Fundarsókn stjórnarþingmanna

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 10:40:31 (4606)

1996-04-12 10:40:31# 120. lþ. 117.91 fundur 240#B fundarsókn stjórnarþingmanna# (aths. um störf þingsins), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[10:40]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Einarsson fór hörðum orðum um vinnubrögð okkar stjórnarþingmanna. Það gerði hann líka við upphaf umræðunnar í gær og þetta hafa stjórnarandstöðuþingmenn gert með reglulegu millibili í allan vetur, reynt að gera okkur tortryggilega fyrir það að við sætum ekki í þingsalnum undir ræðum þeirra og sinntum ekki okkar störfum. Vegna þess að ég veit að margir fylgjast með þessari útsendingu frá Alþingi í sjónvarpi finnst mér rétt að það komi fram að við upphaf þessa þings á síðasta hausti keypti Alþingi tugi sjónvarpstækja. Það voru sett sjónvörp á skrifstofur allra þingmanna til þess að þeir gætu fylgst þar með umræðum jafnframt því að sinna störfum á skrifstofum sínum. Þetta hefur gefist afskaplega vel, þingmenn hafa notað þetta mikið. Sjálfur hef ég gert það og mér finnst afskaplega þægilegt að fylgjast með umræðum jafnframt því að vera að vinna að ýmsum störfum sem þingmenn þurfa að sinna. Þingmenn hafa gert þetta ef þeir ætla ekki að taka þátt í umræðu um það mál sem er á dagskrá, þá eru menn gjarnan á skrifstofum sínum að vinna og fylgjast jafnframt með umræðum. Það er því alrangt að þingmenn séu eitthvað að vanrækja sín störf þó að þeir sitji ekki í þingsalnum undir löngum ræðum stjórnarandstæðinga. Þess vegna er það bara alls ekki rétt að þingmenn stjórnarflokkanna stundi ekki sína vinnu og alveg út í hött að segja eins og hv. þm. Ágúst Einarsson sagði, að þingmenn stjórnarflokkanna sýni hinu háa Alþingi lítilsvirðingu.

Það er sem betur fer afar fátítt að mínu viti að þingmenn á Alþingi sýni hinu háa Alþingi lítilsvirðingu. Eina eftirminnilega dæmið um það í vetur er það sem gerðist á síðasta fundi Alþingis fyrir páska þegar allir þingmenn stjórnarandstöðunnar að einum undanskildum gengu út úr þingsalnum þegar átti að fara að greiða atkvæði í mikilvægu máli. Það er eina tilfellið í vetur þar sem þingmenn hafa sýnt hinu háa Alþingi lítilsvirðingu. (SvG: Hvar voru stjórnarþingmenn þá?)