Framhaldsskólar

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 17:40:58 (5635)

1996-05-03 17:40:58# 120. lþ. 130.6 fundur 94. mál: #A framhaldsskólar# (heildarlög) frv. 80/1996, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[17:40]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Mér var nú nokkuð brugðið þegar hæstv. menntmrh. lýsti því yfir að nú ætti Þroskaþjálfaskólinn að fara inn í Sjómannaskólann vegna þess að hann væri hluti af uppeldisháskóla. Það hefur verið talað um að skólinn sé illa nýttur og kann svo að vera um stundarsakir. Það sem við hins vegar stöndum frammi fyrir og er athyglisvert þegar litið er yfir menntakerfið er að Sjómannaskólinn er undir menntmrn., Bændaskólinn undir landbrn. og Flugskólinn undir samgrn. Ég spyr: Hvers vegna eru þessir skólar ekki undir menntmrn.? Hvers vegna ættu þeir ekki að vera þar?

Í annan stað vildi ég segja að þeir alþjóðasamningar sem við erum aðilar að gera sífellt kröfur um aukna menntun sjómanna hvort sem þeir eru stýrimenn, vélstjórar eða hásetar. Ég tel að það sé mjög misráðið að taka pláss af sjómannaskólanum með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Það er annað líka sem kannski er umhugsunarefni fyrir ráðherrana en það er björgunarskólinn. Hann er nú staðsettur um borð í skipi, áður varðskipið Þór, sem er orðið úrelt og svo úr sér gengið að því verður að loka nánast. Og að ætla að fara að eyða fé úr ríkissjóði til að kaupa nýtt skip til að nota við sjómannafræðslu eða öryggisfræðslu tel ég vera misráðið. Það ætti að flytja Björgunarskólann upp í Sjómannaskóla. Þar ætti sú kennsla að fara fram vegna þess að það er engin nauðsyn á því að Slysavarnaskóli sjómanna sé endilega á floti. Þegar að þeim þáttum verkkennslunnar kemur er lúta að björgun úr sjó er það minnsta mál að fara með nemendur niður að höfn eða um borð í skip.

Annað vildi ég líka benda á. Það er ekki réttlætanlegt að vera með svo marga sjómannaskóla sem raun ber vitni vegna þess að það dregur úr menntunarmöguleikum sjómannastéttarinnar. Tækjakosturinn um borð í skipunum er orðinn það dýr. Það þarf að hafa dýr og mikil tæki til að kenna nemendum fræðin og því er misráðið að dreifa þessum kostnaði. Það á að byggja Sjómannaskólann í Reykjavík upp með góðum tækjum því þá fáum við góða og marga nemendur og það er það sem við þurfum.