Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:21:48 (5737)

1996-05-07 15:21:48# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:21]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir áliti minni hluta efh.- og viðskn. en auk mín standa að álitinu hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk þessu áliti.

Herra forseti. Ég sé að hæstv. fjmrh. er ekki hér í salnum. (Fjmrh.: Jú, jú, taktu bara af þér gleraugun þá ferðu að sjá.) Hann er það sjaldan í sæti sínu og sjaldan í þingsölum. Við skulum þá vona að hann verði hér út umræðuna.

Þetta frv. einkennist m.a. af því að það hefur ekkert eðlilegt samráð verið haft við stéttarfélögin við gerð þess. Frv. var unnið á þann hátt að í desember sl. voru send fyrstu drög til stéttarfélaganna og þeim gefnir nokkrir dagar til að gefa álit á því og þá var ljóst hvað var hér í uppsiglingu. Þá fyrst var vitað að ríkisstjórnin stefndi að meiri háttar lagasetningu um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Í febrúar var haft málamyndasamband við stéttarfélögin en ekki gert neitt með það né reynt að skapa þann farveg sem hefði leitt til einhverrar samstöðu varðandi þetta mál. Þrátt fyrir þetta hefur málið borið hér inn í þingsali í formi frv. sem við tökum nú til 2. umr. Þá er eðlilegt, herra forseti, að leitað sé umsagna stéttarfélaganna og annarra aðila sem þessi lög varða. Þessar umsagnir hafa borist. Þessar umsagnir, herra forseti, eru nú tiltækar þingmönnum hér við þessa umræðu. Þessar umsagnir eru það umfangsmiklar að það þurfti að setja teygju á þær, það þurfti að hefta þær í fjóra bunka til að hægt væri að koma þeim í aðgengilegt form. Þetta eru umsagnir frá tugum stéttarfélaga hringinn í kringum landið um þetta frv. ríkisstjórnarinnar og þær eru allar á einn veg. Þessu frv. og þeirri hugsun sem frv. lýsir er hafnað gersamlega. Herra forseti, það er ekkert gert með þessar umsagnir. Það er ekkert gert með þær skoðanir sem stjórnarandstaðan hefur verið að halda fram í þessu máli undanfarnar vikur. Ríkisstjórnin stefnir í stríð. Ég veit ekki hvort henni er það meðvitað að með þessum vinnubrögðum, bæði hvað varðar innihald og form, er verið að stefna í stríð við verkalýðshreyfinguna, við stéttarfélögin í landinu við næstu kjarasamninga. Varnaðarorð eru virt að vettugi en þau hafa oft verið töluð í góðri meiningu af hálfu stjórnarandstæðinga. Þetta gera menn ekki, svona lagasetningu bera menn ekki á borð, menn vinna ekki svona gagnvart starfsmönnum sínum. Það er alveg sama hve mörg varnaðarorð féllu um þetta. Það kom skýrt fram í máli hv. formanns efh.- og viðskn. að ríkisstjórnin ætlar að keyra þetta mál í gegn.

Það eru sett í þessu frv. markmið. Ríkisstjórnin gefur sér ákveðin markmið með þessari lagasetningu. Hún talar í aðalatriðum um sex atriði. Hún segir: Þessi löggjöf á að endurspegla nýja starfsmannastefnu. Þessi löggjöf á að auka valddreifingu. Það á að auka sveigjanleika í starfsmannahaldi. Það á að einfalda launakerfið. Það á að auka og bæta jafnrétti og svo er klykkt út með því að þessi lagasetning eigi að gera ríkið að fyrsta flokks vinnuveitanda.

Þetta eru markmiðin sem ríkisstjórnin lagði upp með. Herra forseti, ég man ekki eftir neinu tilfelli um það að löggjöf uppfylli markmið jafnilla og þessi lagasetning sem við erum að ræða um. Þetta er óvönduð lagasmíð. Það er ekki nóg með það að ekki var gætt neins eðlilegs samráðs við þá aðila sem málið varðar heldur var kastað til höndunum við undirbúning þessa máls. Þetta frv. sem hér er að koma út úr nefnd er slæmt frv. Það er léleg lagasmíð og það verður ekki hægt að vinna eftir því. Frv. er samið einhliða af embættis- og trúnaðarmönnum fjmrn. Vissulega má það vera rétt og ég ætla ekki að bera á móti því að það sé tímabært að endurskoða lög sem eru orðin 40 ára gömul. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að menn hugi að því hvort ekki sé eitthvað í slíkri lagasetningu sem betur má fara. Hér er verið að tala um löggjöf sem snertir 25 þús. starfsmenn ríkisins en launaútgjöld ríkisins eru 36 milljarðar. Þetta snertir á einn eða annan hátt næstum því hverja einustu fjölskyldu í okkar landi. Því er það augljóst að menn þurfa að vanda mjög vel til við lagasetningu sem aftur á að skapa ramma framtíðarinnar. Það er ekki gert í þessu frv. Það er lagt upp með að starfsmönnum ríkisins er skipt í tvo meginflokka en í reynd verður um að ræða a.m.k. fjórar tegundir starfa hjá hinu opinbera, þ.e. eldri starfsmenn með ótímabundna ráðningu, það eru nýir embættismenn án samningsréttar en ráðnir tímabundið til fimm ára, það eru hinir nýju embættismenn. Síðan eru það sérstakir embættismenn sem tengjast öryggisstéttum sem eru með samningsrétt en skertan verkfallsrétt og tímabundna ráðningu og síðan eru það almennir starfsmenn sem er meginhluti opinberra starfsmanna.

