Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 22. apríl 1996, kl. 22:11:57 (5114)

1996-04-22 22:11:57# 120. lþ. 124.13 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur

[22:11]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel satt að segja að sú umræða sem hefur farið fram undir andsvörum seint í kvöld afhjúpi þetta mál með býsna alvarlegum hætti. Í fyrsta lagi kemur fram að nefndarmaður í efh.- og viðskn., sem hefur starfað málinu á mörgum, löngum og ströngum fundum, telur að hann hafi verið blekktur. Hann telur að málið sé flutt á röngum forsendum. Hann segir að málið hafi ekki verið kynnt á hinum réttu forsendum heldur hafi verið lögð áhersla á að þetta væri EES-mál og tæknilegt mál. Í ljós kemur að hér er um að ræða miklu meiri vanda Landabankans en hv. þm. taldi vera. Það kemur líka í ljós í þeirri umræðu sem hér fer fram að þetta mál tengist auðvitað hugsanlegri hlutafélagsvæðingu. Til viðbótar þessu tvennu varðandi fjárhagslega stöðu bankans bætist svo við að forustumenn Framsfl. á hv. Alþingi setja spurningarmerki á bakið á Landsbankanum með þeim yfirlýsingum sem hér hafa komið frá hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni um jafnvægisleysi bankastjóra Landsbankans og með hinum loðnu ummælum og svörum hæstv. iðnrh. áðan. Það er nauðsynlegt að hæstv. viðskrh. taki af skarið í þessu efni og svari því alveg skýrt: Treystir hann forustu Landsbankans eða ekki fyrir þeim fjármunum sem hér er um að ræða? Það er úrslitaatriði að fá þá niðurstöðu áður en þessari umræðu lýkur og málið gengur til atkvæða. Mér sýnist að umræðan sé að þróast þannig að ef hún stendur svona eins og hún stendur núna þá geti niðurstaðan orðið til að veikja en ekki styrkja Landsbankann. Niðurstaðan verður þá sú að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann. Það sem menn ætluðu sér að gera gera menn ekki og staðreyndin verður sú að Landsbankinn stendur verr eftir en hann gerði í upphafi. Það er mjög alvarlegur hlutur og á því ber hæstv. viðskrh. alla ábyrgð ásamt aðstoðarmanni sínum, hv. 3. þm. Vestf.