Friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 15:02:30 (5045)

1996-04-19 15:02:30# 120. lþ. 123.16 fundur 410. mál: #A friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[15:02]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst satt að segja að nálgun hæstv. utanrrh. í þessu máli sé óþarflega köntuð, óþarflega stíf. Mér finnst að ef eitthvað er til sem heitir fornaldarhugsunarháttur eða fornaldarnálgun í máli af þessu tagi, þá hafi hún komið fram í hans málflutningi vegna þess að þessir hlutir eru þannig að hér er verið að opna fyrir umræður. Hér eru menn ekki að segja að eitt þurfi endilega í öllum tilvikum að útiloka annað og það er meginatriði, sem hæstv. utanrrh. virðist ekki skilja að sé mögulegt, að ræða málin í samhengi og hlið við hlið. Mér finnst að fram komi hjá honum þetta gamla viðhorf að það sé óhugsandi að Ísland hafi stefnu í utanríkismálum, stefnu og áherslur í utanríkismálum númer eitt, stefnu sem er mótuð í þessari stofnun, Alþingi Íslendinga, stefnu sem utanrrh. landsins fer með á alþjóðlegan vettvang til umræðu og kynningar og reynir að vinna henni fylgi og stuðning í samvinnu við aðra eftir atvikum. Hæstv. utanrrh. virðist ekki gera sér grein fyrir þeim möguleika einu sinni að Alþingi Íslendinga hafi stefnu í utanríkismálum. Það kalla ég fornaldarhugsunarhátt, það kalla ég fornaldarvinnubrögð og kaldastríðsnálgun á utanríkismálum. Og ég harma það að hæstv. utanrrh. og formaður Framsfl. skuli setja sig upp í þessu máli þannig að jafnvel ég gæti átt það til að sakna Jóns Baldvins Hannibalssonar úr því embætti og er þá langt gengið, hæstv. forseti.