Háskóli Íslands

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 14:56:14 (5371)

1996-04-30 14:56:14# 120. lþ. 128.1 fundur 217. mál: #A háskóli Íslands# (skrásetningargjald) frv. 29/1996, 218. mál: #A háskólinn á Akureyri# (skrásetningargjald) frv. 30/1996, Frsm. 2. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[14:56]

Frsm. 2. minni hluta menntmn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég talaði í 2. umr. í þessu máli og gerði grein fyrir mínum viðhorfum. Síðan hefur margt fallið í umræðunni og því tel ég mér bæði rétt og skylt að koma upp aftur.

Það kemur fram í greinargerð með frv. ríkisstjórnarinnar að þessi frv. um skrásetningargjöld við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri eru lögð fram vegna álits sem umboðsmaður Alþingis gaf á lögmæti þess að leggja á skrásetningargjöld. En í þessari umræðu hefur lítið sem ekkert verið fjallað um álit umboðsmanns Alþingis og því tel ég mér bæði rétt og skylt að fara örlítið yfir það mál, því að það sem hér er til umræðu snýst fyrst og fremst um það hvort verið er að leggja á skrásetningargjöld eða hvort verið er að leggja á skólagjöld, hvort hér sé verið að kúvenda í menntastefnu Íslendinga.

Umboðsmaður Alþingis fjallaði einmitt um það hvort hér séu á ferðinni skrásetningargjöld, skattur eða þjónustugjöld. Um það segir hann m.a., með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrárinnar má engan skatt á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Samkvæmt 77. gr. stjórnarskrárinnar skal skipa skattamálum með lögum, en í því felst m.a. að í lögum verður að kveða á um skattskyldu, skattstofn og reglur um ákvörðun fjárhæðar skatts og fleiri atriði.

Þegar af þeirri ástæðu að engin lagaákvæði eru um fjárhæð gjaldsins`` --- hann er að fjalla um skráningargjaldið --- ,,eða hvernig það skuli ákvarðað, verður ekki á það fallist að umrædd lagagrein feli í sér skattlagningarheimild.``

Með öðrum orðum, þegar ekki er kveðið sérstaklega á um fjárhæð gjaldsins verður ekki á það fallist að umrædd lagagrein feli í sér skattlagningarheimild. Af þessu verður væntanlega ráðið að þegar fjárhæðin er ákveðin, þá hljóti að vera um að ræða skattlagningu og eins og frv. ríkisstjórnarinnar lítur út, þá sé í raun og veru verið að leggja á skatt en ekki skrásetningargjöld. Svo heldur umboðsmaður áfram og segir, með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af orðalagi 1. mgr. 21. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, um skráningargjaldið verður að telja að ákvæðið veiti Háskóla Íslands einungis heimild til þess að taka gjald til þess að standa straum af kostnaði sem hlýst við að veita þá þjónustu sem kveðið er á um í gjaldtökuheimildinni. Hér er því verið að ræða um svonefnt þjónustugjald sem heimilt er að taka vegna skrásetningar nemenda í Háskóla Íslands.``

Skrásetningargjald er því að það er heimilt að taka gjald sem hlýst af kostnaði við skrásetningu og ekkert annað. Menn eiga því í þessu tilviki að kalla skóflu skóflu en ekki að lauma inn einhverju gjaldi undir dulnefni. Umboðsmaður heldur áfram og fjallar um ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjaldsins og segir m.a., með leyfi forseta:

,,Við skýringu þessa gjalds verður að hafa í huga að Háskóli Íslands hefur ekki lagaheimild til þess að taka skólagjöld til þess að greiða almennan rekstrarkostnað Háskóla Íslands. Samkvæmt 6. gr. laga, nr. 55/1974, um skólakerfi, er kennsla veitt ókeypis í öllum opinberum skólum hvort sem er á skyldunámsstigi, framhaldsskólastigi eða háskólastigi, sbr. áður lög nr. 22/1946, um skólakerfi og fræðsluskyldu.``

[15:00]