Það sem er einna ámælisverðast varðandi þetta frv. er að það skerðir samningsbundinn rétt. Það gengur á kjarasamninga. Það er einhliða aðgerð í krafti þess að þeir sem leggja það fram hafa meiri hluta á Alþingi. Í krafti þess meiri hluta sem er lýðræðislega kosinn er einhliða skertur samningsbundinn réttur. Þetta er óhæfa. Það verður að semja um þá hluti sem getið er um í kjarasamningum. Það er grundvallaratriði varðandi þá hluti sem við erum að ræða um að menn grípa ekki með löggjöf á þennan hátt inn í þætti sem tengjast kjarasamningum.

[15:30]

Samningar eru ekki lausir fyrr en um næstu áramót og það er augsýnilegt að ríkisstjórnin kýs að binda hendur launþega í landinu áður en kemur að næstu kjarasamningum því að það eru fleiri mál sem hanga á þessari sömu spýtu. Það er ekki bara þetta mál um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það er líka hið þekkta frv. um stéttarfélög og vinnudeilur.

Herra forseti. Menn vita líka að það átti að breyta meiru þó svo ýmsu af þeim málum hafi nú verið frestað. Það átti m.a. að skerða lífeyrisrétt líka. Það er augsýnilegt að ríkisstjórnin, sem er að byrja sitt fyrsta ár, telur sig hafa allt það vald og alla þá möguleika og nýtir þá sem kosningarnar á síðasta ári veita henni. Niðurstaða hennar er að hún þurfi ekki að taka á nokkurn hátt tillit til þess umhverfis sem hún starfar í og hún þurfi ekki að taka tillit til þeirra samninga sem ríkisvaldið hefur gert við starfsmenn sína.

Svokölluð æviráðning er m.a. skert í þessu frv. Um 10--12 þúsund manns af starfsmönnum ríkisins eru ekki með gagnkvæman uppsagnarfrest, ýmsir þeirra eru með eldri skipan, forsetaskipan, en mjög margir aðrir með ótímabundna ráðningu. Vafalítið gætu stéttarfélögin hugsað sér að ræða mál sem tengjast ráðningartíma. En þá vilja þau með réttu takast á um það við kjarasamningagerð því að það er staðreynd að menn hafa búið við lægri laun vegna þess starfsöryggis í opinberri þjónustu sem m.a. felst í svokallaðri æviráðningu eða ótímabundnum samningum. Það er ómótmælanlegt að laun í opinberri þjónustu hafa verið lægri en á almennum markaði, m.a. vegna þessa ákvæðis sem hér er verið að afnema. Það hefði vitaskuld átt að koma þá til greina ef menn vildu skoða það sameiginlega að hafa takmarkaðan ráðningartíma eða gagnkvæman uppsagnarfrest að samið væri um hærri laun. En, herra forseti, stéttarfélögunum er ekki gefinn kostur á þessu. Lögunum er breytt núna nokkrum mánuðum fyrir kjarasamningsgerð til að takmarka möguleika þeirra við þá samninga.

Inngripin í kjarasamninga og hinn svokallaði biðlaunaréttur, sem er fólginn í rétti til launa ef starf er lagt niður, eru ómótmælaleg. Þetta er samningsbundið. Þetta er bundið í lögum og deilan hefur hvað mest snúist um þá spurningu að geri ríkisvaldið breytingar á rekstrarformi stofnana sinna, fyrirtækja sinna, breytir þeim t.d. í hlutafélög, þá er því haldið fram af fjmrh. og talsmönnum ríkisstjórnarinnar að það verði að taka þennan rétt af til að fólk sé ekki á því sem þeir kalla á tvöföldum launum ef þeir halda áfram að vinna hjá sama vinnuveitanda. Aðalatriðið í þessu er að þetta er samningsmál. Ef stéttarfélögin kjósa að ræða þessa reglu sem er bundin í lögum gæti vitaskuld komið til álita við samningsgerð ef mönnum sýndist svo að hækka laun ef menn kysu breytingar á þessum málum. En það er ekki gert. Hér er gengið fram með frv. þar sem þessir hlutir eru einhliða teknir af núverandi starfsmönnum ríkisins.

Fleiri mál, sem tengjast réttindum, eru rýrð í þessu frv. Það er til að mynda veikindaréttur og oft hafa menn tekist harkalega á um þann rétt í kjarasamningsgerð en í frv. er gert ráð fyrir að reglugerðin haldi sér en síðan verði samið um þennan rétt. Hins vegar bendir margt til þess að stefnt sé að því að draga úr þessum rétti. Þetta mál, sem tengist veikindarétti, er því sett í mikla óvissu og það sama á við rétt í fæðingarorlofi. Þar er gerður sami hluturinn, þ.e. að þessir hlutir eru færðir þannig að það eigi að semja um þá sérstaklega í kjarasamningum, reglugerðir verði látnar standa óbreyttar um stundarsakir en margt bendir til að stefnt sé að því að rýra þennan rétt.

