Starfshættir í umhverfisnefnd

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:45:34 (5707)

1996-05-07 13:45:34# 120. lþ. 132.92 fundur 294#B starfshættir í umhverfisnefnd# (aths. um störf þingsins), ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:45]

Ólafur Örn Haraldsson:

Virðulegi forseti. Ég vil að sumu leyti endurtaka þau orð sem hér komu fram og bæta nokkrum atriðum við. Það er rétt að samstarf í umhvn. hefur verið mjög gott og ánægjulegt. Menn hafa lagt sig þar fram, bæði stjórn og stjórnarandstaða. Það er ljóst að innan nefndarinnar er fólk sem hefur mikla þekkingu og vill umhverfismálum og lagasetningu um þau allt hið besta. Það er hins vegar ekki hægt að sitja undir því að vera beittur röngum ásökunum eins og hér var gert. Það var boðið upp á aukafund í framhaldi af síðasta fundi. Sá fundur fór algerlega í það að fjalla um frv. efnislega. Þar lagði meiri hlutinn fram efnislegar tillögur. Það var óskað eftir þeim svipuðum frá minni hlutanum. Minnihlutafólk lagði fram sitt mál, þetta var rætt og sömuleiðis var þetta rætt í morgun. Það er því rangt að við þessu hafi ekki verið orðið. Engum hefur verið varnað máls, allir hafa komið fyrir nefndina sem þess hafa óskað eða við höfum boðið þangað. Auk þess hafa farið fram ítarleg samtöl utan nefndarfunda þar sem ég hef leitast við að ná samkomulagi í nefndinni um ákveðin atriði. Í þeim samtölum og ekki síður á nefndarfundunum hefur komið í ljós að það er ágreiningur í grundvallaratriðum um stjórnsýsluþátt frv. og þegar það var ljóst var vitað að ekki þýddi að reyna að ná saman nema það tækist í þeirri úrslitatilraun sem ég gerði í morgun þegar ég óskaði eftir því að fá að vita hverjir væru tilbúnir til að standa að því áliti sem lagt var þar fram. Ég veit að við munum eiga ánægjulegt samstarf áfram í umhvn. en ítreka að með engum hætti var brotið á einstaklingum né nefndarmönnum og þingleg meðferð var öll eins og best getur verið þó svo að við höfum fullnýtt þann tíma sem til ráðstöfunar var núna undir lokin.