Herra forseti. Með öðrum orðum er kveðið á um það í lögum að kennsla skuli veitt ókeypis og í öllum opinberum skólum sem Háskóli Íslands er, hvort sem er á skyldunámsstigi, framhaldsskólastigi eða háskólastigi þannig að það frv. sem hér liggur frammi er alveg skýr og klár breyting á þeirri menntastefnu sem hefur verið rekin á Íslandi um áraraðir. Umboðsmaður vitnar í bréf frá háskólanum þar sem segir:

,,Skrásetningargjaldið stendur undir hluta kostnaðar við háskólastarfið. Þar má nefna margvíslega þjónustu sem stúdentum er veitt á námstímanum utan formlegra kennslustunda, svo sem skráningu stúdenta í námskeið og próf, varðveislu upplýsinga um námsferil sem sendar eru stúdentum`` o.s.frv. Umboðsmaður fellst á það að ákvörðun fjárhæðar skrásetningargjalds að baki henni standi a.m.k. kostnaður við nemendaskrá við háskólann, skráning stúdenta í námskeið og próf, varðveislu, vinnslu og miðlun þessara upplýsinga.

Með öðrum orðum fellst umboðsmaður á a.m.k. fjóra liði af þeim sem hér eru taldir til í bréfi sem Háskóli Íslands er merktur fyrir og er sent menntmn. og er bókað 12. mars 1996. Þar er m.a. áætlaður kostnaður annar en kennslukostnaður af skrásetningu 5.500 nemenda á háskólaárinu 1995--1996, reiknað út frá rauntölum ársins 1995. Hv. þm. Svavar Gestsson fór aðeins yfir þetta um daginn en það var seint um nótt og því fáir í salnum og því held ég að sé nauðsynlegt að fara betur yfir þetta. Hér segir m.a.:

Nemendaskrá skrifstofu. Áætlaður kostnaður 12.034.877 kr., þar af kr. 2.188 kr. á hvern námsmann. Póstsendingar vegna námsferilsyfirlits 770 þús. eða 140 kr. á hvern námsmann. Auglýsingar vegna skráningar 238.743 eða um það bil 43 kr. á hvern námsmann og kennsluskrá 2.750 þús. eða um það bil 500 kr. á hvern námsmann. Á annað fellst umboðsmaður ekki. Hann tekur sérstaklega fram, með leyfi forseta:

,,Ég tel hins vegar ljóst að undir þessa gjaldtökuheimild verði t.d. ekki felldur kostnaður við rekstur á tölvum og prenturum.`` Hann tekur sérstaklega fram að undir skrásetningargjald verði ekki felldur kostnaður við rerkstur á tölvum og prenturum og þaðan af síður á prenturum Reiknistofnunar háskólans. Hann telur ekki fleira upp, enda held ég að hann hafi ekki haft hugmyndaflug og allt það sem starfsmönnum háskólans datt í hug að setja undir skrásetningargjaldið. Ég held að sé nauðsynlegt að ég haldi frekar áfram við að kynna hvaða kostnað háskólinn telur að standi að baki skrásetningargjaldi. Uppýsingabæklingar, 2,2 millj., þar af 400 kr. á hvern námsmann. Nemendaskrárkerfi, tölva og kerfisfræðingar 6.911.309, þar af 1.257 á hvern námsmann. Námsráðgjöf og námskynning 14.536.000, þar af 2.643 á hvern námsmann. Prógæsla 7 millj. 28 þús. Það að skrásetja nemanda í skólann, afleiðingin af því er væntanlega að hann þarf að taka próf og þar af leiðandi er prófgjald. Maður hlýtur að velta því fyrir sér, úr því að það er til skóli og einhver skráir sig í skólann, þá hlýtur að þurfa að byggja skóla þannig að það er með ólíkindum að hér skuli ekki vera byggingarkostnaður enda væntanlega rekið þá af happdrættinu. Prófdómarar 4.593.113, 835 kr. á hvern námsmann. Prófgögn, það er væntanlega prófblöðin og pennar kannski, 1.618.000 þannig að þeir eru ekki sínkir á fé þarna í háskólanum, það eru 294 kr. á hvern mann. Svo kemur liður sem er merktur ljósritun og í hann ætla menn að eyða 16,5 millj., hvorki meira né minna. 16,5 millj. kostar ljósritun vegna þess að 5.500 nemendur ætla að skrá sig í skólann. Það eru 3 þús. kr. á hvern mann.

