Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 19:51:41 (4851)

1996-04-16 19:51:41# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[19:51]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála lokaorðum seinasta hv. þm. og formanns bankaráðs Búnaðarbankans ... (Gripið fram í: Nei, ekki bankaráðs.) Nei, fyrrverandi --- um að það væri æskilegt að þingið reyndi að ná niðurstöðu um málið. En hv. þm. vék að mér í upphafi málsins og nefndi sem dæmi þau verk mín sem fjmrh. að koma á staðgreiðslukerfi skatta með 29,5% álagningarprósentu, 6% útsvarsprósentu og mjög háum persónuafslætti og skattfrelsismörkum. Ég fullyrði að þar með var komið í framkvæmd einhverri þeirri réttarbót fyrir launþega á Íslandi sem verkalýðshreyfingin hafði barist fyrir hvað lengst. Síðan eru nú nokkrir fjmrh. og því miður er myndin önnur, komin í 42,94% auk þess sem persónuafslátturinn hefur ekki haldið í við verðlagsþróun. Frv. mitt var um 22% virðisaukaskatt á breiðum stofni, undanþágulaust. Skattsvik á Íslandi hafa ekki aukist af þeim völdum. Formaður Framsfl. harmaði það alla daga þegar tekinn var upp tveggja þrepa virðisaukaskattur með undanþágum. Og það má benda á að tekjutap ríkissjóðs af því var á núvirði rúmir 4 milljarðar. Það er hallinn á ríkissjóði og kannski hefði hann einhver áhrif til lækkunar skatta. Hv. þm. lagði síðan að lokum til að það ætti að tvískattleggja lífeyrissjóði. Það er nú það varasamasta sem frá honum kom. En hann mætti hugsa til þess sem fyrrverandi bankaráðsformaður að við höfum skattfrelsi á vexti og háa vexti. Samt sem áður er sparnaðurinn hér minni en í flestum öðrum löndum.