Vörugjald

Fimmtudaginn 11. apríl 1996, kl. 19:41:13 (4600)

1996-04-11 19:41:13# 120. lþ. 116.9 fundur 445. mál: #A vörugjald# (magngjald o.fl.) frv. 89/1996, 444. mál: #A virðisaukaskattur# (vinna við íbúðarhúsnæði) frv. 86/1996, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur

[19:41]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það ber þá nýrra við ef það hefur orðið efnisleg umræða í þingflokki Sjálfstfl. um þingmál sem lögð eru fram hérna. Yfirleitt renna þau þar í gegn umræðulaust. En ég kem hér upp vegna þess að hæstv. fjmrh. heldur því fram að það séu svo fáir stjórnarliðar hér vegna þess að tíminn sé undarlegur fyrir fundinn. Það er alls ekki svo. Hér í dag voru menn t.d. að ræða afskaplega mikilvægt mál sem hæstv. fjmrh. leggur fram og tengist nauðasamningum einstaklinga sem hafa lent í fjárhagshrakningum vegna húsnæðiskaupa. Hvað voru margir stjórnarliðar í salnum, hæstv. fjmrh., þegar sú umræða hófst? Hvað voru margir stjórnarliðar í salnum obba umræðunnar? Nákvæmlega enginn. Þegar hv. þm. Árni M. Mathiesen kom í salinn lá við að það færi fagnaðarkliður um stjórnarandstöðuna þegar hún loksins sá einn úr hópi stjórnarliðsins. Það er því algjörlega fráleitt þegar hæstv. fjmrh. heldur því fram að þetta sé einhver undantekning. Í dag er þetta búið að vera reglan. Hér sjást ekki stjórnarliðar og því miður er þessi dagur ekkert öðruvísi en aðrir dagar upp á síðkastið.