Samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 10:48:12 (5003)

1996-04-19 10:48:12# 120. lþ. 123.10 fundur 309. mál: #A samanburður á lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum# þál., Flm. GMS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[10:48]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég flyt þáltill. þess efnis að Alþingi álykti að fela félmrh. að skipa nefnd er hafi það hlutverk að gera hlutlæga skoðun á lífskjörum á Íslandi og bera saman við lífskjör í nálægum löndum auk þess að benda á hugsanlegar ástæður fyrir þeim mismun sem fram kann að koma. Ástæður þess að þáltill. þessa efnis er flutt er sú að mikil umræða hefur að undanförnu farið fram um samanburð á kjörum launþega hér á landi og í nálægum löndum. Staðhæfingar eru um að Íslendingar flýi land á vit betri lífskjara og hefur sérstaklega verið rætt um Hanstholm í Danmörku í þessu sambandi, a.m.k. hvað varðar fiskvinnslufólk.

Upp á síðkastið hefur heyrst sú fullyrðing að trésmiðir, sem starfa í Danmörku, vinni á þremur vikum fyrir launum sem taki starfsbræður þeirra á Íslandi fjórar vikur að vinna sér inn. Umræðan mótast nokkuð af því að rætt er við brottflutta Íslendinga sem gefa upplýsingar um að laun sín séu mun hærri en þau laun sem greidd eru fyrir sambærileg störf hér á landi.

Vitað er að samanburður á launum einum saman gefur engan veginn rétta mynd af afkomu launþega og fjölskyldna þeirra. Til að fá réttan samanburð verða að liggja fyrir upplýsingar um fjölmarga aðra þætti, svo sem verð á algengum lífsnauðsynjum, samgöngum, skattkerfi, félagslegri þjónustu, heilbrigðiskerfi, skólakerfi auk lögskipaðra og áunninna frídaga sem og þeirra vinnustunda sem eru að baki laununum. Það er mikilvægt að mínu mati fyrir umræðu um lífskjör og lág laun á Íslandi að fá hlutlægt mat á lífskjörum hér í samanburði við lífskjör í nágrannalöndunum. Ef rétt er sem haldið hefur verið fram að afkoma almennings sé lakari hér á landi en í nálægum löndum er jafnframt mikilvægt að vita í hverju sá munur liggur svo að unnt sé að bregðast við og leiðrétta það sem aflaga fer.

Það er í reynd óþolandi bæði fyrir launþega og atvinnurekendur að raunhæfur samanburður liggi ekki ljós fyrir. Við núverandi aðstæður liggur atvinnulíf á Íslandi undir ámæli fyrir að fyrirtæki hér séu verr rekin en í nálægum löndum úr því að þau geti ekki boðið starfsfólki sínu sambærileg laun við það sem gerist og gengur í löndunum í kringum okkur. Ég tel að þjóðin eigi rétt á að fá að vita sannleikann í þessu máli.

Þeir sem búið hafa erlendis vita það að upphæð launa segir ekki alla söguna þegar kemur að samanburði á lífskjörum milli landa. Þar koma til fjölmargir aðrir þættir eins og ég vék að í upphafi. Verð vöru og þjónustu getur verið afar mismunandi milli landa og væri skoðun á kostnaðaruppbyggingu hér á landi verðugt athugunarefni eitt og sér. Byggt á reynslu minni af því að búa og starfa í Bandaríkjunum er mér t.d. óskiljanlegt hvað ýmis þjónusta hér á landi er dýr. Í samanburði við Bandaríkin má þó ekki gleyma því að virðisaukaskattur er hér margfaldur á við það sem hér gerist en í því landi söluskattur yfirleitt á bilinu 4--7%. En þetta skýrir samt ekki allan muninn né að hér sé um að ræða hagkvæmni stærðarinnar sem oft kemur þó inn. Það væri allt of auðveldlega sloppið að ætla sér að skýra allan mun á kostnaði vöru og þjónustu hér og annars staðar einungis út frá stærðarhagkvæmni. Ef skoðuð eru einföld dæmi úr daglegu lífi er t.d. erfitt að skilja eða réttlæta að þvottahús á Íslandi þurfi 50% hærra verð fyrir að þvo karlmannsskyrtu en sambærileg þjónusta kostar í Bandaríkjunum og það eftir að tekin hafa verið burt mismunandi áhrif sölu- og virðisaukaskatts. Í slíkum smárekstri ræðst verðmunurinn augljóslega ekki af hagkvæmni stærðarinnar, miklu fremur af því hversu markaðurinn er meðvitaður um hvað geti talist eðlileg verðlagning.

Til að taka annað afmarkað dæmi hef ég reynslu fyrir því að á Íslandi virðist kosta jafnmikið að framkvæma smávægilega viðgerð á garðsláttuvél og það kostar að kaupa nýja vél sömu gerðar út úr búð í Bandaríkjunum. Laun eru að vísu lág hjá almennu launafólki í Bandaríkjunum og vinnutími margra stétta þar er óheyrilega langur en það skýrir samt ekki þennan mun.

Mörg fleiri dæmi væri unnt að rekja þó ekki sé ástæða til hér en þetta sýnir klárlega að það er eitthvað að í verðmyndun vöru og þjónustu á Íslandi þó fúslega skuli viðurkennt að vöruverð hefur farið lækkandi samfara aukinni samkeppni innan lands. Kjarasamanburður milli landa mun væntanlega leiða okkur í allan sannleika um slíkan verðmun.

