Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 18:50:58 (4837)

1996-04-16 18:50:58# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[18:50]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjalla um það sem hv. 9. þm. Reykn. sagði um hvernig hann á von á því að ríkisstjórnin molni innan frá. Við verðum bara að sjá hvernig hans spádómar rætast. Ég deili þeim ekki með honum. En hann hefur hins vegar miklu meiri reynslu en ég af því að horfa upp á flokka molna innan frá eins og rifjað var mjög skilmerkilega upp þegar flokkur hans átti afmæli nú á dögunum. En hann hefur eitthvað misskilið mig ef hann hefur haldið að ég ætlaði að styðja upptöku vaxtatekjuskatts. (Gripið fram í.) Það hef ég aldrei sagt og mun ekki styðja vaxtatekjuskattinn. Og hvað varðar þau vinnubrögð að ekki séu allir þingmenn sammála innan stjórnarmeirihlutans og ef einn og einn þingmaður hefur aðra skoðun en meiri hlutinn, þá ætla ég að vísa til atviks á síðasta kjörtímabili þegar þáv. þingflokksformaður Alþfl. og það er held ég í eina skiptið að því er ég veit í Vestur-Evrópu að þingflokksformaður, sem í Bretlandi er kallaður ,,chief whip``, greiði atkvæði gegn ríkisstjórn sinni.