Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:04:55 (5110)

1996-04-22 22:04:55# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:04]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. svörin en málið er miklu alvarlegra en ég hélt. Það kemur í ljós í svörunum að tap bankans er á þremur árum u.þ.b. 1,5 milljörðum meira en reiknað var með þegar gengið var frá aðstoðinni 1993. Auk þess var ekki staðið við nokkur önnur ákvæði. Nú kemur rökstuðningurinn fyrst fram hjá hæst. ráðherra hér við lok 2. umr. Landsbankinn þarf á þessum peningum að halda. Það var aldrei röksemdin sem við vorum með í efh.- og viðskn. Þar var röksemdin að það þyrfti að endurfjármagna vegna fyrirhugaðrar ,,háeff-væðingar``. Hér koma hins vegar fram alvarleg tíðindi um fjárhagsstöðu Landsbankans. Það er satt best að segja alveg til skammar að taka þá ekki málið upp undir réttum formerkjum og vera með það í sérstöku frv. eða þá að ræða það á þeim nótum eins og hæstv. ráðherra gerði. Ég vil benda á varðandi afskriftir að menn tala um að afskriftir séu eitthvað sem detta af himnum ofan, séu einhverjar ákvarðanir vondra manna. Það er rangt. Afskriftir á útlánum eru byggðar á mati endurskoðenda og bankaeftirlitsins og er kostnaður eins og hvað annað. Og það að þessi kostnaður hafi reynst meiri en áætlað var sýnir raunverulega enn betur alvarlega stöðu bankans. Hæstv. ráðherra svaraði öllu nema hvað hann gaf ekkert út á ummæli bankastjóra Landsbanka um aðra einstaklinga, fúaspýtur og annað slíkt. Ég skil hæstv. viðskrh. vel að vera ekkert að gefa slíku einkunn. En alvarlegast í þessu máli er að samkvæmt þessum tölum, hafi ég tekið rétt eftir, er afkoman raunverulega verri um tæplega 1,5 milljarða en gert var ráð fyrir. Það er alvarlegt mál og ég undirstrika það sem ráðherra sagði sjálfur: ,,Bankinn þurfti á þessari endurfjármögnun að halda út af sinni stöðu.`` Það er alvarlegt og það getur vel verið að við hefðum stutt það og tekið þátt í því að gera það en þá áttu menn að koma hér fram og leggja öll spilin á borðið strax í upphafi.