Aðgangur nemenda að tölvubúnaði og tölvunetum Háskóla Íslands er tæpar 20 millj. Kostnaður við að nemandi láti skrá sig í háskólann vegna þess að það þarf að veita honum aðgang að tölvubúnaði og tölvunetum eru tæpar 20 millj., 3.545 á hvern námsmann. Þar sem nemandinn ætlar að skrá sig í skólann er nauðsynlegt að veita honum að gang að Internetinu, það er alveg grundvallaratriði og aðgangurinn að því kostar væntanlega 2,4 millj., þ.e. 436 kr. á hvern námsmann. Svo kemur útprentun nemenda hjá Reiknistofnun en af einhverjum ástæðum hvarflaði að umboðsmanni Alþingis það hugmyndaflug að einhverjum dytti í hug að setja það undir skrásetningargjald og um það segir hann m.a., með leyfi forseta: ,,... kostnaður við rekstur á tölvum og prenturum Reiknistofnunar háskólans enda er þar ekki um að ræða starfsemi sem er í nánum og efnislegum tengslum við ,,skrásetningu`` nemenda í Háskóla Íslands.`` Umboðsmaður segir að þetta geti aldrei fallið undir skrásetningargjald. Ég veit ekki hverju veldur en hann virðist hafa haft hugmyndaflug um að þeim dytti í hug að setja þetta undir skrásetningargjald.

Ég hef þá að mestu leyti lokið upptalningu úr þessu bréfi en af einhverjum ástæðum hefur hæstv. ríkisstjórn ekki fallist á alla þá kostnaðarliði sem hér eru því að samtals er kveðið á um að skrásetning nemenda í háskólann kosti 138.835.582 kr. og er sennilega hér um að ræða dýrustu skrásetningu á byggðu bóli en ríkisstjórnin metur þetta ekki nema 132 millj. svo að hún hefur eitthvað slegið af og ekki samþykkt allar þær kröfur sem koma frá háskólanum.

Virðulegi forseti. Svo sem efni standa til óskaði umboðsmaður Alþingis eftir því í bréfi, dags. 14. desember 1993, að háskólaráð skýrði hvaða sjónarmið hefðu legið að baki því að fjárhæð skrásetningargjalds sem renna skyldi til háskólans sjálfs skyldi vera 17 þús. kr. Í svarbréfi Háskóla Íslands dags. 17. jan. 1994, segir m.a.:

,,Sjónarmiðin sem lágu að baki því að háskólaráð ákvað að fjárhæð skrásetningargjalds til skólans sjálfs yrði kr. 17 þúsund eru þau að með fjárlögum ársins 1992 voru áætlaðar sértekjur yfirstjórnar háskólans samkvæmt fjárlagalið 02-201 101 hækkaðar úr 8 millj. 980 þús. kr. í tæpar 9.950 þús. kr. og fjárveiting til yfirstjórnar var lækkuð úr 83 millj. í 100 þús. kr. Háskólanum var því nauðugur einn kostur að innheimta skrásetningargjald að fullu í samræmi við heimildir í frv. til fjárlaga.`` Það er því alveg ljóst að miðað við það sem hér kemur fram að þegar menn eru að leggja á skólagjöld, þá eiga menn bara að kalla það skólagjöld og taka það til umræðu sem skólagjöld, ekki sem skrásetningargjöld. Það er eðlilegt að ræða hér skólagjöld og það er enginn að víkja sér undan því. En að lauma þessu inn í þingið undir dulnefninu skrásetningargjöld er aðfinnsluvert.

