Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 17:41:02 (4664)

1996-04-12 17:41:02# 120. lþ. 117.11 fundur 437. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðar krókabáta) frv. 105/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[17:41]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er trúlega búið að segja flest af því sem þarf að segja um þetta mikilvæga mál og mun ég því ekki halda mjög langa ræðu um það en vil þó að mín sjónarmið komist á framfæri varðandi þær breytingar sem eru boðaðar með þessu frv. fyrir smábáta.

Ég tel að hér sé á ferðinni mjög þarft frv. sem er að leysa úr gríðarlega miklum og mörgum vandamálum sem þessi hluti fiskiskipaflotans hefur staðið frammi fyrir á síðustu mánuðum og jafnvel síðustu árum. Ef ég fer aðeins ofan í þær greinar sem eru í frv., vil ég nefna sérstaklega fjögur atriði sem ég tel einkar mikilvæg.

1. gr. fjallar um að þeim sem lenda í því óláni að missa báta sína í hafið verður ekki, eftir að þessu frv. hefur verið komið í gegnum þingið, refsað með því að skylda þá til þess að hlíta 50% rýrnun á sokknum báti. Þetta er eitt af því sem ég og margir fleiri þingmenn gerðu athugasemd við á sínum tíma og er hér komið inn sem nýtt atriði þannig að nú er mönnum heimilt að endurnýja með sömu stærð eftir að hafa lent í bátsskaða.

Í 2. gr. frv. eru nokkur atriði sem ég tel líka mjög athyglisverð og skipta sköpum fyrir báta sem heyra undir svokallað róðrardagakerfi. Það er í fyrsta lagi að þessum hópi er skipt í tvo hluta. Einn hlutinn er kallaður línuhluti en annar er færahópur eða færahluti. Það hefur verið ljóst lengi að línubátarnir í þessum hópi hafa sprengt upp þetta kerfi með gríðarlegri sóknargetu, sem hefur aukist með ári hverju vegna þeirrar tækni sem hægt er að nota við línuveiðarnar. Ég vil rifja það aðeins upp að þegar ég hóf störf sem sjómaður um 1959, var ég á línubát sem var um 100 tonn. Hann var gerður út með 40 bölum í róðri sem ellefu menn voru að vinna við. Það voru fimm að beita og sex á sjó. Við fórum með 40 bala, ellefu menn á 100 tonna báti. Nú getur 5,9 tonna bátur, og þeir gera það hiklaust, farið á sjó með 25 bala eða rúmlega helminginn af því sem þessir ellefu karlar gerðu hér áður fyrr og það er einn maður um borð. Sumir fá reyndar aðstoð en staðreyndin er sú að þessi tækni að beita úr rennu og hafa línuna í haug hefur opnað þennan möguleika sem hefur að sjálfsögðu aukið sóknargetu þessa flota alveg gríðarlega og orðið til þess að þeir hafa sprengt aflapottinn sem þeir voru settir í með bátum sem stunduðu einungis færaveiðar. Þannig að nú eiga línubátar að sæta því í þessum hópi að þeirra dagar eru taldir með álagi á meðan færabátarnir geta tekið sína 84 daga án nokkurrar skerðingar.

[17:45]

Þriðja atriðið sem ég tel vera mjög mikilvægt í þessu er að róðrardagakerfið er frjálst. Þá 84 daga sem róðrardagabátarnir mega nýta sér má taka hvenær sem er ársins. Menn geta nýtt þá að sumrinu eða þegar þeir treysta sér til þess að gera bátinn út vegna þess að þeir vilja nýta starfskrafta sína á öðrum sviðum þegar þessum dögum er lokið. Reyndin varð sú þegar menn gátu róið eins og þeim sýndist að róðrardagafjöldi slíkra báta var ekki nema um hundrað dagar á ári. Ég tel að fjöldi daga í frv. sé mjög ásættanlegur fyrir þessa báta.

