Schengen-samstarfið

Mánudaginn 15. apríl 1996, kl. 18:47:38 (4756)

1996-04-15 18:47:38# 120. lþ. 118.10 fundur 477. mál: #A Schengen-samstarfið# skýrsl, HG
[prenta uppsett í dálka] 118. fundur

[18:47]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það dregur trúlega að lokum þessarar umræðu. Ég vil mæla nokkur orð áður en henni lýkur til viðbótar því sem fram hefur komið. Þótt ekki hafi verið undirtektir nema að takmörkuðu leyti við þær aðvaranir sem ég hef fram borið gildir það þó engan veginn um heildina. Margir þingmenn hafa raunar tekið undir marga þætti sem ég gerði að umtalsefni í minni ræðu um þessi mál, þar á meðal um hættuna sem stafar af aukinni dreifingu og auknu ólöglegu smygli fíkniefna til landsins. Fyrir þessar undirtektir að því er varðar minn málflutning vil ég þakka.

Ég vek athygli á því enn og aftur að það er ljóst að umferð fíkniefna mun vaxa verulega innan Schengen-svæðisins og þar með í nágrannalöndum okkar. Lærdómurinn frá Svíþjóð á síðasta ári, sem ég hef ekki heyrt að hafi gengið til baka það sem af er þessu ári, ætti að segja mönnum heilmikið í þeim efnum. Og reynsla Norðmanna sem grannríkis við Svíþjóð einmitt á síðasta ári ber vott um að þarna hefur þrýstingurinn vaxið verulega og magn fíkniefna inn í landið aukist. Þótt menn reyni með tolleftirliti að stemma þar stigu við eins og Norðmenn hafa reynt og skilað þeim árangri að það er um tvöföldun á því magni að ræða og tilvikum þar sem menn hafa stöðvað þá sem hafa verið að reyna að smygla fíkniefnum inn í Noreg vita menn jafnframt að það er ekki nema hluti, sumir óttast kannski ekki nema toppurinn af ísjakanum sem hægt er að koma höndum yfir með þessum hætti. Ég met það að hæstv. dómsmrh. hefur lýst áhyggjum í þessu efni og mér finnst að menn þurfi að ganga með opin augun að þessu máli sem stórum þætti í tengslum við þær breytingar sem hér er verið að tala um.

Það kom fram á ráðstefnunni í Keflavík, sem Íslandsdeild Norðurlandaráðs beitti sér fyrir, frá Hannesi Hafstein sendiherra að það væri ekki búið að ganga frá á þeim tíma, ég held 23. apríl, hvernig farið yrði með farangur ferðamanna af Schengen-svæðinu í einstökum atriðum og þá væntanlega í tengslum við tollskoðun og ekki heldur farangur þeirra sem færu héðan inn á Schengen-svæði annars staðar. Þetta er auðvitað hluti af nánari skoðun þessa máls þar sem menn þurfa að vera vel á verði.

Í sambandi við stofnframkvæmdir í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli finnst mér að það hafi komið fram með kannski svolítið áburðarlitlum hætti þörfin á stækkun flugstöðvarinnar óháð Schengen. Ég hef ekki orðið var við að það hafi verið mjög mikill þrýstingur á að stækka flugstöðina í Keflavík fyrr en þetta mál kom til sögunnar. Mér finnst að menn hafi reynt að skýla sér á bak við kostnaðinn sem þarna kemur til með að verða með því að það blasi við að nú þurfi hvort eð er að stækka flugstöðina í Keflavík. Það má vera að ég hafi ekki fylgst nógu vel með í þessum efnum en ég hef a.m.k. ekki orðið var við alvarlegar tillögur í þessu efni. Ég hygg að sá fjárhagslegi vandi sem menn hafa átt við að glíma vegna rekstrar flugstöðvarinnar hafi ekki beinlínis ýtt á eftir hugmyndum um að ráðast nú í stækkun hennar. Þarna held ég að liggi svona áróðurslega séð í þessu máli fiskur undir steini sem menn hafa reynt að fleyta sér talsvert á í sambandi við tilkostnaðinn sem þarna er fram undan. Það er þó ekki nema einmitt um þessar mundir sem flugstöðin er að nálgast þau mörk sem menn gerðu ráð fyrir að hún væri sniðin að og það væri óvenjulegt ef menn væru svo stórhuga í framkvæmdum að bíða ekki aðeins og reyna að hagræða áður en þyrfti að ráðast í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir í flugstöðinni vegna þessa. En nú blasir við að menn komast ekki hjá því, ef farið verður í samning um Schengen-samstarf, að ráðast í slíkar framkvæmdir og kjósa þá að skrifa það á einhverjar framtíðarþarfir. Auðvitað er skynsamlegt að bregðast við þeim í leiðinni, eða getur verið skynsamlegt ef menn á annað borð ráðast í eða ákveða að tengja Ísland við Schengen með þeim hætti sem hér er rætt um.

