Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 16:08:48 (4795)

1996-04-16 16:08:48# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[16:08]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir orð hans um eignarskattinn. Ég geri ráð fyrir að við munum ræða það í efh.- og viðskn. þegar þar að kemur að ástæða sé til að lækka hann. En það var eitt atriði sem ég vildi gjarnan koma inn á og það var það sem hann nefndi að menn gætu nú tekið út tekjur sínar sem arð frá fyrirtækjum í stað þess að taka þær út sem laun. Þarna er ákveðinn misskilningur í gangi. Þetta var rætt í nefndinni. Það er þannig að ef maður eða fyrirtæki hans hefur 1.000.000 kr. í tekjur er það hagnaður. Af því er borgað 330 þús. kr. í skatt, fyrirtækið borgar það sem skatt af hagnaði sínum til ríkisins. Þá eru eftir 660 þús. kr. Af því borgar maðurinn þá 10% í fjármagnstekjuskatt eða 66 þús., samtals 396 þús., þ.e. tæp 40%. Ef hann greiðir sér það sem tekjur þá aftur á móti getur hann dregið frá 10% í lífeyrissjóð sem er vissulega eign hans eftir sem áður. Þá eru eftir 900 þús. kr. sem verða skattaðar með 42% skatti og það gefur 378 þús. í skatt. Hann borgar því minni skatt með því að borga sér þetta sem laun en að borga fyrst tekjuskatt af hagnaði og svo aftur fjármagnstekjuskatt af arðinum. Þetta er mjög svipað. Þetta var rætt mikið í nefndinni og talið vera mjög eðlilegt að þetta kæmi jafnt út.