Til að víkja aftur að launaumræðu og spurningunni um hvort og þá hvers vegna laun séu lægri hér en í nálægum löndum vildi ég vitna í fréttasnepilinn Af vettvangi sem Vinnuveitendasamband Íslands sendi frá sér í desember 1994. Í blaðinu er grein um laun og launakostnað á Íslandi og öðrum löndum og þar segir, með leyfi forseta:

,,Vandinn felst ekki í lágum launatöxtum því það bil sem er milli lægstu launa og meðallauna er ekki sérlega stórt. Lágmarkslaun eru um helmingur af dagvinnulaunum starfsfólks á samningssviði ASÍ og það hlutfall er ekki lágt í alþjóðlegum samanburði. Vandinn er miklu fremur sá að meðallaunin eru lág og þar með laun allflestra vinnandi manna á Íslandi.``

Ég segi bara, herra forseti, bragð er að þá barnið finnur. Ef skoðaðar eru tölur um laun í ýmsum löndum ásamt heildarlaunakostnaði á klukkustund kemur í ljós að Danmörk er langefst á lista yfir þau lönd sem greiða hæstu laun á klukkustund en er hins vegar í þriðja sæti þegar lögð hafa verið saman laun og launatengd gjöld. Þýskaland er þá í efsta sæti en í því landi bætast um 80% við launin sem óbeinn launakostnaður. Næst í röðinni kemur Noregur með tæpar 1.600 íslenskar kr. í launakostnað á vinnustund en hlutfall óbeins launakostnaðar er þar svipað og hér á landi eða um 40%. Ísland er í 9. sæti með launakostnað á klukkustund sem er um það bil helmingur af því sem kostnaður á unna vinnstund er í Noregi. Tölur þessar eru reyndar frá árin 1993 og eru fengnar upp úr skýslu sænska vinnuveitendasambandsins.

Nú hefur það að sjálfsögðu áhrif á útkomuna hvert er raungengi krónunnar á þeim tímapunkti þegar samanburður er gerður. Þannig var launakostnaður á Íslandi svipaður og í Finnlandi á árunum 1987 og 1988 þegar raungengi íslensku krónunnar var hvað hæst. Á árinu 1993 var Ísland hins vegar fjórðungi lægra í heildarlaunakostnaði en í Finnlandi svo að það verður að taka slíkum samanburði með nokkrum fyrirvara.

Okkur hættir vissulega til að setja spurningarmerki við rekstur íslenskra fyrirtækja þegar við heyrum samanburð á þeim launum sem greidd eru hér samanborið við sum önnur lönd en það má ekki gleyma því að það eru fleiri sem eiga sinn þátt í því hvernig til tekst með sköpun verðmæta en stjórnendur fyrirtækja einir. Mismunandi laun milli landa skýrast að töluverðu leyti af mismikilli framleiðni. Há laun og hár launakostnaður á hverja vinnustund í einu landi þarf engan veginn að þýða að launakostnaður á hverja framleidda einingu sé hærri en í landi þar sem launþegar bera minna úr býtum fyrir hverja vinnustund. Mikil framleiðni skýrir að miklu leyti mismunandi getu fyrirtækja til að greiða laun.

Ég ætla mér ekki þá dul að geta sagt fyrir um hvort íslenskir starfsmenn vinni almennt betur eða verr en gengur og gerist í nálægum löndum þó oft þyki mér miður að sjá að vandvirkni í vinnu er ekki sem skyldi. Skýringar á minni framleiðni íslensks vinnuafls er sennilega fyrst og fremst að leita í samsetningu atvinnulífs okkar, þ.e. hvers konar vörur við erum að framleiða og við hvaða tæknistig. Það segir sig sjálft að verksmiðja sem framleiðir húsgögn og innréttingar með 24%--30% framlegð hefur engan veginn sömu möguleika til að launa sínu fólk vel og hátæknifyrirtæki í vél- eða hugbúnaði með 60--65% framlegð. Þetta er staðreynd sem alþingismenn jafnt og launþegar virðast eiga erfitt með að skilja, a.m.k. ef marka má umræðu um atvinnuuppbyggingu sem yfirleitt snýst um það hversu mörg störf sé unnt að skapa frekar en það hvort unnt sé að skapa verðmæti með sem minnstum tilkostnaði.

Á árinu 1991 var Ísland í 5. sæti meðal OECD-landa hvað varðar landsframleiðslu á mann. Þetta er hátt sæti en það hlýtur að vera öllum hugsandi mönnum áhyggjuefni að sjá að miðist samanburðurinn við landsframleiðslu á vinnustund fellur Ísland niður í 18. sæti af þeim 24 löndum sem aðild eiga að OECD.

Herra forseti. Það er áhyggjuefni hve laun eru lág á Ísland borið saman við nálæg lönd, en staðreynd málsins er engu að síður að launakjör ráðast fyrst og fremst af verðmætasköpun á hverja vinnustund og þar stöndum við frammi fyrir þeirri sorglegu staðreynd að verðmætasköpunin er minni en í nálægum löndum og það jafnt þó við eigum einn afkastamesta sjávarútveg í heimi. Þannig felst engin þversögn í því að þjóðartekjur á mann á Íslandi séu háar en launin lág og slíkt þarf ekki að vera merki um að fámennar stéttir séu að hrifsa til sín stóran hluta þess sem til skiptanna er líkt og stundum er haldið fram. Þjóðartekjum á Íslandi er einfaldlega skipt á fleiri starfandi menn og konur en annars staðar gerist og þetta fólk vinnur jafnframt lengri vinnudag en í nálægum löndum. Skoðun og samanburður á lífskjörum hér og erlendis mun opna augu fólks fyrir því að raunverulegur kjarabati á Íslandi verður að byggjast á aukinni framleiðni en sú þróun gengur allt of hægt hér á landi, því miður, og á því verður að ráða bót og vonast ég til þess að sú könnun sem hér er lagt til að fram fari muni opna augu fólks fyrir þessari nauðsyn.