Grunnskóli

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 17:14:26 (5505)

1996-05-02 17:14:26# 120. lþ. 129.14 fundur 501. mál: #A grunnskóli# (yfirfærsla til sveitarfélaga) frv. 77/1996, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[17:14]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Menn mega ekki misskilja 3. gr. og halda að þótt húsin verði ekki flutt með þessum hætti yfir til sveitarfélaganna þá muni ríkið ekki leyfa áfram afnot af þeim í þágu skólanna. Það er verið að tala um eignatilfærsluna sjálfa. En í lok 3. gr. segir:

,,Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar í reglugerð að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.``

Það er ekki verið að taka ráðstöfunarréttinn af skólastjórum eða kennurum eða ef húsnæðið hefur verið notað sem skólahúsnæði eða bókasafn. Með þessari grein er ekki verið að banna áframhaldandi not. Það eina sem verið er að segja í þessari grein er að eignarhlut ríkisins í skólahúsnæði má afskrifa með þessum hætti. Það er ekki verið að segja að grunnskólinn muni ekki hafa áfram afnot af þeim húseignum sem ekki verða afskrifaðar með þessum hætti. Því verða menn að átta sig á. Það er ekki verið að svipta grunnskólann neinum yfirráðum yfir þessu. Það lá ekki í hlutarins eðli þegar við samþykktum grunnskólalögin í fyrra. Þá hefði allt þetta húsnæði getað verið áfram í eigu ríkisins. Enginn gerði í sjálfu sér athugasemdir við það. Það var talið eðlilegt að skólarnir störfuðu áfram þótt ríkið ætti húsin. Og það mun verða þannig áfram, þetta húsnæði verður notað í þágu skólanna. Ef það verður selt er það samkvæmt ákvörðun Alþingis um það mál eins og önnur málefni. Það sem menntmrh. fær heimild til er að setja reglugerð. Ég á ekki von á að því reglugerðarvaldi verði beitt til að úthýsa kennurum, skólastjórum eða bókasöfnum. Það finnst mér ástæðulaus ótti, ef það er það sem menn hafa í huga.

Varðandi Samband íslenskra sveitarfélaga og hlutverk þess tel ég að menn verði að lesa alla greinina. Því verður ekki skipað öðruvísi í lögum og reglugerðum en með samkomulagi aðila. Þarna er verið að fylla upp í ákveðið tómarúm en ég held að skólaskrifstofurnar séu ekki í neinu slíku tómarúmi.