Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 10:52:10 (4527)

1996-04-11 10:52:10# 120. lþ. 116.4 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[10:52]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Í athugasemdum með þessu frv. um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem fjallar um heimild til fjmrh. um nauðasamninga vegna greiðsluerfiðleika segir á þá leið að frv. sé tilkomið til þess að efna fyrirheit í stjórnarsáttmála. Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Stuðla verður að því að einstaklingar sem eiga í alvarlegum greiðsluerfiðleikum, hafi möguleika á að ná tökum á fjármálum sínum.``

Því næst segir að af hálfu ríkisstjórnar sé reynt að nálgast þetta mál annars vegar á grundvelli þessa frv. fjmrh., hins vegar með frv. hæstv. dómsmrh. um réttaraðstoð við einstaklinga og máli sem félmrh. hefur flutt um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

Í athugasemdum með frv. koma fram ákaflega athyglisverðar upplýsingar um þann þátt greiðsluerfiðleika einstaklinga og heimila sem lýsir sér í sívaxandi fjölgun gjaldþrota einstaklinga. Jafnframt kemur fram skýring á því en hún er fyrst og fremst sú að í fjórum tilvikum af hverjum fimm koma beiðnir um gjaldþrotaskipti fram frá innheimtumönnum ríkissjóðs. Með öðrum orðum er það fyrir atbeina ríkissjóðs og hæstv. fjmrh. sem gjaldþrotum einstaklinga hefur fjölgað mjög á undanförnum árum vegna vangoldinna skattaskulda. Því er lýst af hverju þetta er, þ.e. að innheimtumenn ríkissjóðs hafa ekki mælt með nauðasamningum og hafa talið þetta nauðsynlegar aðgerðir, bæði út frá jafnræðisreglu og eins út frá almennri hagsmunagæslu ríkissjóðs. Með öðrum orðum er það sá aðili, sem raunverulega er frumkvæðisaðili að fjölgun gjaldþrota einstaklinga, sem hér fer fram á það við hv. Alþingi að fá heimild til þess að taka upp nauðasamninga. En það er heldur betur bundið ákveðnum skilyrðum. Og hver eru skilyrðin? Skilyrðin eru þau helst að viðkomandi aðilar, og það reyndar ekki bara einstaklingar heldur einnig lögaðilar samkvæmt þessu frv., skuldi ekki skatta. Þeir mega mega með öðrum orðum ekki skulda virðisaukaskatt, ekki staðgreiðslu opinberra gjalda, ekki tryggingagjald og vörugjald. Þá spyr maður: Úr því að meginástæðan fyrir fjölgun gjaldþrota einstaklinga eru einmitt hertar innheimtuaðgerðir innheimtuaðila ríkissjóðs en meginskilyrðið fyrir heimild til nauðasamninga er að viðkomandi aðilar skuldi ekki skatta, hver verður þá efndin á þessu í framkvæmd? Þeir sem skulda skatta eru þeir sem helst hafa verið lýstir gjaldþrota og synjað um nauðasamninga. Síðan eru skilyrðin fleiri, nefnilega að þeir aðilar sem hér um ræðir eigi ekki hlut að máli vegna endurákvörðunar skattyfirvalda vegna skattsvika og loks að það sé mat hagsmunaaðila ríkissjóðs að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningum heldur en þeirri niðurstöðu að enda í gjaldþrotum.

Það er ástæða til þess, virðulegi forseti, að vekja athygli á því að málið sem hér er verið að fjalla um í þessum þremur frumvörpum ríkisstjórnarinnar er býsna stórt, greiðsluvandi heimilanna. En úrræðin sem er beitt til þess að leysa þau eru býsna smá í sniðum. Nú langar mig, virðulegi forseti, til þess að leiða fram vitni um það vegna þess að þau liggja fyrir á þingskjali. Það er nefnilega óhjákvæmilegt að rifja það upp að það er eins og fjallið hafi tekið jóðsótt en fæðst lítil mús þegar við rifjum upp málflutning frambjóðenda annars stjórnarflokksins fyrir kosningar um þetta mál, greiðsluerfiðleika heimilanna. Það hefur verið sagt áður í þingsal úr þessum ræðustóli að það sé leitun á því í stjórnmálasögunni á Íslandi að frambjóðendur nokkurs flokks hafi fyrir kosningar blekkt jafnmarga með jafninnstæðulitlum loforðum og frambjóðendur Framsfl. gerðu fyrir kosningar í nákvæmlega þessu máli. Og þeir gerðu það ekki bara með innihaldslausum yfirlýsingum fyrir kosningar, heldur gerðu þeir það með því að leggja fyrir Alþingi, fyrir kosningar frv. til laga um lausn á þessu vandamáli, þ.e. frv. til laga um greiðsluaðlögun. Og hverjir voru flutningsmenn þess? Það var t.d. hæstv. núv. iðnrh. og viðskrh., Finnur Ingólfsson. Það var hæstv. utanrrh. og leiðtogi Framsfl., kletturinn í hafinu samkvæmt auglýsingunum, hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson, það var hæstv. ráðherra heilbrigðis- og tryggingamála, Ingibjörg Pálmadóttir, og fleiri málsmetandi andans menn úr þingflokki Framsfl., þeirra á meðal hv. þm. og formaður þingflokks, Valgerður Sverrisdóttir, og formaður bankaráðs Búnaðarbankans á Íslandi, ekki Litáen, hv. þm. Guðni Ágústsson, og fleiri.

