Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 17. apríl 1996, kl. 22:41:24 (4936)

1996-04-17 22:41:24# 120. lþ. 121.1 fundur 428. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (vaxtatekjur) frv., 429. mál: #A staðgreiðsla skatts af vaxtatekjum# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur

[22:41]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Það hefur verið rakið mjög ítarlega í umræðunni í kvöld hver munurinn er á þeim tveimur tillögum sem liggja fyrir Alþingi um fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts. Hann felst einkum í því að með leið formannanna þriggja er það tryggt að þeim sem minni sparnað eiga er hlíft við skattinum en þeir sem meiri fjármagnstekjur hafa greiða meiri skatt. Það er grundvallarmunurinn á þessum tveimur leiðum og þess vegna er leið formannanna þriggja betri leið sem tryggir jöfnuð og réttlæti mun betur en leiðin sem farin er í stjfrv.

Í umræðum um stjfrv. sem fram fóru í gærdag gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þessa máls sem kemur jafnframt fram í bókun sem ég ásamt þremur nefndarmönnum, er áttu sæti í nefndinni er undirbjó tillögurnar sem ríkisstjórnin síðar byggir sitt frv. á, skrifaði undir. Það var rakið í umræðunni í gær hvernig aðkoma stjórnarandstöðunnar var að nefndarstarfinu, hvernig henni eru gerð skil í bókuninni þar sem fulltrúarnir fjórir áskildu sér allan rétt í málinu svo og þeir flokkar sem þeir eru fulltrúar fyrir, þar með talið að styðja aðrar tillögur eða leggja fram tillögur er til bóta gætu talist. Efnislegar athugasemdir fjórmenninganna koma fram í bókuninni en þar segir, með leyfi forseta:

,,Undirrituð telja ýmsar aðrar leiðir koma til greina við álagningu fjármagnstekjuskatts en farnar eru í tillögum nefndarinnar. Flatur 10% nafnvaxtaskattur kallar á tvískipt tekjuskattskerfi, annars vegar skatta á launatekjur og hins vegar á fjármagnstekjur, en slík aðferð leiðir til ákveðinnar mismununar og óréttlætis. Meginatriðið er þó að fjármagnstekjuskattur verði tekinn upp eins og í öllum nágrannalöndum okkar. Sú leið sem hér er lagt til að farin verði er að mörgu leyti gölluð, en þó ásættanleg að öðrum tilgreindum valkostum frágengnum. Því vilja undirritaðir nefndarmenn árétta að verði hún að veruleika sé hún aðeins til bráðabirgða, gildi einungis um skamma hríð og verði þannig áfangi á leið til heildstæðrar skattlagningar fjármagnstekna sem taki mið af öðrum megineinkennum íslensks skattkerfis, þar sem reynt er að verja kjör þeirra sem minna mega sín og stuðla að auknum tekjujöfnuði í þjóðfélaginu.``

Í framhaldi af þessu er það rakið í bókuninni að nokkur atriði í greinargerð nefndarinnar séu varhugaverð. Þar eru tínd til atriði eins og það að ákveðið sé að hafa ekki sérstakt frítekjumark og lýst er yfir efasemdum um að umdeildanlegt sé að lækka skatthlutfallið á arðgreiðslum. Það átti því hverjum manni að vera ljóst, þar á meðal hæstv. fjmrh., að það var ekki fullkomin sátt um þá leið sem farin er í tillögum nefndarinnar. Ástæðan fyrir því að ég skrifaði undir álit nefndarinnar í stað þess að ganga út úr nefndarstarfinu eða að semja sérálit þar sem mínum óskatillögum og Alþb. væri lýst, var einfaldlega sú að það er mikið nauðsynjamál sem alls ekki má lengur undan víkjast að koma því fyrirkomulagi á að fjármagnstekjur séu skattlagðar eins og aðrar tekjur. Þess vegna tel ég þá leið sem farin er í frv. ríkisstjórnarinnar betri en enga og mun styðja hana að öðrum tillögum frágengnum. Þessi leið hefur ákveðna galla en það er mikilvægt að það gerist ekki enn eina ferðina að hugmyndum um fjármagnstekjuskatt verði hafnað vegna þess að stjórnmálamenn geta ekki komið sér saman um hina einu sönnu leið sem eftir allt er líklega ekki til.

Það er hins vegar deginum ljósara að þær tillögur sem fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu áherslu á í nefndinni um fjármagnstekjuskatt og birtast nú í frv. formannanna þriggja, nutu ekki velvildar og njóta ekki velvildar hjá ríkisstjórnarflokkunum og það er einnig alveg ljóst að þær hefðu aldrei fengið ítarlega efnislega umfjöllun í þinginu ef ekki hefði verið farin sú leið að leggja fram frumvörpin sem hér eru til umræðu. Ég vona jafnframt að þær tillögur og sú umfjöllun sem þær hafa fengið á hinu háa Alþingi sem og úti í þjóðfélaginu verði til þess frv. ríkisstjórnarinnar verði betrumbætt og af því verði sniðnir þeir agnúar sem hér hefur verið bent á og fram hafa komið í umræðunum í gær og í dag og að niðurstaðan verði réttlátur fjármagnstekjuskattur sem tryggi að þeir sem hafa mikil fjárráð greiði sinn skerf til samfélagsins, en þeim verði hlíft sem minni fjárráð hafa, fjármagnstekjuskattur sem er í tengslum við aðra þætti íslensks skattkerfis, fjármagnstekjuskattur sem leitast við að tryggja jöfnuð og réttlæti í þjóðfélaginu. --- Góðar stundir.