Fjórða atriðið, sem er einnig mjög mikilvægt, er að með þessu frv. mun upphaf róðrardags hefjast þegar bátur fer á sjó en telst ekki frá miðnætti til miðnættis eins og gert var ráð fyrir í fyrri ákvæðum.

Kannski má segja að eitt atriði orki tvímælis í þessu frv. og það er þorskaflaviðmiðunin, 13,9%. Hvort það sé ástæða til þess að það verði útgangspunktur í þessu máli er að mínu viti mjög vafasamt og mætti frekar hugsa sér að þessi lög yrðu endurskoðuð ef afli yrði orðinn um 300 þús. tonn af þorski á ári sem er náttúrlega veruleg breyting frá því sem nú er. Ég held að á heildina litið eigi þetta að geta verið ásættanlegt fyrir flesta. Að þessu athuguðu get ég lýst því yfir að ég mun styðja þetta frv. með þessum athugasemdum.

Ég viðurkenni að sjálfsögðu að staða vertíðarbáta, sem hafa verið í aflamarkskerfinu frá upphafi, er mjög slæm og kannski ekki síst þeirra báta sem hafa farið úr svokölluðu krókakerfi, smábátakerfi, sem voru undir 10 tonnum en eru núna á bilinu 6--9,9 tonn. Það er einnig ljóst að þeir vertíðarbátar, sem hafa einungis stundað dagróðra, hafa þurft að sæta mjög verulegum skerðingum. Þess vegna var gerð sérstök ráðstöfun í fyrra og þessum bátum úthlutað um 5.000 tonnum aukalega. Ég álít að þessi 5.000 tonn sem þá var úthlutað ætti að festa á þennan hluta flotans þannig að þau njóti þess áfram sem varanlegrar aflahlutdeildar.

Ég tel svo að með þeim möguleikum sem eru að opnast í dag til að auka aflaheimildir á þessu ári eigum við að nýta okkur þá til að mæta þessum sérstaka vanda vertíðarbátanna. Ég lít svo á að miðað við þær niðurstöður sem hafa komið úr rannsóknum Hafrannsóknastofnunar á veiðigetu þorsks sé óhætt innan vísindalegra skekkjumarka að auka þorskveiðina á þessu ári um 20 þús. tonn. Ég tel að það sé innan skekkjumarka því ég lít svo á eftir þeim niðurstöðum sem komið hafa fram að skekkjumörkin séu á bilinu 170--200 þús. tonn. Það rökstyð ég með því að þessi 25% af veiðistofni eru í dag miðuð við meðaltal tveggja ára og meðaltalið segir okkur að það séu um 170 þús. tonn sem má veiða á næsta ári. Ef við mundum miða aðeins við eitt ár eða síðara árið þá mundi tillaga Hafrannsóknastofnunar hafa hljóðað upp á 200 þús. tonn þannig að ég rökstyð þetta skekkjumark með þeim hætti að þau séu annars vegar meðaltalið og hins vegar þau mörk sem hægt væri að fara í ef við miðuðum aðeins við næsta ár. Þannig að 20 þús. tonn, þ.e. að fara úr 155 þús. tonnum í 175 þús. tonn, er innan þeirra skekkjumarka sem vísindin hafa skapað okkur og því erum við ekki að setja þorskstofninn í þessu tilfelli í neina hættu.

Ég tel einnig að það sé mjög nauðsynlegt í þeirri þröngu stöðu sem flestar þessara litlu útgerða, sem stunda þorskveiðar hér við land, eru í í dag hafi þröngvað þeim eins og dæmin sanna til að henda miklu af fiski, því miður. Ég álít að með því að auka aflaheimildirnar strax komum við í veg fyrir úrkast í verulegum mæli og að því leytinu til séum við í raun að skapa meiri vernd að hluta til innan stofnsins en við gerum okkur kannski grein fyrir.

