Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:37:10 (5656)

1996-05-06 15:37:10# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), SvG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:37]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Erindi mitt er að spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort hann ætli ekki að endurskoða þá ákvörðun sína að neita borgaryfirvöldum í Reykjavík um umhverfismat vegna stækkunar fiskmjölsverksmiðju í Örfirisey, stækkunar úr 120 tonna framleiðslu á dag upp í 520 tonna framleiðslu á dag. Hér er í raun og veru um nýja verksmiðju að ræða, allt aðra starfsemi en verið hefur. Þess vegna hefur það verið skoðun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur að það væri óhjákvæmilegt að á þessu máli væri sérstaklega tekið. En því neitaði hæstv. umhvrh. með bréfi sem hann sendi borgaryfirvöldum fyrir nokkru, þar sem hann hafnaði óskinni og taldi ekki ástæðu til að verða við henni. Þetta bréf hæstv. umhvrh. var dagsett 17. apríl sl. og þar svaraði hann bókun heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 22. mars, en þar var óskað eftir því við umhvrh. að hann, bein tilvitnun, með leyfi forseta: ,,... hlutaðist til um að fram færi umhverfismat samkvæmt lögum nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum vegna umsóknar fiskmjölsverksmiðjunnar Faxamjöls um breytingu á starfsemi fyrirtækisins.`` Breytingin er, eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, að gert er ráð fyrir því að auka afköst verksmiðjunnar úr 120 tonnum á sólarhring í 520 tonn á sólarhring eða um 400 tonn á sólahring þannig að hér er eiginlega um nýja verksmiðju að ræða. Í lok bréfsins frá 17. apríl sagði hæstv. umhvrn. m.a., með leyfi forseta:

,,Með vísun til ofanritaðs getur ráðuneytið ekki fallist á að beita 6. gr. laga nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, þar sem ekki verður séð að breytingarnar eða aukningin hafi í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúruauðlindir og samfélag. Verður tekið á málum í samræmi við mengunarvarnareglugerð og ákvæði um varnir gegn lyktarmengun sett í starfsleyfi fyrir verksmiðjuna eins og vera ber.`` Undir þetta ritar Guðmundur Bjarnason umhvrh.

Tilefni þessarar óskar borgarinnar var að stofnun sem heyrir undir umhvrn., þ.e. Hollustuvernd ríkisins, hafði lýst því yfir að það væri ekki hægt að taka á þessu máli nema að efna til frekari rannsókna. En í bréfi frá Hollustuvernd ríkisins sem er dagsett 14. mars sl. segir svo, með leyfi forseta:

,,Fram kemur að reynsla af fiskmjölsverksmiðju með lykteyðingarbúnað af svipuðum gæðum og fyrirhugað er að nota í Örfirisey er mjög misjöfn. Ekki er því hægt að draga einhlítar ályktanir af reynslu af þessum búnaði hérlendis. Ekki er hægt að fullyrða án frekari rannsókna sem t.d. geta falist í mati á umhverfisáhrifum, hversu hætta á lyktarmengun eykst við stækkun verksmiðjunnar.``

Sem sagt, stofnun sem heyrir undir umhvrn. segir: ,,Það verður að rannsaka málið betur.`` Þá segir heilbrigðisnefnd Reykjavíkur og heilbrigðiseftirlit: ,,Rannsökum málið betur.`` Hún fer fram á það að málið verði sett í umhverfismat sem er á vegum umhvrn. og skipulagsstjóra ríkisins. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir eindregin tilmæli yfirvalda í Reykjavík sem fara með þetta mál, þá kýs hæstv. ráðherra að hafna þessum óskum. Ég hlýt að átelja þessi vinnubrögð ráðuneytisins og vísa á bug lokaorðum bréfs hæstv. ráðherra, þar sem segir að breytingarnar eða aukningin hafi ekki í för með sér umtalsverð áhrif á umhverfi, náttúru, auðlindir og samfélag. Ég tel að í þessari túlkun umhvrn. felist þau viðhorf að mannlíf í þéttbýli flokkist ekki undir þessi ákvæði laganna um umhverfismat. Ég vísa þeirri afstöðu algerlega á bug. Ég tel að mannlíf í þéttbýli sé líka hluti af náttúruauðlindum, samfélagi og umhverfi og þess vegna sé fullkomlega út í hött að hæstv. umhvrh., hæstv. ríkisstjórn, skuli hafna þessari eðlilegu og sanngjörnu ósk borgaryfirvalda í Reykjavík. Ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hann afturkalla neitun sína og fallast á beiðni borgaryfirvalda?