Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:37:43 (5547)

1996-05-02 22:37:43# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, Frsm. 2. minni hluta HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:37]

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Hjálmar Jónsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að það eru ekki til lagaákvæði sem skylda móður til þess að gefa upp faðerni barns en það er bæði siðferðileg og félagslega skylda og þrýstingur á mæður að gefa slíkt upp. Rangfeðranir eiga sér stað að einhverju marki. Um það er að sjálfsögðu vitað en ég hef aldrei vitað um fólk sem mælti því bót fyrr en þessa dagana hér í þinginu og aldrei vitað til þess að nokkrum dytti í hug að fara að leiða í lög að fólk verði rangfeðrað. Til dæmis eru Danir með sektarákvæði í sínum lögum ef ekki er gefið upp faðerni. Þeir vilja ganga það langt til þess að fólk fari ekki á mis við þau mannréttindi að vita uppruna sinn og ættir.

Hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir talaði um að skoða þyrfti málið frá öllum sjónarhornum eða mörgum. Hagsmunir barnlausa parsins og barnsins gætu rekist á. Það er rétt. Vill hv. þm. þá taka hagsmuni parsins fram yfir hagsmuni barnsins þar sem þeir rekast á? Og eru það meiri hagsmunir barnlausa parsins en barnsins síðar?