Virðulegi forseti. Umboðsmaður heldur áfram þar sem frá var horfið en þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

,,Eins og nánar er rakið hér að framan er heimilt að standa undir kostnaði sem hlýst af starfsemi sem er í nánum og efnislegum tengslum við ,,skrásetningu`` nemenda í Háskóla Íslands`` og vísar þá í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 131/1990, og það er eðlileg lögskýring. Jafnframt heldur hann áfram og ég held að það sé rétt að lesa þetta þingmönnum til fróðleiks, með leyfi forseta:

,,Ákvæðum almennra laga verður ekki breytt með fjárlögum og áætlun um tekjur ríkisins í fjárlagafrv. er ekki viðhlítandi lagaheimild fyrir innheimtu skatta eða þjónustugjalda.`` Svo heldur hann áfram: ,,Af bréfi Háskóla Íslands til mín, dags. 17. janúar 1994, verður ráðið að ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjalds hafi verið byggð á sjónarmiðum um öflun tekna til greiðslu almenns rekstrarkostnaðar við yfirstjórn Háskóla Íslands en ekki á sérstökum útreikningum á þeim kostnaðarliðum sem heimilt var að leggja að lögum til grundvallar gjaldinu samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 131/1990. Ég tel því ljóst að ákvörðun háskólaráðs um fjárhæð skrásetningargjalds fyrir árið 1992, sem staðfest var af menntmrh., hafi ekki verið byggð á lögmætum sjónarmiðum.``

Í niðurstöðu sinni segir umboðsmaður og er eðlilegt að lesa hana þar sem það frv. sem hæstv. menntmrh. lagði fram byggir alfarið á þessu áliti og nauðsyn þess rakin til þess að umboðsmaður Alþingis hafi komist að því að ekki væri lagastoð fyrir þessu skrásetningargjaldi. Í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín að Háskóli Íslands hafi haft heimild til þess að taka skrásetningargjald við skráninguu nemenda í Háskóla Íslands skv. 1. mgr. 21. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, fyrir námsárið 1992--1993.`` --- En álit umboðsmanns fjallar einmitt um skrásetningargjald sem lagt var á það skólaárið. --- ,,Þar sem umrædd lagagrein felur ekki í sér skattlagningarheimild mátti umrætt gjald ekki vera hærra en sem nemur kostnaði af því að veita almennt þá þjónustu sem kveðið er á um í gjaldtökuheimildinni. Í málinu liggur því fyrir að Háskóli Íslands hefur ekki tekið afstöðu til þess hvaða kostnaðarliðir verði lagðir til grundvallar við útreikning á fjárhæð gjaldsins samkvæmt 1. mgr. 21. gr. laga nr. 131/1990. Í þess stað var fjárhæð gjaldsins byggð á sjónarmiðum um öflun tekna til að standa undir almennum rekstrarkostnaði við yfirstjórn Háskóla Íslands.``

Það er nákvæmlega það sem verið er að gera núna. Það er verið að afla almennra rekstrartekna fyrir háskólann undir því fororði að um sé að ræða kostnað við skrásetningu nemenda í Háskóla Íslands. Áfram heldur umboðsmaður Alþingis, með leyfi forseta: ,,Ég tel því ljóst að ákvörðun um fjárhæð skrásetningargjaldsins fyrir námsárið 1992--1993 hafi ekki verið byggð á lögmætum sjónarmiðum`` --- þar sem ekki liggur fyrir útreikningur um það hversu hátt umrætt skrásetningargjald mátti vera fyrir námsárið 1992--1993.

Virðulegi forseti. Í því frv. sem hér liggur fyrir er kveðið á um að skrásetningargjald skuli vera 24 þús. kr. en eins og fram kom í áliti umboðsmanns og ég las upp úr áðan má ráða af orðum hans að þegar slíkt gjald eins og þetta er fest niður við ákveðna fjárhæð sé um að ræða skattheimtu og menn eiga að kalla það gjald sem þeir eru að innheimta réttum nöfnum, hv. þm. Guðni Ágústsson. (Gripið fram í: Stefnuskráin.) Alþfl. hefur sérstakan fulltrúa sem þekkir stefnuskrá Framsfl. út og inn og ég held að honum verði látið það eftir að fjalla frekar um hana.

[15:15]

En síðan kemur stórkostleg setning, 2. máls. 1. mgr. í þessu frv.: ,,Upphæð gjaldsins kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.`` Hér virðist ljóst vera að þessi fjárhæð getur breyst frá ári til árs og menn fái þá væntanlega einhverjar nýjar hugmyndir um það hvað geti fallið undir skrásetningargjöld. Það sem féll undir skrásetningargjöld í fyrra þarf ekki endilega að falla undir skrásetningargjald í ár. Af hverju þarf að breyta þessu með tilliti til afgreiðslu fjárlaga ár hvert? Það er ekki vegna þess að kostnaður við skrásetningu breytist á milli ára heldur hitt að það er allsendis óvíst hvernig árar hjá ríkissjóði. Það mun verða sá grundvöllur sem gjaldið mun verða byggt á. Það fer nákvæmlega eftir því hvernig árar hjá ríkissjóði og hvernig hv. þm. Framsfl. gengur að rétta af halla ríkissjóðs.

