Umferðarlög

Miðvikudaginn 24. apríl 1996, kl. 15:38:01 (5274)

1996-04-24 15:38:01# 120. lþ. 126.15 fundur 271. mál: #A umferðarlög# (einkamerki) frv. 37/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur

[15:38]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárln. skörulegt svar. Hann bætti mikilvægum upplýsingum í það röksemdasafn sem komið er fram í þessu máli. Áður hefur það komið fram að frv. er aðallega flutt af því að það er svo fyndið, það er brandari. Út af fyrir sig á ekki að vanmeta það að hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar vilji láta eitthvað skemmtilegt af sér leiða. Ekki veitir af miðað við þau ósköp sem þeir láta yfir þjóðina dynja.

Svo bætti formaður fjárln. um betur með því að lýsa því yfir að þessi brtt. væri eiginlega láglaunauppbætur. Það mundi hjálpa láglaunafólki svo mikið ef þetta væri lækkað úr 50.000 kr. í 25.000 kr. Það gæti þá fyrr safnað fyrir því að einkamerkja druslurnar sínar, Lödurnar sínar, ryðkláfana sína. 25.000 kall. Það er mun auðveldara en 50.000 kr. Ég skildi hv. formann fjárln. þannig að einkanúmerin væru sérstök 1. maíkveðja ríkisstjórnarinnar til alþýðunnar á Íslandi. Það er alveg ótrúlegt að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki koma þessu á framfæri þegar hún var að ræða við verkalýðshreyfinguna úr því að hún taldi að þetta væru sérstakar láglaunauppbætur og 1. maíkveðja. Ég legg til að hv. formaður fjárln. verði látinn aka fremstur í kröfugöngu verkalýðsins 1. maí í Reykjavík á einkamerktum bíl. Það væri eðlilegt í framhaldi af þeim miklu tíðindum um láglaunauppbætur til fátæklinga Íslands sem þetta frv., sem er að öðru leyti aðallega fyndið að sögn flm., felur í sér.