Í þessu frv. eru sömuleiðis tekin úr sambandi að hluta stjórnsýslulög eða málskotsréttur sem menn hafa. Með þessu er verið að taka stjórnsýslulög úr sambandi að hluta til gagnvart opinberum starfsmönnum. Nú skulum við aðeins átta okkur á því hvers eðlis stjórnsýslulögin eru. Herra forseti. Ég reiknaði með að hæstv. fjmrh. væri vakandi í umræðunni en ég kýs að bíða þar til hann hefur lokið sínu samtali.

(Forseti (GÁS): Forseti gengur út frá því sem vísu að hæstv. ráðherra sé vakandi.)

Stjórnsýslulögin eru fyrst og fremst sett til að tryggja rétt borgaranna. Það að tækifærið skyldi vera notað við þessa lagasetningu þegar menn eru að tala um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að takmarka þennan rétt lýsir e.t.v. betur en margt annað þeirri hugsun og þeirri hugmyndafræði sem býr að baki frv.

Nú er það einnig svo að löggjöf um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, lagabálkurinn sem slíkur, er samningsumgjörð. Hann mótar umgjörð kjarasamninga og hefur gert það mjög lengi. Þannig hefur lagaumgjörðin áhrif á kjarasamninga, hefur áhrif á feril þeirra. Það að breyta einhliða samningsumgerðinni eins og gert er með þessum hætti er siðleysa. Það hefur komið fram í umsögnum fjölmargra stéttarfélaga varðandi málið. Mig langar til að vitna í hluta af ályktun, sem Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sendi efh.- og viðskn. varðandi þetta mál, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Því hefur verið haldið fram að ákvæði laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu ekki hluti af samningsbundnum kjörum ríkisstarfsmanna. Þetta er rangt. Dæmi eru um að einstök ákvæði laganna eigi uppruna sinn í kjarasamningum. Það sem þó skiptir meira máli er að í ráðningarsamningum langflestra ríkisstarfsmanna er svo um samið að um réttindi og skyldur launþegans fari eftir lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna að svo miklu leyti sem öðruvísi er ekki samið um í ráðningarsamningum. Það er því berum orðum svo um samið við langflesta ríkisstarfsmenn að ákvæði laganna eru hluti af ráðningarkjörum þeirra.``

Þessi afstaða sem kemur fram hjá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja er augljós og hún er líka rétt. Hún er lögfræðilega rétt, þ.e. að lögin skapa samningsumgjörð og eru hluti af ráðningarsamningi. Samningsumgjörðinni er breytt einhliða af hálfu ríkisstjórnarinnar með þessu frv.

Það verður líka að hafa í huga að það er beinlínis bannað að skerða áunnin réttindi án þess að bætur komi til. Það eru fjölmörg dæmi um það í löggjöf okkar að menn hafa áunnið sér vissan rétt og það er ekki hægt að taka hann af mönnum nema með því að veita mönnum bætur. Það flokkast undir eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar. Það er athyglisvert í þessu sambandi að rifja upp yfirlýsingu hæstv. forsrh. vegna kennaradeilunnar eða flutnings á grunnskólanum yfir til sveitarfélaganna um áunnin réttindi þar sem kveðið var upp úr um að ekki yrði gengið á áunnin réttindi og að starfsmenn mættu einnig eiga von á því að geta haldið áfram að byggja upp réttindi sem þeir hafi mátt vænta. Engar slíkar yfirlýsingar hafa verið gefnar varðandi þetta frv. og í útfærslu frv. er þessa að gengu getið.

Starfsöryggi hefur verið metið til launa hjá opinberum starfsmönnum og það eru tvö atriði sem einkum hafa verið talin betri, fyrrnefnt atriði um starfsöryggi sem ég nefndi áður varðandi þá sem byggju við ótímabundna kjarasamninga. Hitt tengist lífeyrissjóðsmálum sem ætlunin var líka af hálfu ríkisstjórnarinnar að skerða eins og þingmenn muna eftir. Nú hefur verið hætt við þá lagasetningu í bili, líklega vegna þess að ríkisstjórninni þykir sennilega nóg um vert að reyna að knýja þetta frv. og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur í gegnum þingið í andstöðu við bæði stjórnarandstöðu og öll stéttarfélög í landinu. Grundvallaratriði í þessu sambandi er frjáls samningsréttur sem hefur verið virtur um áratuga skeið en með þessum tveimur frumvörpum er vegið harkalega að þessari grundvallarreglu í stjórnskipun okkar. Þannig er í þessu frv. réttarstaða ýmissa starfsmanna breytt einhliða. Það er tekin samningsréttur af stéttum og þetta er talið brjóta í bága við félagsmálasáttmála Evrópu, samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og skoðanir sérfræðinefndar Evrópuráðsins. Það er nefnilega ekki svo, herra forseti, að hér sé verið að halda fram að frv. brjóti einungis í bága við eðlilega starfshætti og samskiptahætti. Þetta mál er alvarlegra en það.

