Lögreglulög

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 11:36:47 (4617)

1996-04-12 11:36:47# 120. lþ. 117.8 fundur 451. mál: #A lögreglulög# (heildarlög) frv. 90/1996, VS
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[11:36]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er verið að fjalla um mjög mikilvægt mál sem varðar skipulag æðstu stjórnar lögreglunnar. Þetta mál hefur verið nokkuð lengi til umfjöllunar, úti í þjóðfélaginu þá sérstaklega, og því er mikilvægt og nauðsynlegt að fá það inn í þingið þannig að hægt sé að senda það formlega út til umsagnar til þeirra aðila sem málið varðar og vinna það vel í nefnd. Það er hv. allshn. sem að öllum líkindum fær þetta mál til umfjöllunar.

Í greinargerð kemur fram að sú nefnd sem vann frv. hafði það sem aðalmarkmið að endurskoða skipulag æðstu stjórnar lögreglunnar og að endurskoða ákvæði um ákæruvaldið þannig að rannsóknir afbrota gætu orðið hraðari. Þetta er mjög mikilvægt og þolir ekki mikla bið að mínu mati. Ég vil hins vegar láta það koma fram, hæstv. forseti, að þetta mál var afgreitt frá þingflokki framsóknarmanna með nokkrum fyrirvara þar sem í frv. eru atriði sem við höfum ekki tekið endanlega afstöðu til, en viljum að málið verði unnið í nefnd.

Ég held að það sé alveg rétt að koma á fót embætti ríkislögreglustjóra sem fari með yfirstjórn lögreglu ríkisins í umboði dómsmrh. Þessi mál hafa ekki verið í nógu góðum farvegi eins og þau hafa verið. Hins vegar er deilt um það hvort það sé rétt að viðkomandi embætti fari bæði með stjórnsýsluhlutverk og sjálfstæða ákvarðanatöku í sambandi við lögregluvald og lögregluaðgerðir eins og frv. kveður á um. Þetta er eitt af því sem hv. allshn. þarf að fara yfir.

Rannsóknir munu samkvæmt frv. að meginhluta til fara fram hjá lögreglustjórum í héraði. Það er að mörgu leyti jákvætt og ég vil trúa því að það komi í veg fyrir tvíverknað sem hefur átt sér stað að undanförnu eins og þetta fyrirkomulag hefur verið.

Það eru ýmis atriði sem varða lögreglumenn og stöðu þeirra sem við teljum að þurfi að athuga betur verði frv. að lögum. Það varðar t.d. þagnarskyldu, aukastörf, menntun, aldurshámark o.fl. Þá má nefna Lögregluskóla ríkisins. Það þarf að velta því fyrir sér hvort það er framvæmanlegt og hvort það er æskilegt að kennsla fari meira fram í hinu almenna skólakerfi heldur en er nú. Þetta viljum við að verði skoðað.

Í síðasta lagi vil ég nefna að í frv. er ekki tekið á máli sem varðar það hver hefur með höndum yfirstjórn í samræmingu bjögunar- og leitaraðgerða. Ég geri mér ekki grein fyrir því á þessari stundu hvort þetta er atriði sem ætti að kveða á um í sérstökum lögum eða hvort möguleiki er að koma ákvæði um þetta mikilvæga efni inn í frv. í meðferð þess hér á hv. Alþingi en það held ég að hljóti að verða athugað í hv. allshn.

Ég vil segja það að lokum að ég held að það sé mjög mikilvægt að fá þetta mál fram á hv. Alþingi þannig að þingnefnd og þingið sjálft geti tekið á því og væri æskilegt að það gæti orðið að lögum á þessu vorþingi.