Iðnþróunarsjóður

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 16:28:24 (5397)

1996-04-30 16:28:24# 120. lþ. 128.5 fundur 487. mál: #A Iðnþróunarsjóður# (gildistími o.fl.) frv. 63/1996, SvG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[16:28]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að spyrja hæstv. iðnrh. nokkurra spurninga varðandi þetta frv. og líka til að vekja athygli á því að það liggur fyrir þinginu annað frv. ekki ósvipað sem flutt er af mér og fleiri þingmönnum Alþb. og óháðra, reyndar öllum þingflokknum. Það er frv. til laga um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð á þskj. 645, sem er 368. mál þingsins. Þar gerum við tillögu um að stofnaður verði sérstakur sjóður sem við köllum áhættu- og nýsköpunarlánasjóð. Hann verði starfræktur í tilraunaskyni til ársins 2000, verði sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins og vistaður í forsrn. Það er aðallega hugsað til þess að draga úr því að hann sé merktur einhverri sérstakri atvinnugrein. Það var dálítið erfitt að vista hann í öðru atvinnuvegaráðuneytunum fannst okkur. Við gerum ráð fyrir því að fyrir lok ársins 2000 taki Alþingi ákvörðun um framlengingu eða breytingu á starfseminni með hliðsjón af þeirri reynslu sem liggur fyrir á sjóðnum. Við gerum ráð fyrir því að hann verði undir sérstakri stjórn fimm manna sem verði tilnefndir þannig að það verði einn frá samtökum launafólks, einn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sá þriðji frá samtökum atvinnurekenda, en forsrh. skipar tvo án tilnefningar og annar þeirra verði formaður stjórnar sjóðsins.

[16:30]

Við segjum í því sem má segja að sé ein aðalgrein frv., með leyfi forseta:

,,Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar nýsköpun í atvinnulífi, en einnig þróunar- og tilraunastarfi og nýjum verkefnum sem virðast geta orðið arðsöm. Sjóðurinn skal sérstaklega sinna þörfum þeirra sem ekki hafa fullnægjandi aðgang að öðrum sjóðum né hefðbundnum lánastofnunum sem þó starfa í þágu atvinnulífsins. Sjóðurinn beinist ekki síst að því að styrkja þá einstaklinga og þau fyrirtæki sem ekki geta uppfyllt hefðbundar kröfur um venjulega veðsetningu fyrir lánum eða skortir áhættufé í formi hlutafjár til að ráðast í ný verkefni.``

Síðan gerum við ráð fyrir því að stofnfé þessa sjóðs sé um 1.000 millj. kr. á ári og við reiknum með því að stjórn sjóðsins geti ávaxtað og ráðstafað fjármunum sjóðsins sem hér segir. Í fyrsta lagi með því að kaupa hluti eða hluta í nýjum fyrirtækjum eða eldri fyrirtækjum vegna nýrra verkefna sem efnt er til innan lands eða erlendis. Í öðru lagi til að veita endurkræfan styrk, víkjandi lán eða vaxtalaus lán úr sjóðnum enda séu gerðar strangar faglegar kröfur til fyrirtækisins. Í þriðja lagi til að veita lán úr sjóðnum jafnvel þótt fyrirtæki geti ekki veðsett eignir á móti lánunum með hefðbundnum hætti. Í fjórða lagi til að kosta sérfræðiaðstoð við markaðssetningu og þróunarstarfsemi fyrir fyrirtæki og í fimmta lagi til að veita lán á venjulegum kjörum til viðbótar annarri fyrirgreiðslu annarra lánastofnana.

Í grg. er fjallað um að almennt verði miðað við að 40--70 aðilar fái einhvern styrk úr þessum sjóði á ári þó að hámarki 20 millj. kr. á hvert fyrirtæki. Nái fyrirtækið verulegum tekjuauka má gera ráð fyrir því, segir í hér í reglum sjóðsins, að styrkur verði endurgreiddur eða innheimta hafin á víkjandi láni.

Í þeirri stefnu sem við alþýðubandalagsmenn kynntum fyrir síðustu kosningar og heitir útflutningsleiðin ... (Gripið fram í: Er það ekki leiðin til Bessastaða?) Útflutningsleiðin liggur nú lengra en sjálfsagt þangað líka. Í útflutningsleiðinni var einmitt fjallað um þetta atriði og þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Áhættufjármagn fyrir hugvits- og hæfileikafólk.

Nýsköpun í hagkerfinu verður aldrei án þess að opnaður sé aðgangur að verulegu áhættufjármagni fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vilja fara inn á nýjar brautir. Skortur á slíku áhættufjármagni hindrar verulega þróunarmöguleika íslensks atvinnulífs.

