Kosningar til Alþingis

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 16:09:18 (5064)

1996-04-19 16:09:18# 120. lþ. 123.17 fundur 420. mál: #A kosningar til Alþingis# (atkvæðagreiðsla erlendis) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[16:09]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins að fram komi hér við 1. umr. um þetta frv. að mér sýnist að hér sé gott mál á ferðinni. Hér er verið að reyna að leysa annmarka sem hafa verið á því að Íslendingar búsettir erlendis geti auðveldlega neytt kosningarréttar. Ég hef verið þátttakandi og unnið í mörgum kosningum svo mér er vel kunnugt um að það er oft á tíðum nánast ógerlegt fyrir íslenska ríkisborgara að nota kosningarrétt sinn ef þeir búa fjarri þeim stöðum, þeim tiltölulega fáu stöðum, þar sem hægt er að greiða atkvæði. Þetta getur orðið til þess að menn geti notað kosningarrétt sinn og komið í veg fyrir margs konar erfiðleika og tímasóun sem því fylgir fyrir þá sem sæknastir eru í þessum efnum, leggja kannski á sig fleiri daga ferðir til að komast á kjörstað. Auk þess þekki ég ýmis dæmi þess að menn hafa komið þar að luktum dyrum án þess að vita í rauninni um þau tímamörk sem sett hafa verið af þeim sem standa fyrir kosningum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda á viðkomandi stað. Ef ekki eru einhverjir sérstakir meinbugir á þessu máli, sem ég fæ ekki séð hér við skjótan yfirlestur, finnst mér að það eigi að gera þessa breytingu sem hér er lögð til og auðvelda mönnum þannig að nota þennan dýrmæta rétt í kosningum sem allra fyrst.