Háskóli Íslands

Mánudaginn 29. apríl 1996, kl. 17:15:00 (5320)

1996-04-29 17:15:00# 120. lþ. 127.6 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur

[17:15]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var í vetur að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon auglýsti eftir Framsfl. og hann komst vel að orði þegar hann talaði um að Framsfl. hefði sést síðast í selskinsjakka, eitthvað á þá lund. Þessi orð þingmannsins koma upp í huga mér nú þegar ég hlusta á hv. þm. Hjálmar Árnason. Þvílík hamskipti sem orðið hafa á einum flokki, (SJS: Hann er kominn í sauðargæru núna.) þvílík hamskipti. Ég á ekki til eitt einasta orð. Ég veit ekki hvort mér verður heitt í hamsi eða bara agndofa.

Virðulegi forseti. Ræða mín áðan snerist ekkert um hvenær lög um innritunargjöld voru sett eða hvort verið er að lögfesta þau núna. Hún snerist um allt aðra hluti og ég harma það ef þingmaðurinn hefur ekki skilið það. Málið er að ég var að vísa til umræðu á síðasta kjörtímabili þegar sumir þingmenn héldu fast í þá sannfæringu sína að sú gerð að færa gjaldtöku í skólana inn í lög hvort heldur væri fjárlög eða önnur lög, Tækniskólans, háskólans, framhaldsskólans, skipti máli. Virðulegi forseti. Vissi Framsfl. ekki að það var halli á fjárlögum á síðasta kjörtímabili? Vissi Framsfl. ekki að þá var kreppa? Vissi Framsfl. ekki að þá var ekki hagvöxtur sem þó er orðinn nú? Og hann tók við með 3% hagvexti. Hvað vissi Framsfl. á síðasta kjörtímabili? Hann fór í kosningar með fólk í fyrirrúmi og eftir kosningar fer hann í ríkisstjórn, og sjá, hann uppgötvar að það er halli á fjárlögum. Síðan er alveg sama hvað ber á góma í þessum sal, alveg sama hverju þetta ágæta fólk hefur fallið frá af sínum kosningamálum, sínum prinsippum. Það er allt skýrt með þessu: Það er halli á fjárlögum. Og því er nú verr að ég óttast að þrátt fyrir þennan hagvöxt sem við áttum þátt í að skapa, þá verði halli á fjárlögum í lok þessa kjörtímabils líka.