Þess vegna er nauðsynlegt að koma á fót sérstökum áhættulánasjóði sem fjármagnaður yrði með árlegum greiðslum frá bönkum, stórfyrirtækjum, ríki og sveitarfélögum. Með starfsemi slíks sérstaks áhættulánasjóðs mundi staða bankanna styrkjast og því væri eðlilegt að þeir tækju þátt í því að koma honum á fót.``

Hér hef ég rakið nokkur atriði, hæstv. forseti, úr frv. okkar alþýðubandalagsmanna um áhættulána- og nýsköpunarsjóð vegna þess að þar er að nokkru leyti komið inn á sömu hugsun og þá sem er í þessu frv. sem hæstv. iðnrh. var að mæla fyrir. Hér er gert ráð fyrir því að um geti verið að ræða einhver áhættulán. Þá er kannski rétt að taka það sérstaklega fram að um það ríkti alger samstaða þegar þessi lög voru samþykkt í núgildandi mynd, það var enginn ágreiningur um það. Og ég man eftir því að málið fékk samt dálitla umræðu í hv. iðnn. en við lögðum til að þetta yrði samþykkt og um það var samstaða með öllum flokkum.

Það má segja að í þessu frv. hæstv. ríkisstjórnar sé gert ráð fyrir því að áhættan birtist á sérstökum afskriftareikningi eins og fram kemur í 1. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Fyrir verkefni skv. 1.--4. tölul. 2. mgr. skal Iðnþróunarsjóður halda sérstakan afskriftareikning.`` Og: ,,Fjárhæðirnar, sem bætt er við afskriftareikninginn, skulu í hverju tilviki samsvara þeirri áhættu sem tekin er og vera í samræmi við reglur sem ráðherra staðfestir.``

Ég man eftir því að þegar við vorum að fjalla um þetta frv. fyrir tveimur árum, þessi lög fyrir tveimur árum, þá veltum við okkur: Hvernig verða þessar reglur? Hvernig verða þær reglur sem ráðherra setur um þessar afskriftir? Hvernig verður áhættan metin til afskrifta fyrir fram? Vegna þess að menn vita ekki nákvæmlega hverju viðkomandi verkefni kann að skila og menn veltu því fyrir sér hvernig áhættan yrði metin. Ég mundi vilja byrja á því að spyrja hæstv. iðnrh. að því hvernig þetta hefur gengið. Hvernig hefur gengið að meta þessa áhættu? Hvernig hafa reglurnar reynst sem settar hafa verið? Það hljóta að hafa verið settar reglur í þessu efni og ég vildi gjarnan fá upplýsingar um það.

Í grg. frv. kemur fram að þess sé vænst að nýtt fyrirkomlag sjóðamála fái afgreiðslu á komandi haustþingi og lög taki gildi um næstu áramót. Það er náttúrlega eins og venjulega verið að lofa upp í ermina á sér í sambandi við næsta þing. En þó er gert ráð fyrir því hér í frv., hæstv. forseti, að þessi lög falli úr gildi 31. des. 1997. En svo stendur í grg. að það er eins og nýtt fyrirkomulag eigi að taka gildi um næstu áramót. Mér sýnist því að það hafi nú farið eitthvað á milli mála í prófarkalestri eða það skorti nákvæmni varðandi texta grg. annars vegar og frv. hins vegar að því er varðar gildistökuna. Það kannski skiptir ekki öllu máli því það er bara hlutur sem þingnefnd lagar.

Hitt sem ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra um og er þá spurning númer tvö. Hvar er verið að vinna að þessu verki? Hverjir eru að vinna í þessu nýja frv. sem þarna er verið að tala um? Hverjir hafa komið að því, þar sem talað er um að reyna að ná utan um þá sjóði og þá starfsemi sem er til nýsköpunarverkefna og áhættufjármögnunar af ýmsu tagi? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hverjir eru að vinna að þessu og hvort hann teldi ekki eðlilegt að t.d. iðnn. Alþingis kæmi að verkefni eins og þessu því að ég þekki það af eigin raun að þar vilja menn gjarnan vinna saman að faglegum og tæknilegum verkefnum. Og ég spyr að því hvort ráðherrann telji ekki koma til greina að þessi endurskoðun varðandi nýtt fyrirkomulag sjóðamála verði að einhverju leyti unnin af hv. iðnn. Alþingis en ekki bara af einhverjum fulltrúum stjórnarflokkanna eins og er nú plagsiður í seinni tíð og hófst í síðustu ríkisstjórn og er haldið áfram í þessari í öllum meginatriðum þó að það sjáist nú gleðilegar undantekningar að vísu. Þetta vildi ég spyrja hæstv. ráðherra um í öðru lagi.