Frv. brýtur í reynd gegn alþjóðlegum samningum sem við höfum undirritað. Félmn. Alþingis er að fjalla um frv. um stéttarfélög og vinnudeilur en það orkar mjög tvímælis hvort frv. brjóti ekki í bága við alþjóðasamninga. Það kom í ljós eftir að Lagastofnun Háskólans hafði gefið sína fyrstu álitsgerð varðandi það efni að það frv. er í fjölmörgum atriðum í andstöðu við bindandi sáttmála sem Íslendingar hafa gerst aðilar að. En í þessu áliti var líka kveðið á um hvað er alþjóðlegur réttur varðandi samskipti ríkisvalds og launþega. Þannig koma fjölmargar athugasemdir fram í áliti Lagastofnunar sem eiga mjög vel við þetta frv. sem við erum að ræða um hér. Í þessari álitsgerð segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Rétt er þó að taka fram að Alþjóðavinnumálastofnunin í Genf hefur lagt áherslu á mikilvægi reglulegs samráðs stjórnvalda við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja frið í þjóðfélaginu, þar á meðal samráð við undirbúning löggjafar sem snertir þá.``

[15:45]

Hún hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að hafa samráð við undirbúning löggjafar sem snertir þá. Hvernig var þetta uppfyllt af hæstv. ríkisstjórn? Þetta var hunsað gjörsamlega. Síðar í þessari álitsgerð segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þó að réttur einstakra launþega til að stofna stéttarfélög séu mannréttindi hvers launþega og sá réttur verndi ekki þau stéttarfélög sem þegar eru til staðar, er ljóst að bæði stjórnarskrá og alþjóðasáttmálar á þessu sviði gera ráð fyrir því að íhlutun ríkisvalds með lagasetningu um málefni stéttarfélaga sé mjög takmörkuð og hindri ekki lögmæta og eðlilega starfsemi stéttarfélaga. Þá er það einnig mjög mikilvægt hlutverk ríkisvaldsins að stuðla hverju sinni að því að friður ríki á vinnumarkaði án þess þó að grípa inn í starfsemi og baráttu stéttarfélaga.``

Það er augljóst af þessum orðum úr álitsgerð Lagastofnunar Háskóla Íslands sem var fengin til að skoða lögmæti frv. um stéttarfélög og vinnudeilur að þetta sjónarmið sem er aðaláherslan í alþjóðlegum samningum hefur verið þverbrotið við gerð og vinnslu þessa frv.

Allar þessar umsagnir sem ég gat um áðan, þessi stóri bunki sem er svo mikill að við gátum ekki haft hann í öðru formi en hann er hér núna í þingsölum, allar umsagnirnar ganga út á það að hafna frv. Það eru ein eða tvær undantekningar sem ég kem að síðar. Það má segja að afstaða stéttarfélaganna sem þetta mál varðar mestu komi fram í sameiginlegri ályktun Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, BHM og Kennarasambands Íslands, en þau ályktuðu 11. mars sl. Með leyfi hæstv. forseta, hljóðar þessi ályktun svo:

,,Sameiginlegur fundur BSRB, BHMR og KÍ, 18. mars 1996, krefst þess að ríkisstjórnin falli nú þegar frá áformum um að skerða réttindi og kjör opinberra starfsmanna og draga úr samnings- og verkfallsrétti allra launamanna. Einhliða aðgerðir af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eru bein aðför að frjálsum samningsrétti í landinu.

Á undanförnum vikum hafa samtök opinberra starfsmanna í sameiningu staðið fyrir öflugu upplýsingastarfi og fundahöldum um frumvörp ríkisstjórnarinnar um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og sáttastörf í vinnudeilum.

Á fundunum hefur birst órofa samstaða um að hrinda þessari aðför ríkisstjórnarinnar. Þúsundir manna hafa mótmælt framgöngu ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Áfangasigur í baráttu opinberra starfsmanna gegn einhliða skerðingaráformum ríkisstjórnarinnar náðist þegar forsætisráðherra lýsti því yfir að frv. um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins verði ekki keyrt í gegnum þingið að svo stöddu í óþökk þeirra sem málið varðar, og að áunnin réttindi verði ekki skert.

Ríkisstjórnin ætlar eftir sem áður að fá samþykkt frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þrátt fyrir andstöðu opinberra starfsmanna og enn á eftir að koma í ljós hvernig staðið verður að samningum um endurskoðun á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Fundurinn krefst þess að lýðræðislegar leikreglur verði virtar og öll áform ríkisstjórnarinnar um einhliða skerðingu á réttindum og kjörum verði lögð til hliðar. Allt annað er bein aðför að launamönnum sem óhjákvæmilega kallar á átök á vinnumarkaði. En eins og margoft hefur komið fram eru samtökin reiðubúin til að ganga til raunverulegra samninga um þessi atriði.

Fundurinn hvetur öll stéttarfélög og samtök launafólks til að standa þétt saman uns fullur sigur hefur náðst.

