Álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 13:22:02 (5462)

1996-05-02 13:22:02# 120. lþ. 129.92 fundur 280#B álitsgerð Lagastofnunar um stjórnarfrumvarp# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[13:22]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Sú var tíð að við hæstv. félmrh. vorum samherjar þegar verið var að ræða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Þá kom inn á borð okkar álitsgerð frá Lagastofnun háskólans um það að hvaða leyti sá samningur stæðist stjórnarskrána. Og ef ég man rétt þá vorum við hæstv. félmrh. ekkert mjög ánægð með það álit. Við treystum ekkert sérstaklega vel á það þannig að við erum að ræða álitsgerðir einstakra lögmanna sem vinna þessi mál. Það vill svo til að þessi álitsgerð er að mínum dómi afar athyglisverð. Hún bendir á fjölmörg atriði eins og var rakið rétt áðan, atriði sem orka tvímælis, atriði sem þarf að bæta úr, atriði sem brjóta í bága við alþjóðlega samninga.

Hæstv. félmrh. er sífellt að tíunda að það séu tvö atriði. Þau eru miklu fleiri. Það er mjög margt sem þessir ágætu lögmenn, sem eins og ég sagði fyrr í dag, eru ekki sérfræðingar í vinnurétti, það er fjölmargt sem þeir benda á. Hins vegar vil ég benda á að þeir lögmenn sem hafa unnið álitsgerðir, m.a. fyrir einstök verkalýðsfélög og Alþýðusambandið og eru sérfræðingar í vinnurétti, koma með annan rökstuðning fyrir því að þau atriði sem þessir lögmenn fallast ekki á að brjóti stjórnarskrá, mannréttindasáttmála eða samþykktir ILO. Þeir færa rök að því að þar sé um brot að ræða þannig að allt orkar þetta tvímælis, allt þarf þetta að skoðast afskaplega vel.

Ég vil enn ítreka það að t.d. athugasemdir þeirra lögmannanna við 5. gr. frv. sem m.a. hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir gerði að sérstöku umtalsefni við 1. umr. um málið, eru ekki tíundaðar í þessum 13 atriða lista. Það er atriði sem þarf að skoða alveg sérstaklega. En niðurstaðan er auðvitað sú, hæstv. forseti, að frv. er svo illa unnið og svo illa hugsað að það á að draga til baka.