Réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 15:46:43 (5491)

1996-05-02 15:46:43# 120. lþ. 129.13 fundur 323. mál: #A réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla# frv. 72/1996, MF
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[15:46]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. formanni menntmn., að það mál sem hér er til umræðu er samkomulagsmál og hefur verið unnið í samstarfi og samvinnu allra þeirra aðila sem að því koma, kennara, sveitarstjórnarmanna og ríkis og slík vinnubrögð væru til fyrirmyndar. Hv. þm. sagði m.a. að vegna þess að málið væri stórt og viðkvæmt hefðu menn lagt sig fram um það að vinna í fullri sátt og ýta allri tortryggni til hliðar. Slík vinnubrögð hefði ég gjarnan viljað sjá við annað frv. sem er óneitanlega þessu tengt, þ.e. frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda er vitnað aftur og aftur í greinargerð með frv. um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla til gildandi laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða starfsmanna ríkisins. Það er upp og ofan hvort menn tala um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða eingöngu starfsmanna ríkisins því að í sumum tilvikum er verið að fjalla um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis og sveitarfélaga en aðrir fjalla eingöngu um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það hefur löngum verið tengt í hugum okkar allra að þegar rætt er um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sé verið að fjalla um starfsmenn sveitarfélaga sem og ríkis.

Það er mjög mikilvægt að þegar rætt er um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sé það gert í fullu samstarfi þeirra sem hlut eiga að máli. Ég get hins vegar ekki varist því þegar ég reyni að lesa saman þessi tvö frumvörp og niðurstöðu þeirra að þarna sé í raun verið að undirbúa það að kennarar, fólk með sambærilega og sömu menntun, hafi mismunandi kjör eftir því hvort þeir heiti hér eftir starfsmenn ríkis eða starfsmenn sveitarfélaga. Mér hefði fundist eðlilegt í ljósi þess að gildandi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru höfð til hliðsjónar við samningu þessa frv. að þetta frv. hefði ósköp einfaldlega verið látið bíða eða afgreiðsla þess þar til um hitt hefði samist, hvort sem niðurstaðan verður sú sem allir vona að það verði tekið aftur og unnið upp í samstarfi þeirra aðila sem þar eiga hlut að máli því að þarna er ekki síður um stórt, mikilvægt og vandasamt mál að ræða þar sem væri eðlilegt að vinna saman af miklum heilindum og ýta tortryggni til hliðar og fá niðurstöðu sem sátt næðist um.

Ég hef skoðað þessi nefndarálit og sérstaklega þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Tryggir frv. kennurum og skólastjórnendum grunnskóla sama rétt og samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, auk þess sem áfram eru tryggð réttindi sem kennarar og skólastjórnendur njóta samkvæmt reglugerðum nr. 410/1989 og 411/1989.`` Ef skoðað er það sem sagt er um þessar reglugerðir í frv. sem hér er til umræðu í 37. gr. frv. þá segir í greininni sjálfri, með leyfi forseta:

,,Eftir flutning grunnskólanna frá ríki til sveitarfélaga skulu starfsmenn ekki njóta lakari réttinda í veikindaforföllum og barnsburðarleyfum en þeir njóta nú og kveðið er á um í reglugerðum nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins.`` --- Ekki lakari rétt í veikindaforföllum eða barnsburðarleyfi heldur en segir í núgildandi lögum.

Í skýringum segir um þessa 37. gr., með leyfi forseta:

,,Efnisákvæði reglugerðar nr. 410/1989 og nr. 411/1989 skulu eftir flutninginn gilda sem lágmarksréttindi en víkja eftir atvikum fyrir betri rétti samkvæmt öðrum gildandi lögum. Breytingar sem kunna að verða gerðar á þessum reglugerðum vegna starfsmanna ríkisins hafa engin sjálfvirk áhrif á réttindi þeirra sem undir frv. þetta heyra.`` --- Það eru kennarar og skólastjórnendur grunnskóla sem reiknað er með að verði rekinn af sveitarfélögunum. Allar breytingar sem gerðar eru á frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins skulu engin sjálfvirk áhrif hafa á réttindi þeirra sem undir frv. heyra.