Í þriðja lagi vil ég víkja aðeins að grg. um starfsemi Iðnþróunarsjóðs sem birtist á bls. 2 og 3 í frv. Ég þakka fyrir þessa grg. Hún er fín og fróðleg. Þar kemur t.d. fram að það er ansi mikið fé sem farið hefur í áhættulán. Það er þó nokkuð mikið fé. Mig minnir að það komi einhvers staðar fram að búið sé að leggja á afskriftareikning á annað hundrað millj. kr., 109 millj. eða 110 millj. kr. sé þegar búið að leggja á afskriftareikning vegna þeirra útlána, áhættulána sem þegar hafa farið frá sjóðnum. Það er þó nokkuð mikil upphæð vegna þess að það jafngildir því að búið sé að afskrifa fé Iðnþróunarsjóðs sem 100--110 millj. kr. nemur, þó svo að auðvitað geti það verið þannig að eitthvað af þessu skili sér því þarna geri ég ráð fyrir því að menn hafi þá skynsamlegu reglu að hafa að einhverju leyti borð fyrir báru. Ég vil inna hæstv. iðnrh. eftir því, hver þessi lán eru. Hvort það er hugsanlegt að fá aðgang að ítarlegri flokkun en þeirri sem hér er í grg. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki við hæfi að lista það upp í smáatriðum í grg. í frv. hvernig svona lagað er vegna þess að þarna er oft um að ræða tiltekin trúnaðarmál milli sjóðsins annars vegar og viðskiptavina hans hins vegar. Það er því ástæðulaust að vera að þrengja að því. En ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það er ekki hugsanlegt að fá ítarlegri flokkun á þessum málum en fram kemur í grg. þegar kemur að meðferð málsins í hv. iðnn. En hér segir aðeins í flokkuninni sem ég ætla að víkja að, með leyfi forseta:

,,Alls hafa verið samþykkt tíu vöruþróunarverkefni og veitt til þeirra 75 millj. kr. Þar af eru 10,5 millj. kr. í formi hlutafjár og 4 millj. kr. til sérstaks verkefnis á vegum iðnrn.``

Hvað þýðir þetta? Hvað er sérstakt verkefni á vegum iðnrn. ef hægt er að upplýsa um það, sem ég vænti að sé. Ég verð að segja að mér finnst þetta vera þó nokkuð myndarlegt því að þetta eru 7--8 millj. kr. á hvert vöruþróunarverkefni. Án þess að ég sé að sjá eftir þessum fjármunum og vafalaust eru fagleg rök á bak við notkun þeirra, þá eru þetta allt stórar upphæðir sem er verið að láta þarna af hendi því að þetta eru næstum því allt saman áhættulán. Af þessum 75 millj. sem hafa farið í vöruþróunarverkefni sýnist mér að u.þ.b. 60 millj. séu áhættulán. Það er í sjálfu sér gríðarlega há tala sem er í áhættulán og það er þegar búið að afskrifa þó nokkurn hluta af þessum áhættulánum. En hér er um að ræða allmikið framlag úr opinberum sjóði til þessara fyrirtækja. Það er verið að afhenda þessum fyrirtækjum allmikið framlag úr opinberum sjóðum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér þetta fyrir sér og hver er hans skoðun á þessu, hvort þetta séu ekki allmyndarlegar tölur. Ég get kannski spurt hæstv. ráðherra í fjórða lagi: Hver er hæsta upphæðin sem einstakt fyrirtæki hefur fengið í vöruþróunarverkefni?

Þá er hér fjallað um markaðsöflun erlendis og verkefnaútflutning og segir þar að sjóðurinn hafi leitast við að styðja útrás íslenskra fyrirtækja í hvívetna og sett sérstakar reglur um þess háttar stuðning. Þarna hafa fjórar umsóknir verið samþykktar og veitt til þeirra 51 millj. kr., það er ansi myndarlegt líka, í lánsfé auk 10 millj. kr. hlutafjár. Þá hefur sjóðurinn til viðbótar þessu veitt áhættulán til sex verkefna við markaðsöflun erlendis alls að fjárhæð 56,3 millj. kr. auk eins hlutafjárframlags að upphæð 5 millj. kr. Þarna mundi ég vilja spyrja hæstv. ráðherra, í fimmta lagi, um þetta hlutafjárframlag. Ekki er sjóðurinn að eignast hlut eða hvað? Hvernig er þessum hlutum háttað? Auðvitað er hugsanlegt að það sé skynsamlegt að svona sjóðir eignist hlut um tíma. Spurningin er þá um það hversu lengi það er og með hvaða reglum hann losar sig svo út úr því.

