1996-05-03 01:34:21# 120. lþ. 129.17 fundur 232. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (eiginfjárkröfur, innstæðutryggingar o.fl.) frv. 39/1996, viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[25:34]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Mér finnst að menn hafi annaðhvort örlítið misskilið eða vilji kannski ekki alveg gera sér eins glögga grein fyrir því hver sé meginástæðan fyrir því af hverju þessi ósk er komin fram.

Fyrst vil ég byrja á að fara aftur til ársins 1993, sem hér hefur talsvert verið til umræðu, en þá fékk bankinn margumrædda fyrirgreiðslu. Þá var gerð áætlun um rekstur bankans til fimm ára. Sú áætlun gerði ráð fyrir því að bankinn gæti komist út úr þeim erfiðleikum sem hann var þá kominn í með ákveðnum aðgerðum. Það átti að takast á við rekstrarkostnað bankans. Þar var sett fram ákveðin aðgerðaáætlun sem tók til fimm meginþátta.

1. Hagræðing í útibúanetinu.

2. Gert var sérstakt átak til að draga úr launakostnaði.

3. Unnið var að lækkun annars rekstrarkostnaðar.

4. Farið var yfir lífeyrisskuldbindingar bankans.

5. Kannaðir voru möguleikar á að minnka efnahagsreikning bankans.

Allar þessar aðgerðir voru til þess að koma rekstrarkostnaði bankans í það horf sem áætlanir bankans gerðu ráð fyrir. Hvort þessar aðgerðir hafa allar gengið eftir eða ekki skiptir ekki máli. Það sem hefur gerst er að bankinn hefur náð að halda sér innan þessarar áætlunar hvað rekstrarkostnaðinn snertir. Það sem gekk ekki eftir í starfseminni var að afskriftir bankans urðu miklu meiri en áætlanirnar gerðu í upphafi ráð fyrir. Fyrir því kunna að vera margar ástæður. Sú sem oftast er nefnd og ég held að sé kannski aðalskýringin er að aðstæður í efnahags- og atvinnulfinu voru miklu verri en menn gerðu sér grein fyrir að þær yrðu árið 1993. Ekki má horfa á þessar fimm aðgerðir sem menn ætluðu að grípa til og segja: Þær áttu allar að ganga eftir. Það var þetta sem átti að gera. Það var þetta sem átti að gera til að tryggja að reksturinn yrði innan rammans og það gekk fram. Auðvitað verður haldið áfram að fylgja því eftir að bankinn standi við áætlunina. Þrátt fyrir það að hér sé heimiluð endurfjármögnun til bankans upp á 1 milljarð kr. verður á engan hátt slakað á gagnvart bankanum í því. Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson spurði hvort það yrði ekki slakað á ef þessi fyrirgreiðsla fengist. Það verður ekki slakað á. Það verður fylgst eftir sem áður nákvæmlega með því hvernig bankinn stendur við rekstraráætlun sína. Það verður gert af hálfu bankaeftirlitsins. Ráðuneytisstjórar fjmrn. og viðskrn. munu fylgjast þar einnig með þannig að það er ekki verið að slaka á hvað þetta snertir.

Hv. þm. Ágúst Einarsson spurði: Af hverju þessa heimild? Menn tína ýmiss konar hluti til sem rætt hafi verið eins og BIS-hlutfall, formbreytingu til að jafna samkeppnisaðstæður, afkoman hafi ekki verið eins og menn hafi búist við. Meginástæðan er sú að beiðni kom upphaflega frá bankanum sjálfum um 2. gr. frv. eins og hún lá fyrir og gerði ráð fyrir að bankinn þyrfti ekki að leita til þingsins ef hann vildi taka víkjandi lán eða ríkisbankarnir þyrftu ekki að leita til Alþingis eins og lögin gera núna ráð fyrir ef þeir vildu taka víkjandi lán. Það veit ég að hv. þm. vita, sem sitja í efh.- og viðskn., sem hafa fengið fulltrúa Landsbankans, ekki bara einu sinni og ekki tvisvar til fundar við sig til að ræða þessi mál. Síðan hefur sú breyting, eins og hér hefur komið fram, orðið í meðförum þingsins. Mér finnst það vera eðlilegri leið. Í öðru lagi er það svo að bankinn hefur af þessum 4.250 millj. kr., sem hann tók í lán og fékk stuðning við, endurgreitt 750 millj. kr. Það var gert ráð fyrir að hann ætti að endurgreiða þetta með þessum hætti og það hefur bankinn staðið við. Þá var líka gert ráð fyrir að rekstrarafkoma bankans yrði betri eins og ég var að skýra áðan. Hann hefur ekki náð að byggja eins hratt upp eiginfjárstöðu sína og menn vonuðu og þess vegna þarf hann á endurfjármögnun að halda. Þetta eru tvær meginástæðurnar fyrir því að núna er óskað eftir þessari heimild til endurfjármögnunar. Síðan geta menn velt því endalaust fyrir sér og auðvitað er gott fyrir bankann að hafa borð fyrir báru ef BIS-reglu hlutfallinu, þessum alþjóðlegu skuldbindingum, verður breytt. Það er ekki nokkur einasti vafi. Ég heyri það hér á hv. þm. að þeir taka undir það að ef þessi breyting verði gerð sé gott fyrir bankann að hafa þetta upp á að hlaupa. Það hefur líka komið fram hjá bankanum að það er alls ekki víst að hann ætli að nýta þessa heimild. Hann mun gera það ef hann þarf á því að halda en það er ekki þar með sagt að það sé sjálfgefið að hún verði nýtt.

