvitað alveg með ólíkindum. Þingið er búið að starfa í heilan sólarhring og svo þegar hægt er að ganga til atkvæða, þá taka menn sér hlé langtímum saman til þess væntanlega að menn geti lagt frá sér orðurnar eftir partíin og lagt þær í flosöskjurnar og brotið saman fegurðardrottningarborðana sem hafa verið utan um þá suma í kvöld í partíunum.

Ég vil spyrja, hæstv. forseti: Hvað á þetta gauf að halda lengi áfram? Hvað hyggst stjórn þingsins halda lengi áfram með þetta gauf? Ótrúleg vinnubrögð.