Ástandið í Mið-Austurlöndum

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 15:38:46 (5082)

1996-04-22 15:38:46# 120. lþ. 124.91 fundur 260#B ástandið í Mið-Austurlöndum# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[15:38]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Heimsbyggðin öll hefur fordæmt loftárásir Ísraels á Líbanon og hefur ríkisstjórn Íslands lagt sitt lóð á vogarskálarnar í því efni. Að þessu sinni hefur Ísraelsstjórn með framferði sínu meira að segja tekist að ganga fram af nánasta bandamanni sínum, ríkisstjórn Bandaríkjanna, sem í áranna rás hefur látið óátalið þótt Ísraelsstjórn hafi beitt herliði sínu til þess að limlesta börn og unglinga og sprengja upp heimili andófsmanna, svo dæmi séu tekin. Kornið sem fyllti mælinn var sprengjuárás á bækistöð friðargæsluliða í Líbanon 18. apríl sl.

Nú er svo komið að allir helstu utanríkisráðherrar heims virðast ekki geta komið vitinu fyrir Ísraelsstjórn. Friðarumleitanir hafa lítinn árangur borið þótt e.t.v. hafi dregið úr loftárásum því eldflaugaárásum á Líbanon er haldið áfram af fullum krafti í dag. Það er álit þeirra sem best þekkja til í stjórnmálum Mið-Austurlanda að með ofsafengnum viðbrögðum við árásum Hizbollah-skæruliða á Ísrael vilji Peres, forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins, treysta stöðu flokksins í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar sem fram fara í Ísrael í lok maímánaðar. Og það er ekki aukaatriði í þessari umræðu að sá kosningasigur skuli keyptur með lífum saklausra flóttamanna í Suður-Líbanon, með ófriði sem aðeins getur leitt til frekari ófriðar fyrir botni Miðjarðarhafs og getur þar með stefnt friðarferlinu svokallaða á milli Ísraela og nágranna þeirra í voða.

Að lokum vil ég fagna því að utanrrh. boði ræktarlegri samskipti við ríkin fyrir botni Miðjarðarhafs um leið og ég minni á að aðstoð Íslendinga við Bosníu má alls ekki vera á kostnað aðstoðar við Palestínumenn á sjálfsstjórnarsvæðunum í Ísrael en þannig mátti skilja orð ráðherra.