Þegar til formbreytingar bankanna kemur er ekki nokkur vafi að það mun verða til að styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans hafi hann nýtt sér þessa heimild. Þetta mun jafna samkeppnisaðstæðurnar milli ríkisviðskiptabankanna og einkabankans. Það er ekki nokkur einasti vafi. Ef þessi heimild er veitt. Þetta getur auðvitað líka verið sambland af mörgu og öllum þessum þáttum sem þarna liggja að baki. En meginástæðan er þessi: Bankinn bað um þetta sjálfur, hann þarf á þessari endurfjármögnun að halda, hann hefur endurgreitt 750 millj. kr. af þeirri fyrirgreiðslu sem hann fékk á sínum tíma og afkoma bankans hefur ekki verið eins og áætlanir gerðu ráð fyrir út af útlánatöpum sem bankinn hefur orðið fyrir og eru meiri en menn áætluðu.

Hv. þm. Ágúst Einarsson spurði einnig: Hvað líður kröfum ESA um hlutafjárvæðingu, ef ég skildi hv. þm. rétt. Eftirlitsstofnun EFTA gerði ekki kröfu um að ríkisviðskiptabankarnir yrðu gerðir að hlutafélögum. Það er ekki krafa ESA. (ÁE: Það sagði ég ekki.) Þá hef ég misskilið hv. þm. Þá ætla ég að skýra það frekar. ESA gerði athugasemdir við samkeppnisaðstæður ríkisviðskiptabankanna og einkabankans. Þar voru tilgreindar fimm ástæður sem væru þess valdandi að samkeppnisaðstæðurnar væru mismunandi. Stundum hallaði á einkabankann, stundum hallaði á ríkisviðskiptabankann. Hins vegar þegar borið var saman hvernig þetta kæmi út í heild sinni fyrir hvorn banka fyrir sig þá sögðu menn: Hugsanlega kemur þetta út talnalega séð á núlli. En aðstæðurnar eru hins vegar þannig að það er nauðsynlegt að gera þarna breytingar. ESA var svarað um síðustu áramót. Ég er ekki með það bréf hjá mér og ég man ekki nákvæmlega dagsetningar í þeim efnum en ESA var svarað að þegar búið væri að breyta ríkisviðskiptabönkunum yfir í hlutafélag væri búið að jafna þær samkeppnisaðstæður sem þyrfti að jafna að kröfu ESA. Í þessu bréfi var sagt að á vorþingi yrði frv. um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna lagt fram. Áform ríkisstjórnarinnar voru um að það skyldi gert af ástæðum sem ég ætla ekki að rekja hér en menn vita að sú ákvörðun hefur verið tekin að það skuli ekki gert fyrr en á haustþingi. Í bréfi ESA var líka sagt að formbreytingin ætti að taka gildi um næstu áramót. Þau áform eru algjörlega óbreytt af hálfu ríkisstjórnar að formbreyting bankanna geti tekið gildi um næstu áramót. Sú vinna hefur verið í gangi í nokkuð langan tíma innan bankanna, hjá bankastjórunum, hjá starfsfólki bankanna, hjá bankaráðunum. Báðir ríkisviðskiptabankarnir hafa skilað skýrslu til viðskrh. um þá vinnu sem þar hefur farið fram. Ég tel að það sé nokkuð góð samstaða um þessa formbreytingu. Sérstök nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar hefur unnið að þessu til að samræma það sem þarna hefur verið í undirbúningi hjá báðum bönkunum og þessi mál eru mjög langt komin. En ég tel ekki rétt að leggja fram hér í þinginu, og það er samdóma álit ríkisstjórnarinnar, frv. um formbreytingu ríkisviðskiptabankanna núna bæði þar sem svo stutt er eftir af þingi og svo það að biðlaunarétturinn þarf að vera alveg skýr þegar gengið verður frá því að ríkisviðskiptabankarnir verði gerðir að hlutafélögum.

