Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 16:42:19 (5088)

1996-04-22 16:42:19# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[16:42]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil færa hv. þm. þakkir fyrir ítarlega ræðu. Í stjfrv. var upphaflega gert ráð fyrir því að ríkisviðskiptabankar gætu tekið víkjandi lán án þess að einhverja sérstaka samþykkt Alþingis þyrfti í hvert sinn. Nú er það oft í meðförum þingsins og í frumvörpum að sum frv. eru til breytinga á ýmsum lögum og einum lögum er oft breytt af mjög mörgum ástæðum. Menn tína til tæknilegar breytingar eins og hv. þm. nefndi. Reynslan kennir mönnum að það þurfi að breyta einhverju frv. Síðan gerist eitthvað á vettvangi hins Evrópska efnahagssvæðis og síðan finna menn að kannski er ástæða til að kíkja á þessa grein varðandi eiginfjárkröfurnar og varðandi möguleika ríkisviðskiptabankanna til að taka víkjandi lán. Það er sérstök ástæða til að breyta þessum lögum.

Nú er ég að velta því fyrir mér hvort hv. þm. líti svo á að það eigi að taka upp þá reglu hér á Alþingi, að fyrir hverja ástæðu sem menn ætla að breyta frv. eða breyta lögum, þurfi að flytja sérstakt frv.