Burt með frumvörpin!``

Í þessari ályktun kom fram sameiginleg afstaða opinberra starfsmanna gagnvart þessu frv. Það sem er athyglisvert einnig í þessu er að stéttarfélögin lýsa sig reiðubúin til að ganga til raunverulegra samninga um þessi atriði. Það hefur ekki skort, herra forseti, á samráðsvilja stéttarfélaganna varðandi þennan málaflokk. Hér standa stéttarfélögin öll saman. Þau hafa ekki alltaf staðið saman að málefnum sem snúa að ríkinu, en þau standa saman varðandi afstöðu gagnvart þessum frumvörpum. Og það sem meira er, herra forseti, verkalýðshreyfingin á almennum markaði stendur líka saman. Öll samtök launafólks í landinu hafa sömu skoðun á þessum frumvörpum ríkisstjórnarinnar. Herra forseti, launþegasamtök hér á landi eru ekki alltaf samstiga í afstöðu sinni. Það sem er einnig athyglisvert varðandi þetta mál er að allir stjórnarandstöðuflokkarnir eru sömu skoðunar.

Allir þessir aðilar segja og hafa sagt núna vikum saman: Þessi frumvörp eiga að hverfa út af borðinu. Menn verða að finna þessum efnisatriðum annan farveg. Ef meiri hluti Alþingis og ríkisstjórn kýs að breyta löggjöf um þessi atriði, verður hún að finna samráðsvettvang um þær breytingar. Þannig hefur alltaf verið staðið að breytingum á vinnulöggjöf. Endurskoðun á heildarlöggjöf um þessi mál hefur aldrei verið reynd nema menn kæmu að einu borði og ræddu saman um þetta.

Í þessu frumvarpi eru fjölmörg atriði sem beinlínis vega að rótum stéttarfélaganna hér á landi. Það er athyglisvert að allt þetta gerðist í kringum 1. maí eins og menn muna vel. Þá gaf Alþýðublaðið út hátíðarblað, athyglisvert blað með frásögnum úr fortíðinni og stefnumótun framtíðarinnar. Meðal annars fóru þeir út á göturnar og spurðu fólk eins og oft er gert í blöðum. Þeir spurðu: Hvar er góðærið? Það svöruðu nokkuð margir. Fæstir höfðu orðið mikið varir við góðærið. En það var eitt mjög athyglisvert svar sem kom fram í Alþýðublaðinu 1. maí sl. Þá var Hannes Hólmsteinn Gissurarson stjórnmálafræðingur spurður: Hvar er góðærið? (KÁ: Og ríkisstarfsmaður.) Og hann svarar spurningu blaðsins. Blaðamaðurinn spyr: Hver finnst þér vera staða verkalýðshreyfingarinnar í dag? Svar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar er eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ég er þeirrar skoðunar að verkalýðsfélög geri ekkert gagn til kjarabóta, það er ekkert samhengi greinanlegt milli kjarabóta og kjarabaráttu. Hins vegar geta verkalýðsfélög haft áhrif í þá átt að útvega félagsmönnum sínum margvíslegan afslátt. Þannig að ég sé hlutverk í framtíðinni fyrir verkalýðsfélög sem afsláttarklúbba.`` (Gripið fram í: Er þingmaðurinn á móti þessu?)

Þetta var skoðun Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar sem birtist í Alþýðublaðinu 1. maí. Nú er það ekki svo að Hannes Hólmsteinn Gissurarson sé maður úti í bæ, ríkisstarfsmaður að vísu. (Gripið fram í: Sem betur fer er hann maður úti í bæ.) Þetta er sá maður sem stendur fyrir ákveðna hugmyndafræði. Þessi setning lýsir hugmyndafræði sem á sér rætur og formælendur innan eins stjórnmálaflokks, innan Sjálfstfl. Hann hefur sjálfur oft sagst vera ráðgjafi hæstv. forsrh. Ég ætla ekkert að dæma um það. Mér er sama hvar hæstv. forsrh. leitar ráðgjafar. En hér birtist stefna sem að hluta til endurspeglast í þessu frv. Það er alveg ljóst hvað þessir menn vilja gera með frv. Þeir vilja brjóta niður skipulagt starf verkalýðshreyfingarinnar. Þetta hefur verið gert víða, oft með átökum, oft með blóðugum átökum. Þessi stjórnarstefna hefur verið reynd víða um heim en hún birtist ósköp blygðunarlaust í Alþýðublaðinu á degi verkalýðsins; ,,... þannig að ég sé hlutverk í framtíðinni fyrir verkalýðsfélög sem afsláttarklúbba.`` Þetta eru skilaboðin. Þetta er hugsunin sem bærist í huga þeirra manna sem leggja fram þessi frumvörp og stefna í átök við skipulagða launþegahreyfingu.

Menn segja: Hvað er að marka þetta. Það er ekkert um þetta í frv. En það er nefnilega ýmislegt í þessu frv. þar sem vegið er að rótum stéttarfélaganna í landinu.

Í 47. gr. frv. segir að kjósi starfsmaður að standa utan stéttarfélaga, þá skuli hann njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Það segir í lögunum að starfsmaðurinn þurfi ekki að greiða gjald til stéttarfélags eins og verið hefur og kveðið er á um í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í þessari lagagrein segir einnig að fjármálaráðherra skuli ákveða laun og launakjör þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga ef starfið sem hlutaðeigandi gegnir fellur ekki innan samningssviðs einhvers ákveðins félags.

