Svör við fyrirspurn

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:08:41 (5075)

1996-04-22 15:08:41# 120. lþ. 124.92 fundur 261#B svör við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:08]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt skilið hjá hv. þm. að bankarnir eiga ekki þessar upplýsingar til á stöðluðu formi og það var það sem bankaeftirlit Seðlabankans gekk eftir til þess að leita svara við fyrirspurn hv. þm. Af þeirri ástæðu treysti ég mér ekki til að gefa þau svör hér að hægt sé að svara fyrirspurn hv. þm. betur en gert hefur verið áður en þingstörfum lýkur. Dæmi um það er einmitt sá tími sem hefur farið í að vinna áðurnefnda skýrslu sem hæstv. þáv. félmrh., Rannveig Guðmundsdóttir, óskaði eftir að gerð yrði á vegum Seðlabankans um skuldastöðu einstaklinga. Það hefur tekið Seðlabankann þennan tíma síðan í janúar 1995 við að afla þessara upplýsinga og vinna úr þeim.

En eins og ég sagði áðan vonast ég til að svör við mörgum þeim spurningum sem hv. þm. spyr um án þess að þau séu nákvæmlega sundurgreind í einstaka kostnaðarþætti verði í þeirri skýrslu sem Seðlabankinn er núna að vinna um skuldastöðu einstalinganna. En það er ekki gert ráð fyrir að þeirri skýrslugerð verði lokið fyrr en að tveimur mánuðum liðnum.