Í þessari grein og í skýringum við hana segir að möguleikar þeirra skólastjórnenda og kennara grunnskólans verði eingöngu í betri átt, breytingin þýði aðeins bætt kjör. Það má breyta þessu til bóta, ekki niður á við. Um sömu reglugerðir segir hins vegar í frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem þessar reglugerðir og þessi réttindu eru geymd í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laganna skulu reglugerðir nr. 410/1989, um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, og nr. 411/1989, um veikindaforföll starfsmanna ríkisins, gilda um starfsmenn ríkisins, sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laga þessara og fallið hafa undir lög nr. 38/1954, uns laun í veikindaforföllum og fæðingarorlofi hafa verið ákveðin eða um þau samið, sbr. 1. mgr. 9. gr. Sama á við þá sem ráðnir eru í sömu eða sambærileg störf á þessu tímabili á grundvelli þessara laga. Þar til um annað hefur verið samið`` o.s.frv.

Í þessu ákvæði til bráðabirgða er ekkert talað um aukinn rétt, aðeins um að þessar reglugerðir gildi fyrir starfsmenn ríkisins þar til um annað verður samið. Þeim er ekki hampað meira en svo að um þetta ákvæði gildir aðeins ákvæði til bráðabirgða samkvæmt frv. Ég vildi því gjarnan heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hann telur að með því frv. sem hér er til umræðu og svo aftur frv. sem lagt hefur verið fram og bíður reyndar umræðu, frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sé um verulega mismunun að ræða. Annars vegar er sveitarfélögunum samkvæmt lögum heimilt að bæta þessi réttindi en ríkið hefur allan rétt til að draga úr þeim fyrir starfsmenn sína. Þetta eru réttindi sem voru þó áður sambærileg, a.m.k. innan kennarastéttarinnar. Þarna finnst mér um verulega mismunun að ræða, mismunun sem er sjálfsagt ætlað í framtíðinni að reka fleyg í það samstarf sem hefur verið millum opinberra starfsmanna við samningagerð, þá starfsmanna ríkis og sveitarfélaga og jafnframt hvort hægt er með þessum hætti að tryggja fyrir fram ákveðin réttindi ákveðins hluta starfsmanna sveitarfélaganna.

Töluvert hefur verið rætt um starfsöryggi þeirra sem starfa nú á fræðsluskrifstofunum og hvernig með þau skuli farið. Mér er kunnugt um að þó nokkur sveitarfélög hafa sameinast um rekstur skólaskrifstofu og er verið að semja þar um kjör þeirra sem koma til með að starfa á skólaskrifstofunum sem í mörgum tilvikum eru núverandi starfsmenn fræðsluskrifstofa eins og þær eru reknar.

Það hafa verið uppi hugmyndir hjá sveitarfélögunum þess efnis að samtök sveitarfélaganna og þeir sem fara þar með stjórn frá degi til dags yfirtaki að hluta þau verkefni sem hafa verið hjá fræðsluskrifstofunum en það er mjög erfitt að sjá vegna þess að ekki hafa verið mótaðar fastar reglur um fyrirkomulagið varðandi fræðsluskrifstofur, skólaskrifstofur sem verða til, með hvaða hætti verður staðið að þessu og hvort samræmi er milli landshluta. Það er e.t.v. rétt að það sé samningsatriði milli landshlutasamtaka sveitarstjórna að þau sjái til þess að þessi starfsemi verði samræmd um land allt, en ég tel það afar mikilsvert, og einnig kjör þeirra sem koma til með að vinna á skólaskrifstofunum. Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra varðandi þessa mismunun sem mér finnst vera í þessum tveimur frumvörpum, annars vegar um réttindi kennara og skólastjórnenda grunnskóla sem verða starfsmenn sveitarfélaganna og þau ákvæði sem eru í reglugerðum 410 og 411 frá 1989 og hins vegar hvernig fjallað er um þær í ákvæði til bráðabirgða í frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem hluti kennarastéttarinnar kemur til með að verða áfram.