Þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 15:46:28 (4565)

1996-04-11 15:46:28# 120. lþ. 116.6 fundur 423. mál: #A þjónustusamningar og hagræðing í ríkisrekstri# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[15:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða frekar um landafræði hv. þm. Það var hann sem hóf máls á því að ræða um Nýja-Sjáland. (ÖJ: Fjmrh. sagði að vel hefði tekist til þar í landi.) Ég sagði það vegna þess að hv. þm. nefndi Nýja-Sjáland sem dæmi um hið gangstæða í ræðu sinni. Í öðru lagi var það ekki heldur ég sem hóf máls á launamun í fyrirtækjum sem væri afleiðing stefnu sem kæmi fram í öðru frv. en hér er til umræðu. Þess vegna ætla ég ekki heldur að ræða það hér. Það getum við rætt þegar það frv. kemur til umræðu.

Ég ætla að ræða um atvinnuleysisstefnuna sem kallast svo. Ég vil benda á að hv. þm. er algerlega úr takt við samtíðina. Það verður að fara marga áratugi aftur í tímann til að finna menn með svipuð viðhorf og hann hefur hér. (ÖJ: Til atvinnuleysisins?) Til þeirra viðhorfa sem koma fram hjá honum að hagræðing muni leiða til varanlegs atvinnuleysis. Ef það væri rétt hagfræði hefðu menn ekki ekki átt að finna upp sláttuvélina. Þeir ættu bara að halda áfram að slá eins og í gamla daga með orfi og ljá. Menn hefðu ekki átt að finna upp steypuhrærivélina, þeir ættu að handhræra steypu. Það þarf miklu fleiri menn til þess. (ÖJ: Þetta er ómerkilegur útúrsnúningur.) Svona mætti lengi telja. Staðreyndin er sú að hagræðing og meiri samkeppni leiðir til þess að allir græða, ný störf verða til og lífskjörin batna. Þetta eru staðreyndirnar sem blasa við í öllum löndum í kringum okkar.