Ég álít að með þeirri aukningu sem ætti að vera möguleg núna upp á 20 þús. tonn þá ættum við --- því þegar þessi lög verða samþykkt hér eftir 3. umr. er ljóst að þessum potti verður aldrei breytt og ekki verður farið að úthluta neinum sérstökum hópum nema að breyta þá lögunum. Ég á ekki von á að það verði gert og þess vegna álít ég að við aukningu sem gæti orðið þegar á þessu ári og áður en þessi lög öðlast gildi að við ættum að taka um 5 þús. tonn af þeirri aflaaukningu sem ég tel að ætti að vera 20 þús. og úthluta henni þá sérstaklega til þess hóps sem talinn er hafa orðið að lúta mjög mikilli skerðingu og fékk þá úthlutun á síðasta ári.

Ef við lítum á þá fiskveiðistjórnun sem hér hefur verið við lýði á undanförnum árum eða frá árinu 1984 og horfum á þá miklu grósku sem hefur þó myndast við stjórn fiskveiða undir því kerfi held ég að okkur sé óhætt að segja að allar þær hrakspár sem hafa verið varðandi aflamarkskerfið hafi ekki gengið eftir. Hvers vegna er það? Það er kannski að mínu viti vegna þess að kerfið hefur fengið að þróast. Það hefur ekki verið, sem mér finnst oft vera í íslensku þjóðfélagi, endalaust verið að breyta úr einu kerfinu í annað. Aflamarkskerfið, sem sett var á árið 1984, var að sjálfsögðu með miklum byrjunargöllum en hefur fengið þá þróun síðan að í dag er það að ég hygg sveigjanlegasta veiðikerfi sem til er og þá undanskil ég ekki þær hugmyndir sem ýmsir aðilar hafa um veiðileyfagjald eða aðrar aðferðir við að stýra veiðum í fiskstofna landsins. Að sjálfsögðu skiptir þar mestu það ákvæði í lögunum að heimila aflaframsal. Þetta aflaframsal hefur eins og fram hefur reyndar komið í umræðunum skapað þann möguleika fyrir stóran hluta togaraflotans að nýta sér sóknarfæri á fjarlægum miðum sem ekki voru nýtt áður. Þessi mið voru nýtt af öðrum þjóðum áður en þetta kerfi okkar varð til. Þau voru nýtt hér út af Reykjaneshrygg í áratugi áður en við komum nálægt þeim og ég minnist þess þegar ég var að gera út togara á árunum 1980--1986 að ég sendi togara sem ég gerði þá út, Má SH, á veiðar á Reykjaneshrygg. Þar var óvígur floti rússneskra skipa og fleiri sem veiddu mjög vel á þessum slóðum. Við fórum þangað með skipið, reyndar vanbúnir og gekk ekki sem skyldi. Sá karfi sem við fengum var talinn illnýtanlegur hér heima og dæmdur nánast ónýtur vegna þess að hann var með kýlapest eins og menn sögðu en hann var reyndar í hrygningarástandi þannig að hann leit ekki vel út. Í dag hafa menn komist upp á lagið með að veiða þennan fisk með mjög miklum afköstum og vinnslan hefur gengið mjög vel. Ég heyri á mönnum sem hafa náð að stunda þetta vel að þeir veiði allt upp undir 10 þús. tonn á ári af karfa á Reykjaneshrygg. Sú veiði er alveg ótrúleg miðað við það hvernig menn hafa nýtt önnur mið hér við land og einstakt að hægt sé að ná slíkum árangri. En þessum árangri náðu þessi skip sem ekki höfðu miklar aflaheimildir hér heima eða nýttu sér þann möguleika að selja aflaheimildir sínar og sækja á þau mið þar sem hægt var að bæta við afkomu fyrirtækisins. Þar var náttúrlega ekki bara Reykjaneshryggurinn eins og fram hefur komið, þar var einnig Flæmski hatturinn og Smugan. Maður getur spurt sig að því ef sú aðferð sem hefur verið notuð hefði komist á fyrr, hvort menn hefðu þá farið að huga að þessum úthafsveiðum á þessum miðum sem hafa verið vannýtt svo lengi, t.d. í kringum Svalbarða og á öðrum svæðum í hæfilegri fjarlægð frá Íslandi, hvort staða okkar í þeim málum væri önnur í dag en hún er.