Síðan er fjallað um þriðja þáttinn í verkefnum sjóðsins og það eru erlendar fjárfestingar á Íslandi. Þar hefur sjóðurinn veitt 13,8 millj. í styrki í því sambandi. Ég held ég verði að inna hæstv. ráðherra eftir því hvað það er. Eru það stóriðjuverkefnin varðandi erlenda fjárfestingu á Íslandi? (Iðnrh.: Fyrirgefðu!) Erlend fjárfesting á Íslandi fær 13,8 millj. og ég ætlaði að spyrja ráðherrann að því hvað það er. Eru það stóriðjuverkefni sérstaklega? Er það markaðsskrifstofan eða hvað er það sem fær þá peninga? Samtals sýnist mér hérna vera búið að veita, ef ég kann að lesa þetta rétt, um 120 millj. kr. í áhættulán og það er búið að afskrifa 109. Það kann að vera að þetta sé ekki nákvæmlega svona en þá væri gott ef hæstv. ráðherra mundi vilja vera svo vinsamlegur að svara því. Er það virkilega þannig að með afskriftum áhættulánanna sé búið að afskrifa þau svo að segja öll? Eða hvað? Hvernig liggur það mál? Það er mál sem ég hefði viljað fá svör við.

Að lokum, hæstv. forseti. Það er dálítið umhugsunarvert að heill þingflokkur í stjórnarandstöðu flytur frv., alvörufrumvarp um áhættu- og nýsköpunarlánasjóð. Þetta frv. hefur vakið dálitla athygli í þjóðfélaginu án þess að það hafi verið mikið brambolt í kringum það. En það er ekki aðalatriði málsins heldur hitt að mörgum vikum seinna, eftir að þingflokkurinn flytur frv., kemur ríkisstjórnin og flytur frv. um breytingu á lögum um Iðnþróunarsjóð sem er í raun og veru um sama efni og bersýnilegt er að það á að hafa hér algjöran forgang, þetta frv. ríkisstjórnarinnar. Það er bersýnilegt að það á að ljúka umræðu um það í dag og það verður tekið fyrir í iðnn. á þriðjudaginn, geri ég ráð fyrir. Og ég hef enga trú á því að það verði nein mótstaða við þetta frv. í hv. iðnn. Ég er ekki að boða slíkt að minni hálfu alla vega. En ég er hins vegar að segja að það er umhugsunarvert að þegar stjórnarandstöðuflokkur vandar sig við að setja saman þingmál af því tagi sem hér er um að ræða, þá skuli það enga meðferð fá á sama tíma og stjfrv. fá forgangsmeðferð af því tagi sem hér blasir við.

Ég verð að segja að lokum, hæstv. forseti, að ef það er svo að það sé ætlunin að að þessari endurskipulagningu sjóðakerfisins, iðnaðarsjóðanna m.a., komi aðilar sem eitthvað hafa sinnt þessum málum þá tel ég að það eigi að kalla okkur alþýðubandalagsmenn til. Við erum hér með burðuga tillögu um endurskipulagningu þessara mála, áhættu- og nýsköpunarlánasjóð, þar sem tekið er á þessum málum á mjög líkan hátt hugmyndalega og gert er í þessu stjfrv. og gert var í útflutningsleiðinni eins og við kynntum hana fyrir síðustu kosningar. Þetta vildi ég nefna, hæstv. forseti, um leið og ég segi að sú leið sem lögð er til í frv., að halda áfram, er skynsamleg. Svona á að gera þetta. Vandi atvinnulífsins á Íslandi á undanförnum árum var fyrst auðvitað verðbólga sem var allt hér að drepa, síðan er það að menn voru alltaf beðnir um steinsteypu. Menn eiga enga steinsteypu en menn eiga fullt af hugmyndum og þá þurfa að vera til sjóðir, vera til aðilar sem þora að fjármagna menn sem eru að fara af stað með hugmyndir. Af þeim ástæðum tel ég að þetta sé skynsamleg leið sem hér er farin. En mér hefði þótt vænt um ef hæstv. iðnrh. hefði getað svarað þessu að nokkru um leið og ég lýsi því aftur yfir að við erum tilbúin til þess að hjálpa til við að þróa þessa nýju sjóðalöggjöf m.a. með hliðsjón af því frv. sem við höfum sjálf flutt.