Ég vildi svo að lokum aðeins minnast á þá pólitísku spurningu sem hefur komið mjög inn í þessa umræðu sem varðar tengsl þessa máls við Evrópusambandið sjálft og hugsanlegan þrýsting varðandi aðild Íslands að Evrópusambandinu. Mér sýnist að menn þurfi ekki að leita langt vitna í því máli. Hér talaði í umræðunni sá maður sem mér fannst a.m.k. af einstökum forustumönnum flokka hér á þingi hafa mestan brennandi áhuga á því að tengja Ísland við Evrópusambandið með aðild, þ.e. formaður Alþfl., hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson. Hann fór ekki í grafgötur um það í hvaða átt væri verið að stefna að því er þetta varðar, að tengsl við Schengen væru liður í því að nálgast Evrópusambandið. Og þannig liggur málið einnig í mínum huga þó að ég líti það allt öðrum augum en hann. Mér fannst hv. talsmaður Kvennalistans við umræðuna, hv. 19. þm. Reykv., ganga svolítið fram hjá þessum þætti málsins, ætlaði svona að sleppa þessum alvarlega þætti málsins. Ég heyrði að hv. þm. hafði áhyggjur einmitt af þessum tengslum. En þau eru þarna og þau liggja m.a. í því sem er svo augljóst að Schengen er samstarf ríkja Evrópusambandsins sem er að reka á eftir því að ákvarðanir sem liggja í Maastricht-sáttmálanum, grunnsáttmála Evrópusambandsins, komi til framkvæmda. Og Evrópusambandið getur, hvenær sem ríki þess ákveða að taka inn í reglur Evrópusambandsins og hrinda í framkvæmd á vegum þess ákvæði eins og um lögreglusamstarf og fjölmörg atriði sem hafa verið innanríkismál landanna fram að þessu, þar sem þau hafa haft lögsögu í raun, gert það að hluta af Evrópusambandssamstarfinu, reglum þess og framkvæmd. Og það er einmitt það sem gæti gerst á ríkjaráðstefnunni að meira eða minna leyti. Þess vegna varpaði ég fram þeirri hugmynd sem ég tel að væri það skynsamlegasta sem menn gerðu í stöðunni, þ.e. að bíða með að taka einhverjar ákvarðanir í þessu máli þangað til ljóst væri hvað gerðist á þessari ráðstefnu. Það eru varla hundrað í hættunni þótt menn doki við. Væri ekki skynsamlegt allra hluta vegna að svo yrði?

Ég held að við Íslendingar þurfum jafnframt að líta á afleiðingar þess að festa okkur enn frekar inn í samstarfið sem tengist Evrópusambandinu og taka þar með þátt í þeirri höfnun gagnvart umheiminum sem í því felst. Lýsandi dæmi um þetta er spurningin um svigrúm ríkis eins og okkar, Íslands, til að gera samninga við önnur ríki um að greiða fyrir ferðum landa á milli. En hvað er að gerast í þeim efnum samkvæmt þessari ákvörðun? Það er mjög drjúgur hluti af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna þar sem við bindum það við sameiginlega Schengen-ákvörðun hvort aflétt verður kröfu um vegabréfaáritun til þessara ríkja. Það eru ekki bara 19 ríki sem við þurfum að segja upp samningi við sem þegar liggur fyrir sem er auðvitað velviljasamningur, goodwill á ensku, gagnvart þessum ríkjum og er gagnkvæmur að krefjast ekki vegabréfsáritunar. En þar fyrir utan er hinn langi listi, á annað hundrað ríkja, sem verið er að slá föstu að megi ekki af Íslands hálfu einhliða gera samning við þau um að fella niður vegabréfsáritun. Og þannig er það margt í þessu máli eins og auðvitað spurningin um þetta Evrópusamstarf almennt sem varðar spurninguna: Hvert er Ísland að halda í alþjóðlegum samskiptum? Það held ég að menn ættu að íhuga betur en gert hefur verið.