Ég álít að aflamarkskerfið með aflaframsalinu hafi einnig skapað gríðarlega friðun á ákveðnum veiðisvæðum sem voru svo sannarlega ofnýtt af þeim mikla flota sem Íslendingar hafa yfir að ráða. Ég minni þar á Halamiðin þar sem skip voru nánast öll sumur hvert ofan í öðru og skröpuðu upp allan þann fisk sem þangað synti. Það var allt smærri fiskur og í dag er þetta kallaður þjóðgarður sem skip sjást varla á nema á siglingu. Þessi skip hafa flest hver notað einmitt þennan möguleika að geta selt aflahlutdeild sína til annarra skipa og það skemmtilega hefur nú komið út úr því að þau skip, sem hafa keypt, eru að veiða stærri fisk hér á suðurmiðunum sem hefur að sjálfsögðu skapað okkur betri nýtingu á þeim veiðistofni sem við höfum til umráða. Eini ókosturinn er að sjálfsögðu sá að þessar veiðiheimildir eru mjög dýrar en með auknum aflaheimildum geri ég ráð fyrir því að þessi leigukvóti verði ódýrari þegar þar að kemur.

Ég verð að taka undir með ýmsum vegna þeirrar miklu undrunar sem komið hefur frá formanni LÍÚ út af þeim hugmyndum sem eru í frv. Ég minni á að ég var með þeim ágæta manni sem hefur reynst Landssambandi íslenskra útvegsmanna mjög vel og ég virði hann fyrir mikinn dugnað fyrir þau samtök. Ég hef kynnst því persónulega. Ég var með honum í nefnd árið 1984, sem starfaði á vegum Fiskifélags Íslands, sem lagði það til í fyrsta sinn að leggja til kvóta á þorskveiðar. Þessi nefnd var skipuð mönnum sem voru mjög kunnugir og tillaga okkar var samþykkt án mótatkvæða þó ekki væru allir sammála henni á fiskiþinginu og varð hún undanfari þess kvótakerfis sem við búum við í dag. Það kom svo aftur á móti mörgum manninum mjög í opna skjöldu eftir að farið var að vinna eftir þessum tillögum úr aðgerðarhópi, sem tók til starfa eftir þetta, þar sem Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, var formaður, að þar var dregin svokölluð norður/suðurlína frá Hornafirði í Breiðafjörð. Allt í einu uppgötvuðu menn það að þeir sem voru rétt fyrir sunnan línuna stórtöpuðu í þorskveiðiheimildum en sátu allt í einu uppi með karfa sem þeir höfðu aldrei veitt en þeir sem voru fyrir norðan hana voru sumir hverjir að fá meiri þorsk en þeir höfðu nokkurn tímann áður fengið. Þetta var að mínu viti gert að mönnum forspurðum. Það var einnig gert að mönnum forspurðum að veita heimild til sérstakra skipa að úthluta kvóta án aflareynslu. Ekki er ég að lasta það svo sem að þeir menn hafi fengið aflareynslu, sem ekki höfðu verið svo heppnir að vera á skipum eða vera nýbúnir að selja skip sem höfðu haft góða aflareynslu. Það hefur sýnt sig að þeir aðilar sem ég þekki reyndar best til í þessu hafa svo sannarlega nýtt þann möguleika sinn þjóðinni til heilla. En þetta voru samt atriði sem enginn var spurður um og formaður LÍÚ ætti að muna vel eftir að kom mönnum í opna skjöldu.

Það er nefnilega engin ástæða til annars en ætla að þessi stóri floti sem getur nýtt alla kosti úthafsins sjái nauðsyn þess að flotanum sem heldur uppi atvinnu í fjölda smærri byggða sé skapað það öryggi sem aðrir hafa getað aflað sér innan aflamarkskerfisins með framsali. Þess vegna held ég, herra forseti, að vinir okkar í útgerð stærri skipa ættu að skoða hug sinn og sjá þetta í því ljósi að það þurfa fleiri að lifa við skertar aflaheimildir en þeir.