Íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 12:30:45 (4546)

1996-04-11 12:30:45# 120. lþ. 116.5 fundur 394. mál: #A íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins# (leiga, sala embættisbústaða o.fl.) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[12:30]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég bað um orðið einmitt til þess að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, en hæstv. fjmrh. mótmælti. Hún sagði að þessi fríðindi sem snúa að embættisbústöðum væru hluti af launakjörum fólks. Ég tel að svo sé einmitt og sérstaklega úti á landsbyggðinni. Ef við erum að tala um t.d. kennara og hjúkrunarfræðinga, það má vel vera að þeim tilvikum hafi fækkað þar sem þetta eigi við, en þau tilvik eru þó til staðar, þá eru að sjálfsögðu fríðindi sem felast í frírri eða ódýrri búsetu gífurlega stór hluti af launakjörum. Og þó að það hafi ekki verið talið beinlínis vera það út frá einhverjum stífum skilgreiningum, þá gefur það auga leið að þarna er um verulega stóran hluta af launakjörum fólks að ræða.

Þetta tengist líka því sem snýr að landsbyggðinni og í þessu hafa einmitt falist möguleikar landsbyggðarinnar til þess að fá til sín fólk. Það er vegna þess að það hefur verið boðið upp á betri kjör að þessu leyti heldur en bjóðast í bænum og það hefur oft og tíðum haft grundvallarþýðingu fyrir landsbyggðina þegar þangað hefur þurft að fá fólk í ákveðin störf.

Ég vildi beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra í kjölfarið. Í 4. gr. er talað um það að fjmrh. sé heimilt án auglýsingar að selja ...

(Forseti (GÁ): Það er erfitt að gera það, hv. þm., undir þessum lið.)

Nú, já.

(Forseti (GÁ): Hv. þm. er í andsvari við hv. 14. þm. Reykv.)

Já. En ég vil þá vekja athygli á því sem þar kemur fram --- ég hlýt að mega vekja athygli á því --- að í 4. gr. er talað um að fjmrh. sé heimilt án auglýsingar að selja ríkisstarfsmönnum með sérstökum kjörum það húsnæði sem þeir hafa nú á leigu og búa í, enda sé húseignin staðsett í sveitarfélagi með fleiri en 1.000 íbúum. Og síðan segir í greinargerð að starfsmönnum ríkisins verði ekki séð fyrir húsnæði eða veitt aðstoð til að eignast húsnæði ef þeir búa á þéttbýlissvæðum þar sem venjulegur markaður er fyrir íbúðarhúsnæði til kaups eða leigu. Mér þótti forvitnilegt að sjá þetta ákvæði einkum með tilliti til þess að maður veltir því fyrir sér hvað er venjulegur markaður og hvað er í raun og veru lagt þarna til grundvallar. Hvaða mat er það sem þarna er lagt til grundvallar þegar er miðað við 1.000 íbúa?