Þeir lýstu þessu vandamáli sem stærsta vandamáli þjóðarinnar fyrir seinustu kosningar. Þeir sögðu: Hér er algjört neyðarástand ríkjandi í þjóðfélaginu vegna greiðsluerfiðleika heimilanna. Við lofum því að við munum leysa þetta mál. Og góðir hálsar: Ykkur er óhætt að trúa okkur vegna þess --- og svo veifuðu þeir þessu skjali --- að við höfum lagt fram á Alþingi frv. til laga sem leysir málið í eitt skipti fyrir öll, frv. til laga um greiðsluaðlögun. Og þá var ekki verið að bjóða upp á nauðasamninga fyrir þá sem væru í skuld við ríkið út af sköttum og þá var ekki verið að bjóða upp á einhverja lítilfjörlega réttaraðstoð þegar allt væri komið í óefni og ekki heldur verið að segja eitthvað um að það mætti kannski eitthvað lengja í hengingaról þeirra um skulda meðlög upp á nokkra milljarða. Nei, það var heildarlausn. Og, með leyfi forseta, langar mig til þess að rifja upp að gefnu tilefni úr þessum ræðustól hvað þessir leiðtogar Framsfl. sögðu við kjósendur og reyndar við hv. þingmenn fyrir seinustu kosningar. Þeir sögðu svo í greinargerð með þessu frv., með leyfi forseta:

,,Tilgangur þessa frv. er að gefa þeim einstaklingum sem eru í alvarlegum og viðvarandi greiðsluerfiðleikum möguleika á því að ná stjórn á fjármálum sínum því að neyðarástand hefur skapast á þúsundum heimila í landinu þar sem gjaldþrot blasir við mörgum þeirra.`` --- Því má skjóta inn til skýringar úr athugasemdum hæstv. fjmrh. að þetta neyðarástand stafar í fjórum tilvikum af hverjum fimm af innheimtuaðgerðum ríkissjóðs og samkvæmt þessu frv. mega menn ekki skulda skatta ef nokkuð á að bjóða upp á nauðasamninga þannig að ekki er það nú lausnin. --- Síðan segir hér:

[11:00]

,,Það hefur skapað margvísleg félagsleg vandamál, lagt auknar byrðar á félagsmálastofnanir, aukið örvæntingu einstaklinga og fjölskyldna og skapað sár í þjóðfélaginu sem seint munu gróa.``

Virðulegi forseti. Það var ekki verið að tala um að setja plástur á þessi sár. Það var verið að tala um að græða þessi sár með heildarlausn í formi þessa frv. Svo áfram sé haldið lestrinum, með leyfi forseta:

,,Tvær meginástæður eru fyrir greiðsluerfiðleikum heimilanna, í fyrsta lagi húsnæðismálin, í fyrsta lagi húsnæðismálin``, sem heyra undir hæstv. húsnæðismálaráðherra, Pál Pétursson og hefur enn ekki komið sér til þess verks að leysa vanda þúsunda heimila eða græða þau djúpu sár sem hann lýsti svo fjáglega fyrir kosningar. Vandinn var sem sé í fyrsta lagi húsnæðismálin ,,sem birtast í göllum húsbréfakerfisins, styttri lánstíma, hærri vöxtum og þar af leiðandi aukinni greiðslubyrði og í öðru lagi vaxandi atvinnuleysi, stórhækkaðir skattar, auknar álögur í formi þjónustugjalda, lækkun barna- og vaxtabóta og vaxandi kjaraskerðing.``

Virðulegi forseti. Í þessari tilvitnun kemur fram greining Framsfl. fyrir kosningar á því hversu hrikalegur þessi vandi er, hversu djúpstæður hann er og hversu sársaukafullur hann er. Það vantaði ekki skýringar á þessu vandamáli fyrir kosningar. Það var ekki bara að menn skulduðu skatta. Og síðan lausnin. Í þessu skjali segir, með leyfi forseta:

,,Til að koma í veg fyrir þá holskeflu gjaldþrota,`` 4/5 að undirlagi ríkisins, ,,sem nú blasir við og gera mun þúsundir fjölskyldna heimilislausar, þarf að grípa til björgunaraðgerða til að aðstoða fólk við að greiða úr skuldavandamálum heimilanna, vandamálum sem þegar eru orðin svo mikil að heimilin ráða ekki við þau. Margt þarf að koma til, svo sem greiðsluaðlögun, lenging lána, félagsleg aðstoð og veiting greiðsluerfiðleikalána.