Með þessu ákvæði er verið að opna möguleikann á því að starfsmenn geti staðið utan stéttarfélaga sem þeir hafa rétt til og tekið mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags. En þeir taka þá mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags án þess að taka nokkurn fjárhagslegan þátt í gerð kjarasamningsins. Einstaklingar geta því samkvæmt þessu byggt á sjálfstæðum launasamningi við vinnuveitanda. Hér er náttúrlega stefna á ferðinni. Hér er verið að fara inn á þá braut að samningsgerðin verði gerð á einstaklingsbundnum grunni án aðildar stéttarfélaga. Þetta er gróft brot á því fyrirkomulagi sem hefur verið um áratuga skeið, þ.e. að samningsrétturinn við kjarasamningsgerð gegnum stéttarfélögin hefur verið tryggður ótvírætt. Hérna er verið að opna möguleikana á því að brjóta niður stéttarfélögin sem þann aðila sem fer með kjarasamninga. En í 7. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem eru sérlög, önnur löggjöf, er kveðið á um starfsmenn utan stéttarfélaga. Ef þessar greinar eru hins vegar lesnar saman, 47. gr. í þessu frv. og 7. gr. í lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er augljóst að þarna skapast réttaróvissa og að það er vegið mjög harkalega að rótum félagafrelsis og stéttarfélaga. En það má einnig benda á að þetta félagafrelsi er tryggt í stjórnarskrá okkar.

Við megum ekki gleyma því að við búum við ákveðið form hér á vinnumarkaði. Við búum við það form að stéttarfélögin fara með samninga og samningsgerðin hvílir á þeim gagnvart vinnuveitandanum. Sú stefna að breyta því einhliða af hálfu ríkisvaldsins hefur ekki komið fram fyrr en núna. Það sem ég segi um óvissu varðandi stéttarfélögin og starf þeirra byggir m.a. á áliti Gests Jónssonar lögfræðings, hæstaréttarlögmanns, sem er lögmaður BSRB en jafnframt einn virtasti lögmaður hérlendis á þessu sviði. Hér er því ekki verið að fara með neitt fleipur. Hér eru alvarlegir hlutir á ferðinni.

[16:00]

Það má segja að gagnrýnin á þetta frv. sé þríþætt. Það er brotið gegn eðlilegu samráði við undirbúning við lagasmíð. Þetta er formið. Það er brotið gegn eðlilegu samráði þegar menn eru að undirbúa löggjöf. Það er gripið einhliða inn í kjarasamninga með tilteknum ákvæðum í þessu frv. og það er vegið að rótum skipulags stéttarfélaga á opinberum markaði með þessu frv. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn skuli ekki átta sig á því í hvers konar óefni þeir stefna málunum með þessari lagasetningu. Ég minni á að það hefur áður gerst að ríkið greip inn í almenna kjarasamninga með löggjöf. Það gerðist 1989 þegar ríkisvaldið greip inn í kjarasamninga á opinberum markaði og nam úr gildi kjarasamninga sem höfðu verið gerðir. Þá var brotinn niður með einni aðgerð allur trúnaður og samstarf milli stéttarfélaga og ríkisvalds til mjög margra ára eins og menn minnast. Þetta hafði mjög mikil áhrif á samskipti launþega og ríkisvalds á opinberum markaði. Það eru sex eða sjö ár síðan þetta gerðist. Eitthvað hefur verið byrjað að gróa yfir sárin sem lagasetningin hafði í för með sér. Með lagasetningunni er rifið ofan af öllu þessu sári sem er þó ekki nema nokkurra ára gamalt með þessari fruntalegu framkomu og einhliða gerningi. Það er átakanlegt ef menn geta ekkert lært af sögunni. Reka sig á aftur og aftur og búa til þá stöðu að stríð verði á milli ríkisvaldsins og starfsmanna þess. Þetta frv., herra forseti, stefnir beint í þá átt.

