Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:33:22 (5366)

1996-04-30 14:33:22# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:33]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breytingu á lögum um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri (ÖS: Hvar er menntmrh.?) en sú breyting --- mæltu manna heilastur, hv. þm., --- hvar er menntmrh. í þessari umræðu? (Gripið fram í: Bíðum eftir honum.)

(Forseti (RA): Forseti vill láta þess getið vegna þessara athugasemda sem hér heyrast í salnum að hæstv. menntmrh. hefur fengið fjarvistarleyfi í dag og það lá reyndar fyrir á fundinum þegar honum var að ljúka í gær að hæstv. menntmrh. mundi ekki geta verið viðstaddur umræðuna í dag en hann hafði óskað eftir því að umræðunni yrði lokið í gærkvöldi en vegna þeirra nefndafunda sem þá voru boðaðir kl. 18.30 í gær varð að slíta fundinum. Hæstv. menntmrh. er ekki væntanlegur og hefur fjarvistarleyfi.)

Það þykir mér miður að heyra, virðulegi forseti, því að það er auðvitað æskilegt að viðkomandi ráðherra sé við þegar mál á verksviði hans eru rædd á hinu háa Alþingi þó að ég verði reyndar að segja að ef mér hefði ekki beinlínis verið sagt frá því að slíkt ætti að vera og hefði verið venja, þá hefði mér ekki dottið það í hug af þeirri reynslu sem ég hef af þessari stofnun í vetur því að það verður að segjast eins og er að ráðherrar hafa ekki ómakað sig mjög við setu í þinginu. En það er nú annað mál.

Við erum að ræða breytingu á lögum um Háskóla Íslands og sú breyting sem hér er farið fram með snýst fyrst og fremst um það að hér er staðfest upphæð skrásetningargjalds til háskólanna.

Herra forseti. Ég gerði í gær grein fyrir afstöðu minni auk þess sem hún kemur fram í því nál. sem 2. minni hluti menntmn. lagði fram í þinginu eftir að málið var afgreitt út úr hv. menntmn. En ég bað um orðið aftur í gær, herra forseti, vegna þess að það gekk yfir mig í umræðunni að hlýða á málflutning framsóknarmanna. Ekki hvað síst málflutning hv. þm. Guðna Ágústssonar. Það verður að segjast eins og er að það var hreint með ólíkindum að hlýða á hv. þm. ræða það hér að þetta væri ekki stórmál, hvað menn væru að gera veður út af 24.000 kr. þó að háskólastúdentar væru krafðir um þá upphæð í ár. Það væri ekki nema virðingu háskólans samboðið. Það mátti skilja sem svo að lægri upphæð væri hreinasti dónaskapur gagnvart Háskóla Íslands. Það verður að segjast eins og er að þegar þessi málflutningur var kominn hér á hinu háa Alþingi fannst mér ástæða til þess að biðja um orðið aftur. Ef upphæðin er að mati Framsfl. spurning um virðingu Háskóla Íslands hljótum við að spyrja hversu mikil verður virðing Háskóla Íslands næsta haust og hvernig það verður áfram. Ætla þeir þá ekki samkvæmt eigin skilgreiningu að sýna þessari virðulegu stofnun þá virðingu sem þeim finnst hún eiga skilið? Eða er hún bara 24.000 króna virði? Þetta var mjög sérkennilegur málflutningur og í rauninni fyrir neðan velsæmi þessarar stofnunar.

Það er nú þannig að 24.000 kr. er ærin upphæð fyrir fyrir venjulegan háskólastúdent. Ef sá hinn sami er svo heppinn að fá vinnu geta tekjur hans verið á bilinu frá 150.000--200.000 kr. Sú upphæð sem við erum að tala um er býsna stór hluti af þeim tekjum. Ég geri ráð fyrir að stúdent sem þannig er ástatt um muni vissulega um þessa peninga. Fjölskyldu launafólks í landinu munar líka um þessa peninga. Þannig að hér er um stórmál að ræða hvað svo sem stefnu Framsfl. líður í því máli. Um kosningaloforð ræði ég ekki, það er augljóslega búið að afskrifa þau. (Gripið fram í: Ég skal rifja þau upp.) Eitt af þeim virtist hins vegar hér vera í gær og sýnir nú hversu marklítil þau eru að hv. þm. vildi meina að það gæti verið nokkuð til sálubótar, jafnvel til efnahagslegrar hagsældar að úti fyrir skini sólin. Það var helst að heyra á ræðumanni að það væri uppfylling á kosningaloforðum þeirra framsóknarmanna og kannski dæmigert fyrir innihald þeirra og merkilegheit. En það er ekki eðlilegt, herra forseti, að háskólastúdentum sé gert að greiða svo hátt hlutfall tekna sinna sem skráningargjald við Háskóla Íslands og gildir í rauninni einu hversu hlutfall tekna gjaldið væri. Við erum ekki að tala um greiðslu fyrir þá þjónustu sem hægt er að flokka eða telja til kostnaðar við skráningu stúdenta við háskólann. Það er því misskilningur sem kom fram í umræðunni í gær að einungis væri hér verið að deila um upphæð. Við erum ekki að deila um upphæð, herra forseti, við erum að deila um það hvað megi flokka sem skráningargjald. Hversu langt má ganga í þeim efnum að flokka rekstrarkostnað háskólans sem skráningargjald? Hversu nálægt erum við komin því með þessari upphæð, þó hún sé kölluð skráningargjald, að hún sé farin að kosta, ekki bara rekstur heldur líka kennslukostnað Háskóla Íslands? Ef við erum tilbúin til þess að samþykkja að sá kostnaður sem hér er tilgreindur sé einfalt skráningargjald Háskóla Íslands í þeim skilningi sem það hefur verið frá árinu 1909 hvað erum við þá tilbúin til að gera að ári?

