Umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey

Mánudaginn 06. maí 1996, kl. 15:52:16 (5660)

1996-05-06 15:52:16# 120. lþ. 131.93 fundur 285#B umhverfismat fyrir fiskmjölsverksmiðjuna í Örfirisey# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 131. fundur

[15:52]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það hefði sannarlega komið til greina að skylda starfsemi eins og fiskmjölsbræðslu til að falla undir umhverfismat þegar lögin voru sett. Það má raunar flokka það undir viss mistök af hálfu þeirra sem um fjölluðu og þar á meðal umhverfisnefndar þingsins, sem ég átti þá sæti í, að gera það ekki. En það ásamt fleiri framkvæmdum sem til umræðu voru þá átti að mati nefndarinnar að falla undir umhverfismat, eða að það væri eðlilegt. En svörin voru þá að vísa í greinar þar sem hæstv. ráðherra hefur heimildir til þess að fella viðkomandi framkvæmdir undir slíkt mat. Menn hljóta að sjálfsögðu að spyrja sig: Hvað kemur ráðherra til að neita beiðni um mat á umhverfisáhrifum þessarar starfsemi? Hvað liggur þar að baki þegar beðið er um það? Það er vísað á að byggðar hafi verið upp aðrar verksmiðjur. En lágu þar fyrir skýrar beiðnir um mat á umhverfisáhrifum frá viðkomandi sveitarfélagi eins og hér er um að ræða?

Ég vek athygli á skýringum við 7. gr. frv. á sínum tíma, þar sem beinlínis er vísað til 7. gr. í því frv. sem opnar fyrir það að haldið sé á málum út frá íslenskum aðstæðum en ekki verið að fylgja viðaukanum úr viðkomandi reglugerð Evrópusambandsins. Mér finnst það ekki réttmætt að hæstv. ráðherra skuli beita valdi sínu á þennan hátt. Það er tortryggilegt. Og hvaða munur er á því að reisa verksmiðju af þessum toga eða ýmsa aðra starfsemi sem kveðið er á um í 5. gr. núverandi laga? Menn geta velt því fyrir sér. Allar vegaframkvæmdir í landinu falla t.d. undir hana þannig að mér finnst að hæstv. ráðherra hafi ekki haldið rétt á þessu máli.