Virðulegi forseti. Hér er því ekki verið að gera neitt annað en lögfesta skatt eða skólagjöld undir dulnefninu skrásetningargjald. Þessi leið er réttlætt með því að Háskóla Íslands er ætlað að áætla annan kostnað en kennslukostnað sem hlýst af skrásetningu 5.500 nemenda eins og ég rakti áðan. Hér er um pólitíska stefnubreytingu að ræða í menntastefnu þjóðarinnar því eitt af því sem óumdeilt hefur verið og sátt ríkt um í íslensku samfélagi er að hið opinbera skuli ekki innheimta skólagjöld til að standa undir rekstrarkostnaði skóla sem reknir eru af hinu opinbera. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1974 segir að kennsla skuli veitt ókeypis í öllum opinberum skólum. Er þetta grunnatriði í því stefnumiði að á Íslandi skuli ríkja jafnrétti til náms. Í ljósi þessa hefur kostnaður við rekstur skóla verið greiddur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna en í einstaka tilvikum hefur skólayfirvöldum verið heimilt að innheimta þjónustugjöld til þess að standa straum af þeim raunverulega kostnaði sem hlýst vegna viðkomandi þjónustu sem veitt er og gjaldinu ætlað að standa undir.

Með því að samþykkja þá fjárhæð sem frv. kveður á um er löggjafinn að fallast á það að þeir kostnaðarliðir sem Háskóli Íslands tiltekur séu raunverulegir kostnaðarliðir við skrásetningu. Hér tel ég að löggjafinn sé að gefa mjög vafasamt fordæmi, fordæmi sem síðan gæti rutt brautina fyrir hærri skrásetningargjöldum í aðra skóla. Í ár er ætlunin að skrásetningargjöld skili Háskóla Íslands 132 millj. Hér væri vafalaust um að ræða einhverja dýrustu skrásetningu á byggðu bóli ef gjöldunum væri aðeins ætlað að standa undir kostnaði við skrásetningu. Það er þó augljóst að svo er ekki í þessu tilviki því að þessum gjöldum er ætlað að standa undir öðru og meiru og undir þetta hefur umboðsmaður Alþingis tekið. Hann tekur það skýrt fram að á meðan gjöldin eru í þessum hæðum sé verið að afla tekna fyrir allt annað en það að standa raunverulega undir kostnaði við skrásetningu. Með lögfestingu þessa frv. hafa stjórnvöld tekið þá pólitísku ákvörðun að taka upp skólagjöld og bera vitaskuld á henni pólitíska ábyrgð.

Virðulegi forseti. Ég tel að gjalda beri mikinn varhug við vinnubrögðum af því tagi sem hér um ræðir. Stjórnvöld sem hafa nú þegar reynt að fara þessa leið einu sinni og fengið skömm fyrir ætla nú að lögfesta skattlagningu á háskólastúdenta undir dulnefninu skrásetningargjöld. Verði þetta frv. að lögum sem allar líkur standa til er ljóst að ákvörun um fjárhæð skrásetningargjalds muni í framtíðinni fyrst og fremst taka mið af fjárhagsstöðu ríkissjóðs hverju sinni en ekki kostnaði við að skrásetja nemendur í Háskóla Íslands. Að minni hyggju hefði verið eðlilegra að ræða þetta á Alþingi undir réttum formerkjum og gera á því athugun hvort raunverulegur vilji þingheims standi til þess að gera atlögu að hugmyndinni um jafnrétti til náms með því að taka upp skólagjöld. Á slíkum vinnubrögðum hefði verið ólíkt meiri manndómsbragur en þeim að ætla sér að lauma þessari grundvallarstefnubreytingu í gegnum Alþingi undir felunafninu skrásetningargjöld.