Í frumvarpi þessu er lagt til að lögfestar verði reglur um greiðsluaðlögun þar sem skuldurum verði hjálpað til að komast út úr mesta svartnættinu. Markmiðið með greiðsluaðlögun er að skuldari fái lánskjörum breytt þannig að greiðslubyrði verði léttari. Breyting á lánskjörum getur falið í sér að vöxtum og/eða lánstíma sé breytt eða skuld lækkuð eða fryst um tíma á meðan fólk leitar lausna á tímabundnum erfiðleikum t.d. vegna atvinnuleysis, veikinda og fleira. Greiðsluaðlögun kemur aðeins til greina hafi hún í för með sér ávinning fyrir skuldara, lánardrottna og samfélagið í heild. Ávinningur fyrir skuldarana verði sá að þeir geti staðið í skilum með skuldina ...``

Það er ærin ástæða til þess að minna á það, virðulegi forseti, hvað þeir sem sitja nú í ríkisstjórn Íslands, annars vegar í embættum húsnæðis- og félagsmálaráðherra og hins vegar í embætti heilbr.- og trmrh., sögðu við kjósendur á Íslandi fyrir kosningar. Þeir sögðu: Þetta er helsti vandi, helsta þjóðfélagsmein á Íslandi. Hér duga engar skottulækningar. Hér duga engir plástrar á sárin. Hér þarf heildstæðar lausnir. Hér þarf víðtækar lagaheimildir, hér þarf lagareglur um allsherjarskuldaskil þeirra sem eru í greiðsluerfiðleikum, einstaklinganna og heimilanna í landinu.

Hverjar eru efndirnar? Efndirnar eru þær að þrátt fyrir að hafa nú setið marga mánuði á stól ráðherra félags- og húsnæðismála sýndi hæstv. félmrh. eitt frv. sem hann var gerður því sem næst afturreka með að því er varðar breytingar á lánskjörum í húsbréfakerfinu vegna þess að tillögur hans reyndust illa hugsaðar, vangrundaðar og kom á daginn að þær mundu raunverulega ekki leysa nokkurn vanda. Síðan kemur smáfrv. um réttaraðstoð og loks núna frv. frá hæstv. fjmrh. sem kveður einfaldlega á um það að skilyrði fyrir því að taka yfirleitt á þessum málum með heimild til nauðasamninga sé að menn skuldi ekki skatta en jafnframt tekið fram að 4/5 af gjaldþrotunum eru það einmitt vegna vangoldinna skattaskulda. Með öðrum orðum, hér er ég að lýsa dæmi um einhvern stórkostlegasta blekkingaleik sem efnt hefur verið til í íslenskri pólitík á undanförnum árum, blekkingaleik sem hafði þau áhrif að færa Framsfl. völdin sem leiddi til þess að mikill fjöldi kjósenda lagði trúnað á þetta blekkingaskjal, kaus Framsfl. í góðri trú en horfir nú upp á það að efndirnar eru allar í skötulíki. Og því næst er hæstv. ráðherra horfinn úr salnum, að sjálfsögðu, það er venju samkvæmt vegna þess að það er að sjálfsögðu ekki gott að sitja undir því að vera minntur á þessi loforð. En þetta er bara einn kapítuli af mörgum af loforðasúpu Framsfl. á þeirri tíð.

Það er ekki mikið um þetta frv. að segja. Það fer til sinnar nefndar og það er svo smátt í sniðum og mun breyta svo litlu í samanburði við þá myndrænu lýsingu sem gefin var fyrir kosningar á þessu sem stærstu og sársaukafyllstu þjóðfélagsmeinsemd sem við væri að fást. Spurningin er mjög einföld: Hvernig stendur á því að ráðherrar Framsfl., sem tókst að blekkja kjósendur til fylgis við sig, sitja nú að völdum, ráða þessum málum sem um er að ræða og koma ekki með frv. sitt sem þeir lögðu fram fyrir kosningar, heldur una því að samstarfsflokkurinn, hæstv. fjmrh., og hæstv. dómsmrh., setji plástra á sárin og geri þá in toto, Framsfl. frá leiðtoganum og niður úr, að staðfestum ómerkingum orða sinna frá því fyrir kosningar?

Þetta dæmi sem ég hef rakið ætti að vera skráð feitu letri í stjórnmálasögu Íslendinga sem dæmi um ómerkilega kosningabaráttu, dæmi um fullkomna sýndarmennsku, dæmi um blekkingaleik og dæmi um fullkomið alvöruleysi sem lýsir sér í vanefndum við fjölda fólks sem átti vissulega í erfiðleikum og var blekkt með loforðum af þessu tagi. Þau þrjú mál sem hér um ræðir leysa ekki þann vanda sem við er að fást og í raun og veru er aðeins eitt sem eftir er. Það er að spyrja: Hvernig stendur á því að ráðherrar Framsfl. viðurkenna með þögninni og aðgerðarleysinu að þeir meintu ekki eitt einasta orð með því sem þeir sögðu í þingsalnum á þessu þskj. og því sem þeir sögðu við kjósendur fyrir kosningar um þetta mikla mál?