Í þessu frv. eru ýmis atriði sem brjóta á starfsmönnum þó með misjöfnum hætti sé. Stjórnsýslulög eru að hluta til tekin úr sambandi, þ.e. réttur til að tala máli sínu og það er vitaskuld ósvinna að gera löggjöfina þannig úr garði eins og hér er gert. Einnig má geta þess að frv. kveður á um að starfsmönnum sé skylt að vinna yfirvinnu. Það eru hins vegar engin ákvæði um slíkt á almenna markaðnum. Það má ekki gleyma því að frumvarpshöfundar vitna oft og tíðum í almenna markaðinn sem fyrirmynd sína. Hins vegar eru mjög mörg atriði í frv. gjörólík því sem gerist á almennum markaði. Það má nefna þetta ákvæði sem ég nefndi um skyldu til yfirvinnu, það er skylda við uppsagnir við langvarandi veikindi, það er framlenging á uppsagnarfresti og það er ekkert virkt eftirlit eða stjórnir að baki forstöðumanna auk ýmissa annarra atriða. Í ýmsum grundvallaratriðum víkur þessi löggjöf frá því sem almennt er á hinum hefðbundna vinnumarkaði hérlendis. Varðandi þá skyldu að vinna yfirvinnu sem er sérstök fyrir starfsmenn ríkisins er um að ræða íþyngjandi ákvæði og það hefur reyndar verið í lögum áður. Ef menn telja rétt að festa það með þessum hætti eins og gert er við heildarendurskoðun laganna, loksins þegar menn taka lögin upp í heild sinni, á vitaskuld að gefa starfsmönnum tækifæri á að taka þau mál upp í kjarasamningum. Ef menn telja rétt að það eigi að hafa slík íþyngjandi ákvæði eins og skyldu að vinna yfirvinnu á það að endurspeglast í hærri launum. Það er ámælisvert að í frv. er kveðið á um að verði um langvarandi veikindi starfsmanna að ræða sé skylt að leysa hann frá störfum. Það er sett í lagatextann að séu menn svo óheppnir að vera veikir til lengri tíma og vera í þjónustu ríkisins þá skulu þeir reknir. Þetta eru skilaboð hins fyrsta flokks vinnuveitanda. Ég held að þau gerist varla skýrari.

Í frv. er einnig kveðið á um að framlengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef margir biðja um lausn samtímis. Sambærilegt ákvæði var í löggjöfinni áður. Þetta þekkist ekki á almennum vinnumarkaði. Menn geta þar sagt upp hvort sem þeir gera það margir eða fáir og vinnuveitandinn verður bara að glíma við þann vanda sem kemur í kjölfar slíks. En hér er sett í lög vald til þess að framlengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef margir leita lausnar samtímis. Ríkisvaldið hefur oft notað þessa heimild, nú síðast gagnvart heilsugæslulæknum sem standa í deilu við ríkisvaldið og sögðu upp en ákveðið var að fresta uppsögn þeirra um þrjá mánuði. Þetta ákvæði þekkist ekki á almennum markaði.

Nú skulum við segja að það geti verið nauðsynlegt að vera með einhver slík ákvæði vegna sérstöðu ýmissa starfa hjá ríkinu. Það gæti vel verið. En þá eiga menn að ræða það og takast á um það við gerð kjarasamninga. Fyrir slík íþyngjandi ákvæði og skyldur er ósköp eðlilegt að á móti komi hærri laun til þeirra starfsmanna sem þetta á við um. Það er enginn kostur gefinn á slíku við þetta frv. Það er heldur ekkert virkt eftirlit með forstöðumönnum ríkisins, engar stjórnir á bak við þá í langflestum tilfellum. En ég mun koma að valdi forstöðumanna síðar í ræðu minni.

Fjölmörg önnur atriði orka tvímælis. Til að mynda er ekkert tekið á kjarasamningsferli hjá ríkinu. Nú er vitað, herra forseti, að kjarasamningar á vegum hins opinbera fara þannig fram að það er ein miðstýrð nefnd fjmrn. sem gerir alla kjarasamninga við opinbera starfsmenn. Það er samninganefnd ríkisins. Það er engin tilraun gerð í þessu frv. til að reyna að brjóta þessa miðstýringu á bak aftur þrátt fyrir að flestir séu sammála um að þetta form samningsgerðar hafi gengið sér til húðar fyrir nokkru. En það er engin tilraun gerð til sjálfstæðrar hugsunar í þessu frv. til að reyna að finna þessum málum annan farveg. Það er líka mat mjög margra sem sendu inn umsagnir til hv. efh.- og viðskn., að launakerfið væri gagnrýnisvert og ekki fundinn farvegur til að stokka það upp. Gagnrýnisatriðin sem hafa verið nefnd eru t.d. að launakerfið þykir ógagnsætt, greiðslur fyrir óunna yfirvinnu eru býsna algengar og menn hafa ekki yfirsýn yfir þær. Það vantar hvata inn í kerfið, það tekur ekki mið af ólíkum aðstæðum innan ríkiskerfisins, mælir ekki mismunandi álag, er flókið og miðstýrt og svifaseint samningaferli, erfitt að leiðrétta rangfærslur og það hefur litla aðlögunarhæfni. Ekkert er tekið á þessum þáttum eða fundinn farvegur til endurskipulagningar á þessum þáttum í frv. Það eina sem mönnum datt í hug var að fela forstöðumönnum vald til yfirborgana eftir óljósum reglum.

Það eru þó mörg stefnuatriði sem koma fram í frv., m.a. að það eykur vald ríkisins sem vinnuveitanda. Þegar frv. er skoðað er vald ríkisins sem vinnuveitanda orðið mikið miðað við vald vinnuveitanda á almennum markaði. Eins og hv. þm. þekkja bærilega þá þykir vald vinnuveitenda á almennum markaði vera býsna mikið. Frv. felur í sér lélegri ráðningarfestu en verið hefur og ekki er settur upp neinn farvegur ef deila skapast milli starfsmanna og forstöðumanna. Frv. gengur út á að geðþóttavaldi forstöðumanna er gefið gott rúm í stjórnsýslu ríkisins.

