Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 16:27:57 (5314)

1996-04-29 16:27:57# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[16:27]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að skólagjöld hafa um árabil verið eins konar trúaratriði hjá Sjálfstfl. Ég minnist þess þegar við vorum saman í ríkisstjórn, Alþfl. og Sjálfstfl., á síðasta kjörtímabili reyndi Sjálfstfl. mjög að ná fram skólagjöldum á framhaldsskóla. Þá átti að setja skólagjöld á framhaldsskóla og afla þannig tekna um 140 millj. kr. ef ég man rétt. Það var Alþfl. sem kom í veg fyrir það á sínum tima.

Hv. þm. Svavar Gestsson hefur farið fögrum orðum um það hvernig Alþfl., eins og hann orðar það, er að rífa sig upp úr gamla farinu. Það er eins og mig minni, herra forseti, að ég hafi áður farið svolítið aftar í tímann en hv. þm. kaus að gera í ræðu sinni og rifjað upp að það voru reyndar fleiri en Sjálfstfl. sem fundu þessa ágætu leið til að afla ríkinu fjár. Ég man ekki betur en það hafi verið hv. þáv. formaður Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, sem gerði sér ferð upp í Háskóla Íslands og lagði fram þessa hugmynd á fundi með stúdentum. Sá fundur varð raunar til þess að stúdentaráð Háskóla Íslands samþykkti mjög harðorða ályktun gegn þessum hv. þm. og ég skil það vel og veit að hæstv. forseti gerir það líka að hv. þm. Svavar Gestsson kýs að hverfa úr salnum undir þessari ræðu. Er þá rétt að fella niður þetta tal því að ekki viljum við styggja þann hv. þm. of mikið. En staðreyndin er samt sem áður sú að fyrst var þetta flutt opinberlega af þáv. formanni Alþb. 1990 eða 1989 sem lagði það beinlínis til að menn veltu því fyrir sér hvort ekki ætti að fara þá leið að fjármagna starfsemi Háskóla Íslands í ríkari mæli með skólagjöldum. Sjálfstfl. hefur kosið að feta þá slóð.

[16:30]

Ég spyr nú, herra forseti, af því að það ber svo sjaldgæflega við að hér höfum við í salnum ekki bara einn heldur tvo hv. þingmenn Framsfl. Hver er afstaða Framsfl. til þessa máls? Hér höfum við fyrrverandi skólameistara, sem hefur væntanlega einhverja skoðun á þessu máli. Ég er viss um, herra forseti, að hv. þm. Hjálmari Árnasyni er annt um sóma og æru forustu sinnar og þess vegna langar mig til þess að varpa því fram til hv. þm. hvort hann hafi ekki í hjarta sínu verið sammála þegar hæstv. utanrrh., Halldór Ásgrímsson, svaraði því til þegar hann var spurður í viðtali í DV þar sem kjósendur fengu að hringja inn og leggja spurningar fyrir stjórnmálamenn hvaða afstöðu hann hefði til skólagjalda í Háskóla Íslands. Formaður Framsfl. svaraði því til að hann mundi beita sér fyrir því að þau yrðu lækkuð ef Framsfl. kæmist í stjórn. Hvað segir hv. þm. Hjálmar Árnason við þessu? Var hann ekki á þeirri stundu þegar þessi fleygu orð voru mælt þeim hjartanlega sammála? Og ef hann var sammála þeim þá hver er afstaða hans núna? Hefur eitthvað gerst sem hefur fengið hv. þm. Hjálmar Árnason til þess að skipta um skoðun síðan formaður Framsfl. kom fram með yfirlýsingu sína?

Mig langar líka til að spyrja hv. þm. Hjálmar Árnason hvort honum þyki ekki sárt, hvort honum renni það ekki til rifja að sjá Framsfl. með þessum hætti rífa upp með rótum enn eitt kosningaloforðið, bregðast enn einu sinni þeim kjósendum sem voru vélaðir til þess að varpa atkvæði sínu á glæ með því að kjósa hann.

Mig langar líka að rifja það upp, herra forseti, að á síðasta kjörtímabili var ungur og vaskur skólameistari í stjórn Skólameistarafélags Íslands. Sá er örfáum árum eldri nú en er enn jafnvaskur og það er hv. þm. Hjálmar Árnason. Þá voru uppi hugmyndir um að leggja skólagjöld á framhaldsskóla. Ég man ekki betur en það hafi verið stjórn þessa ágæta Skólameistarafélags, þar sem hann var einn af forustumönnunum, sem samþykkti ályktun gegn skólagjöldum á framhaldsskólanema. Það er sennilega af því að mig brestur andlegt atgervi á við marga félaga mína í þessum sal sem tilheyra Framsfl. að ég hefði í sjálfu sér gaman af því að hlýða á hv. þm. Hjálmar Árnason skýra það út fyrir mér hvers vegna menn eiga að vera á móti skólagjöldum í framhaldsskólum en ekki í háskólanum. Það eru vafalaust rök fyrir því en ég vildi gjarnan heyra hvernig hv. þm. Hjálmari Árnasyni gengur að feta sig þetta einstigi milli þess sem er samkvæmt því sem honum fannst þá rangt, þ.e. að leggja skólagjöld á framhaldsskóla, og hins vegar sem honum finnst rétt núna, þ.e. leggja þau á háskólastúdenta. Ég ætla ekki að hafa frekari orð um þetta en það ber svo vel í veiði því að raunin hefur verið sú, herra forseti, að hvert einasta skipti sem við höfum rætt skólagjöld hafa allir framsóknarmenn horfið úr salnum en nú er a.m.k. einn hér. (Gripið fram í: Þeir eru tveir.) Já, ég ætlast ekki til þess að hæstv. forseti fari að svara þessu úr sínum virðulega stalli. En ég veit að það mun ekki vefjast fyrir hv. þm. Hjálmari Árnasyni að gera mér grein fyrir því og þingheimi hvernig í ósköpunum Framsfl. ætlar að uppfylla loforð formanns flokksins frá því fyrir kosningar um að lækka skólagjöld með því að samþykkja hækkun núna.