Af því að hv. þm. spurði hvort stuðningur væri fyrir því í þingflokkunum að þessi formbreyting skyldi gerð get ég fullvissað hv. þm. um að stuðningur er fyrir þessari formbreytingu í báðum stjórnarflokkunum og það er stefna ríkisstjórnarinnar eins og kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingunni að þessi formbreyting skuli eiga sér stað.

[25:45]

Þriðja spurning frá hv. þm. sneri að því hvernig ætti að bæta rekstur Landsbankans. Það er ljóst að þær aðgerðir sem gripið var til 1993 hafa tryggt að rekstrarkostnaður bankans er samkvæmt þessari áætlun. Hins vegar eru útlánatöpin meiri. Nú sér fyrir endann á því. Ég býst fastlega við að það hafi komið fram hjá fulltrúum bankans sem mættu í hv. efh.- og viðskn. að það dragi núna verulega úr þörf fyrir að leggja til hliðar á afskriftareikning í bankanum. Það standa vonir því til þess að þarna sé heldur að ganga á réttan veg og hagur bankans muni þess vegna batna verulega á næstunni. En ég ítreka það að eftir sem áður verður fylgst með bankanum eins og gert hefur verið fram undir þetta.

Fjórða spurning hv. þm. Ágústs Einarssonar var þessi: Kemur til greina að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann eins og fram kom hjá formanni bankastjórnar Landsbankans á ársfundi bankans? Ég tel að það sé ekki komið að því að það þurfi að svara þeirri spurningu og ástæðan er mjög einföld. Það stendur fyrir dyrum hjá ríkisstjórninni að breyta báðum þessum bönkum í hlutafélög. Þegar búið er að því þá hef ég sagt að ég telji eðlilegt að þá verði eiginfjárstaða þeirra styrkt með því að nýjum aðilum verði gefinn kostur á að eignast hlutafé í bönkunum, með því að kaupa nýtt hlutafé og styrkja þannig eiginfjárstöðu bankanna, en ekki að selja eignir ríkisins vegna þess að þá er bara verið að skipta um eigendur að þeim eignum sem fyrir eru en með því er ekki verið að styrkja eiginfjárstöðu bankanna.

Það kann vel að vera rétt að sameining bankanna geti sparað einhverja peninga og þá er það fyrst og fremst í meiri hagræðingu í útibúaneti bankanna. Þá þarf ekki að sameina til að ná slíkri hagræðingu. Ef menn sjá þar sparnaðarmöguleika í rekstri þá er auðvitað samkomulagið frá 1993 algjörlega opið í því að bankarnir, ríkisbankarnir báðir, þrátt fyrir að ekki sé búið að formbreyta þeim, fari að vinna að því að ná fram aukinni hagræðingu í útibúanetinu og til þess verks geta menn einfaldlega gengið án þess að nauðsynlegt sé að sameina bankana. Ég tel það vera ranga leið í þeirri stöðu sem við erum núna og í þeirri stöðu á þeirri leið sem við ætlum að fikra okkur inn á að breyta hvorum banka fyrir sig þó á sama tíma í hlutafélag. Því miður er það oft svo, og það þekkja menn frá þessari umræðu, að það hafa verið uppi hjá mörgum ríkisstjórnum í nokkurn tíma áform um það og ekki síst í tíð síðustu ríkisstjórnar að breyta bönkunum yfir í hlutafélög. En hver var niðurstaðan? Niðurstaðan var sú að það tókst ekki. Og hvers vegna ekki? Ég held að meginástæðan þegar sagan er skoðuð hafi verið sú að menn voru með alls konar hugmyndir uppi og voru ekki nógu einarðir í því að ætla fyrst að taka fyrsta skrefið sem er formbreytingin og ákveða síðan hver eigi að vera næstu skrefin en ekki taka öll skrefin áður en menn fara af stað þannig að það verði aldrei annað en hugarflug og hugmyndir sem komast á blað um hvað megi gera en ekkert verði úr.