Í þeirri greinargerð sem fylgir með þeim frv. sem hér eru lögð fram um breytingar á lögum um háskólann kemur fram að flutningsmenn virðast hafa velt því fyrir sér að breyta heiti gjaldsins. Eðlilega vegna þess að þeim var auðvitað jafnljóst og þeirri sem hér stendur að þetta gjald nær orðið yfir mun fleiri atriði en þau sem beinlínis er hægt flokka sem kostnað við skráningu. En það varð niðurstaðan að heiti gjaldsins yrði óbreytt. Það segir okkur auðvitað ákveðna sögu. Ég undirstrika að hér er ekki bara um ágreining að ræða sem snýst um það hvort að gjaldið eigi að vera 14.000--15.000 hærra eða lægra, það snýst um það hvað menn eru tilbúnir að viðurkenna sem skrásetningargjald við Háskóla Íslands.

Varðandi þá umfjöllun sem farið hefur fram um framhaldsskólann og það skrásetningargjald sem þar hefur verið innheimt og stendur til að innheimta áfram hafa menn alveg verið með klárar skilgreiningar á því hvað mætti flokka sem skrásetningargjald. Þar komast menn ekki hærra en 6.000 kr. fyrir skólaárið. Þó geri ég ráð fyrir að þar hafi menn reynt að tína til það sem hægt var að tína til. Það er talað um að þeir peningar geti gengið til greiðslu tiltekinna þátta, að hluta til kennsluefnis og pappírsvara sem skólinn lætur nemendum í té án endurgjalds en nauðsynlegir eru taldir vegna starfa skólans. 2. minni hluti menntmn. gerir líka tilraun til þess að skilgreina hvað það er sem sannanlega getur talist til skrásetningargjalda og með því sem rennur til Félagsstofnunar stúdenta og starfsemi stúdenta er það skoðun þess minni hluta að um geti verið að ræða, svo sanngjarnt geti talist, gjald upp á 9.000 kr. Allt sem þar fer fram yfir, herra forseti, er skólagjald. Enda þótt það hafi orðið niðurstaða flutningsmanna að breyta ekki heiti gjaldsins að þessu sinni er það klárlega eðli þess gjalds sem hér er verið að lögfesta. Það verður að segjast eins og er að þegar við erum að tala um stefnubreytingu í menntamálum, eins og þá að við ætlum að fara að innheimta skólagjöld til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, er eðlilegra að hlutirnir séu kallaðir sínu rétta nafni vegna þess að hér er um þess háttar breytingu að ræða að hún hlýtur að kalla á umræðu, ekki bara um þau skólagjöld sem hér er verið að fara fram með heldur menntastefnu í landinu.

Menn hafa komið hér og lýst ótta sínum við það sem hér er að gerast, ótta sínum um það að eftir ár verði gjaldið hækkað. Við munum þá kannast við rök Framsfl. í því máli þegar kemur að virðingu hinnar öldnu stofnunar, Háskóla Íslands og hinnar ungu stofnunar Háskólans á Akureyri, en auðvitað óttast menn það að ef hægt er að fara fram með þessum hætti að klæða skólagjöldin í þennan dulbúning verði ekki látið staðar numið hér heldur þurfi stúdentar við háskólana og fjölskyldurnar í landinu að búa við það að hér verði um síhækkandi gjöld sem verða þá e.t.v. áfram kölluð skrásetningargjöld, að ræða á næstu árum.

[14:45]

Hv. þm. Guðni Ágústsson var undrandi á þeim málflutningi sem aðrir þingmenn höfðu uppi í þessum ræðustól í gær. Hann var nokkuð viss um að málflutningur hliðstæður þessum tíðkaðist ekki í öðrum þjóðþingum. E.t.v. er skýringin sú að það sitja ekki framsóknarflokkar á hinum þjóðþingunum. Þar leyfa menn sér ekki að fara fram í kosningum með þann málflutning sem okkar Framsfl. leyfir sér að fara fram með eða með svo blygðunarlausum hætti að snúa baki við því sem flokkurinn var kosinn út á. Ég hygg að hv. þm. geti sjálfur valið skýringuna, en sé hún ekki allar þessar þá er hún örugglega ein af þeim.