Sjálfstfl. er stefnu sinni trúr og hann hefur ekkert farið í felur með það að hann telur að það eigi að fjármagna skólana í ríkari mæli með skólagjöldum. Þess vegna geri ég því skóna að ýmsir í forustu flokksins kunni á þessu kjörtímabili að reyna að freista þess á nýjan leik að leggja skólagjöld á framhaldsskóla. Ég vænti þess að góðir menn muni koma í veg fyrir það eins og þeir gerðu á síðasta kjörtímabili og spyr þess vegna hv. þm. Hjálmar Árnason: Hvað mun hann gera ef það koma upp tillögur um það innan stjórnarliðsins, jafnvel úr ráðherrahópnum um að leggja á skólagjöld á framhaldsskóla? Mun hann styðja það og treystir hann sér fyrir hönd Framsfl. að lýsa því yfir að Framsfl. sé á móti því?

Herra forseti. Ég skil e.t.v. ekki til hlítar skrásetningargjaldið eins og það er lagt upp hjá hæstv. menntmrh. en ég tók eftir því áðan að hann sagði að ef til þess kæmi að það yrði hækkað yrði það á valdi Alþingis. Ef Alþingi kysi að hækka það upp í 100 þús. eða 150 þús. þá væri það mögulegt. Auðvitað getur Alþingi sett öll þau lög sem það kýs en ég hlýt að undirstrika að ég hef skilið bæði greinargerð frv. og ræður hæstv. ráðherra þannig að skrásetningargjald geti aldrei náð yfir meira en kostnað vegna tiltekinna hluta. Það liggi í eðli gjaldsins því að ef það færi umfram þá hlyti það að vera orðið skólagjald. Það er mergurinn málsins. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og Sigríður Jóhannesdóttir hafa fært skýr rök fyrir því, að ég tel, að það er farið langt umfram þau atriði sem mættu með réttu fella undir skólagjöld. Ég nefni t.d. prófgæslu og prófgerð. Ég get ekki sagt annað en þá hluti beri að skilgreina sem part af kennslunni vegna þess að það er lúkning kennslunnar. Þá eru menn að meta kennsluna og það hlýtur að teljast til kennslustarfsins sjálfs. Eigi að síður kemur það fram í þeim skjölum sem lögð eru til grundvallar upphæðinni, 24 þús. kr., að þar í eru m.a. prófgæsla og prófdómar þannig að mér sýnist að þar með sé stjórnarmeirihlutinn kominn inn á stig sem gæti leitt okkur til þess að menn væru látnir kosta kennsluna sjálfir með skólagjöldum. Ég er því algerlega andsnúinn.

Ég dreg ekki í efa góðan vilja hæstv. menntmrh. til þess að gera skólakerfið eins vel úr garði og kleift er. Eitt af því sem hæstv. ráðherra hefur stundum á orði er nauðsyn símenntunar og nauðsyn endurmenntunar og það er jákvætt. Ég held að allir séu sammála því. Hvernig förum við að því að ýta undir símenntun og endurmenntun, t.d. innan menntakerfisins? Auðvitað með því að gera lærimeisturum, kennurum og jafnvel skólameisturum kleift að fara aftur í skóla, taka einhver námskeið, mennta sig aftur, reyna að bæta við þekkingu sína til þess að efla getu sína til þess að kenna okkar ágæta unga fólki, ungum Íslendingum. En það gerir hæstv. menntmrh. ekki með því að koma því svo fyrir að þeir sem mundu vilja taka eitt, tvö eða þrjú námskeið við Kennaraháskólann eða Háskóla Íslands þyrftu að greiða fullt skrásetningargjald, 24 þús. kr. Ég er algerlega ósammála því. Ég spurði hæstv. ráðherra eða formann menntmn., hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur: Er ekki sanngirni fólgin í því að fallast a.m.k. á að menn borgi þá skrásetningargjald í hlutfalli við það nám sem þeir fara í? Ef við lítum á það að hluti af skrásetningargjaldinu er próf og prófgæsla er alveg klárt að sá sem tekur bara á einni önn nám sem svarar til 5 námseininga krefst miklu minni vinnu við prófadóma og prófgæslu en sá sem tekur 15 einingar. Mér sýnist því rökrétt t.d. á þessum grundvelli að fallast á að menn greiði hlutfallsleg skrásetningargjöld í samræmi við það nám sem þeir takast á hendur. Ég vildi ítreka þessa spurningu aftur til hæstv. menntmrh. eða þá hv. þm. Sigríðar Önnu Þórðardóttur, formanns menntmn.