Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 14:47:42 (4783)

1996-04-16 14:47:42# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[14:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom fram í mínu máli hélt ég mjög skýrlega að í bókun kemur fram, og undir hana ritar fulltrúi Kvennalistans, að menn áskilja sér rétt til að breyta frv. samkvæmt sínum sjónarmiðum, flytja brtt. Það er tekið sérstaklega fram svo þetta er alveg hárrétt. En ég hef líka lesið grein fulltrúa Kvennalistans í Morgunblaðinu þar sem kemur mjög skýrt fram að hún styður þessa leið sem málamiðlun. Það er það sem allt þetta mál snýst um. Það snýst um það að farið er af stað með málamiðlun. Og ég bið hv. þm. að taka eftir því að það var ekkert augljóst að ríkisstjórnin ætti að flytja þetta frv. Það gat vel verið að það væri eðlilegra að t.d. þingnefnd flytti frv. til að koma öllum að. Niðurstaðan varð hins vegar sú, af því að málið barst til ráðherrans, að við hlytum að leggja fram þessa málamiðlun jafnvel þótt einstakir þingmenn stjórnarflokkanna vildu kannski fara einhverjar aðrar leiðir af því að siðferðilega hlytu allir að vera bundnir af því að málamiðlunarfrv. yrði lagt fram á þingi, hvað sem menn síðar gerðu í þinginu. Ég skil mjög vel að það er engin bundinn af því að flytja brtt. Þess vegna kom mér mjög á óvart að rétt um það leyti, eða skömmu eftir að ég lagði fram frv.. kom nýtt frv. sem þrír formenn fluttu. En ég er þakklátur Kvennalistanum fyrir að taka ekki þátt í þeim leik en virði að sjálfsögðu að Kvennalistinn er ekkert bundinn af efnisatriðum þessa frv. og getur flutt brtt.