Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:18:44 (5735)

1996-05-07 15:18:44# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:18]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aðeins eitt atriði í brtt. meiri hlutans sem ég vil gjarnan biðja hv. formann efh.- og viðskn. um skýringar á hér í andsvari. Að öðru leyti mun ég koma með álit mitt á þessu frv. fram í ræðu. Það hefur vakið mjög mikla úlfúð innan háskóla landsins að gera alla forsetaskipaða prófessora að embættismönnum samkvæmt frv. en ekki aðra háskólakennara. Þar með stóð til að eyðileggja framgangskerfi háskólakennara, samanber tillögu um slíkt í fylgifrumvarpi með þessu frv. Nú er orðið ,,forsetaskipaður`` farið út úr 10. tölul. 22. gr. skv. brtt. meiri hlutans og því vil ég spyrja hvort það þýði að allir skipaðir háskólakennarar, prófessorar, dósentar og lektorar teljist embættismenn og þess vegna geti framgangskerfið áfram verið til eða hvað? Merking löggjafans þarf að vera alveg skýr því framgangskerfið er meginhvatinn til aukinna afkasta í rannsóknum háskólakennara. Og ég vil meina að framgangskerfið sé ein forsenda þess að ungir vísindamenn fást til starfa við háskóla landsins. Þetta þarf að vera alveg skýrt til þess að háskólarnir geti gert viðeigandi ráðstafanir og komið með viðeigandi viðbrögð.