Kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 13:56:20 (5713)

1996-05-07 13:56:20# 120. lþ. 132.91 fundur 293#B kaupin á Íslenska menntanetinu ehf.# (umræður utan dagskrár), SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[13:56]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þann 23. apríl sl. barst fréttatilkynning frá menntmrn. þar sem kynnt var að ráðuneytið hefði keypt sig inn í Íslenska menntanetið, eignarhaldsfélag, sem er eitt af, að ég held, sex hlutafélögum og eignarhaldsfélögum sem starfa á almennum markaði og í einkaeign að því að selja aðgang að Internet-kerfinu. Þessi kaup bar mjög brátt að, m.a. svo brátt að mér er kunnugt um að rektor Kennaraháskóla Íslands heyrði fyrst um þessi kaup í útvarpsfréttum. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaða nauðsyn bar til að kaupa með þessum hætti eitt af þeim sex félögum í einkaeigu sem stunda sambærilega þjónustu við neytendur? Eitt af þessum sex félögum er t.d. Miðgarður hf. og ég veit ekki betur en að það selji hæstv. menntmrh. þjónustu sína.

Í öðru lagi langar mig til þess að spyrja hæstv. menntmrh.: Hvaða skilaboð er hér verið að senda til aðila sem eru í samkeppni? Ef svo kynni að hafa farið að Íslenska menntanetið hf., sem var í greiðslustöðvun, hefði ekki getað haldið áfram er ég alveg sannfærður um að það hefði mátt semja við önnur þjónustufyrirtæki einnig í einkaeigu um að veita sambærilega eða sams konar þjónustu og menntanetið hefur veitt. Hvaða skilaboð telur hæstv. menntmrh. að sé verið að senda öðrum einkavæddum fyrirtækjum með því að ríkið leysi til sín eignir í Íslenska menntanetinu ehf. með þessum hætti?

Í þriðja lagi langar mig til þess að vekja athygli á því að hér er um mikla fjárfestingu að ræða. Það eru greidd fyrir þessi kaup af hálfu ríkisins 21 millj. kr. Mér er kunnugt um að það er álitið af sérfræðingum að tölvueign og önnur áþreifanleg eign í Íslenska menntanetinu ehf. hafi numið um það bil 9,5 millj. kr. Þarna er því verið að kaupa eitthvað annað svo sem eins og viðskiptavild og hugbúnað. Ég vildi gjarnan fá að vita eitthvað um hvað verið er að kaupa og hvernig það er verðlagt með vísun til þess að ekki er langt síðan mjög voru gagnrýnd hér á Alþingi kaup hæstv. þáv. fjmrh. Ólafs Ragnars Grímssonar á útgáfufélaginu Svart á hvítu þar sem m.a. var verið að kaupa óáþreifanleg verðmæti fyrir allháa fjárhæð. Ég vil gjarnan fá að vita frá hæstv. ráðherra hvað verið er að kaupa og hvað verið er að greiða fyrir hvern þátt í rekstrinum fyrir sig.

Í fjórða lagi langar mig til að benda á að það er engin heimild fyrir þessum kaupum. Alþingi hefur ekki veitt heimild fyrir þessum kaupum í fjárlögum og fjárln. fékk ekki að vita af þessum kaupum fyrr en með bréfi til formanns fjárln. sem dags. er 26. apríl 1996 eða þremur dögum eftir að kaupin höfðu átt sér stað. Það var ekki einu sinni haft samráð við fjárln. um þessi miklu kaup. Hæstv. menntmrh. er þarna að skuldbinda ríkissjóð fyrir hárri fjárhæð, 21 millj. kr., án lagaheimilda og án samráðs við hv. fjárln. fyrr en eftir að kaupin fóru fram. Ég vil aðeins í þessu sambandi minna á að fyrir Alþingi liggur nú frv. sem hæstv. fjmrh. flutti um fjárreiður ríkissjóðs. Það bíður nú samþykktar á Alþingi eftir meðhöndlun í sérstakri nefnd. Ef það frv. væri orðið að lögum hefði hæstv. menntmrh. verið óheimilt að ganga þannig til verks. Það er vissulega gagnrýnivert að hæstv. fjmrh. skuli leggja fram frv. af því tagi sem lýsir slíkri stefnu sem það frv. lýsir um takmörkun á heimildum ráðherra til að skuldbinda ríkissjóð og almenna skattborgara, en á sama tíma skuli sami ráðherra eiga hlut að því að svo háum fjárhæðum sé varið úr ríkissjóði án formlegra heimilda.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að fá upplýsingar um þessi mál frá hæstv. menntmrh. Ég er ekki að gagnrýna hans gerð eða gagnrýna starfsemi Íslenska menntanetsins. Ég tel það nauðsynlegt að við fáum upplýst hvaða gerningar hafa farið fram, í hverra umboði, hvað hefur verið keypt og hvernig hæstv. ráðherra ætlar að tryggja sér heimild fjárveitingavaldsins fyrir þeim ráðstöfunum á fé almennings sem hann hefur gert með undirskrift sinni.