Frv. gengur á réttindi starfsmanna og það gengur á réttindi þeirra eða möguleika á að hafa áhrif á starfsumhverfi sitt. Þetta er siðlaus lagasetning og hún er í andstöðu við nútímastjórnunarhætti miðað við hvernig fyrirtækjarekstur og opinber stjórnsýsla hefur verið að þróast í nágrannalöndunum. Það er ekki svo að það sé verið að búa einhverri skynsamlegri framtíðarstefnu farveg í þessu frv. Hér eru lausnir fortíðarinnar varðandi stjórnun og hér er fyrst og fremst verið að þrengja að möguleikum starfsmanna.

Í frv. vantar alveg skyldu til samráðs og samstarfs við stéttarfélögin þegar kemur að ákvörðunum sem varða starfsmenn sjálfa. Við tölum ekki um önnur mál en við skulum biðja um samráð við þá í þeim málefnum sem varða starfsmennina sjálfa. Það er ekkert kveðið á um það í þessu frv. Vitaskuld er mjög mikilvægt þegar miðað er við þennan mikla fjölda ríkisstarfsmanna að eðlilegt samráð sé haft í stjórnsýslunni við starfsmenn. Þetta frv. er einfaldlega allt of hrátt til að hægt sé að vinna að því af einhverju viti. Ef menn hefðu sett það í einhvern eðlilegri farveg þá hefðu menn unnið út frá því endurskipulagningu á ríkisrekstri en því var hafnað að veita því í slíkan farveg. Ítrekaðar ábendingar um að málið yrði skoðað betur voru hunsaðar, ekki bara frá minni hlutanum heldur einnig frá stéttarfélögunum. Meiri hluti efh.- og viðskn. afgreiddi málið löngu áður en það var tilbúið til frekari þinglegrar afgreiðslu.

Margt er hægt að gagnrýna í þessu frv., það kom m.a. fram í umsögnum. Í 16. gr. eru lögbundin mjög óljós ákvæði um tímaskráningu og refsiákvæði um frádrátt á laun. Þetta eru illa útfærð ákvæði og úrelt að hluta og þau sýna þekkingarleysi frumvarpshöfunda á vinnu ríkisstarfsmanna. Það er svona eitt dæmið um það þegar menn eru að vinna að hlut sem þeir hafa ekki glögga þekkingu á.

[16:15]

Í 21. gr. frv. er kveðið á um að það sé brottrekstrarsök ef ekki er sýndur fullnægjandi árangur í starfi. Hvað er fullnægjandi árangur í starfi? Við spurðum að því í nefndinni. Við fengum engin svör við því hvað væri fullnægjandi áragnur í starfi. Það er augljóst að forstöðumaður hefur þetta mat einhliða hjá sér.

Í 27. gr. frv. er gert ráð fyrir sérstakri nefnd sem kanni meintar misfellur starfsmanns. Það er hins vegar ekki tryggt hlutleysi slíkrar málsmeðferðar þar sem ráðherrar, fjármála og fagráðherrar skipa tvo af þremur í nefndinni. Þetta er dæmi um mál sem hefði þurft að skoða betur.

Í 36. gr. frv., en engin breyting er gerð á því, er kveðið á um að flytja megi embættismenn til í starfi en það er ekkert rætt um að það eigi að gerast í samráði við viðkomandi embættismann. Vitaskuld getur verið gott að skipta mönnum í stöðum innan ríkiskerfisins en hér væri eðlilegt að eitthvert samráð yrði haft við viðkomandi starfsmann. En hér hefur viðkomandi starfsmaður ekkert um það að segja ef hann er fluttur til í starfi. Þetta er ekki góð útfærsla.

Það er ýmislegt sem bendir til þess að það hefði þurft að skoða réttarstöðu starfsmanna í Háskóla Íslands en fram komu ábendingar um það. Það er alveg ljóst að fyrirkomulag kjarasamninga á þeim vettvangi gerir það að verkum að það er ekki hægt einhliða að kveða á um breytingar án þess að það sé rætt ítarlega við kjarasamningsgerð.

Réttarstöðu lögregluþjóna, tollvarða og fangavarða er breytt einhliða. Þeir eru gerðir með lagasetningu að embættismönnum, þó sérstakri gerð embættismanna. Embættismönnum með samningsrétt. Það hefði þurft að ræða þau mál betur. Það var gert að hluta til við forustumenn stéttarfélaganna en ég tel að hér hefði þurft að fara fram ítarlegri umræða um þennan nýja flokk starfsmanna ríkisins sem byggður er upp með þessum hætti.

Í frv. er kveðið á um að prófastar og prestar verði gerðir að embættismönnum en þeir hafa gert miklar athugasemdir við það að þeir skuli vera felldir undir fimm ára ráðningartíma eins og er aðalreglan í frv. Réttarstaða presta og þjóðkirkjunnar er dálítið sérstök. Þetta er dæmi um mál sem ekki virðist hafa verið skoðað nægjanlega. Ég vil með leyfi hæstv. forseta vitna til álits sem nefndinni barst frá formanni Prestafélags Íslands, Geir Waage, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta.

,,Af framansögðu stendur einkum tvennt gegn því að fimm ára ráðning sóknarpresta verði lögleidd.

Í fyrsta lagi gengur þetta fyrirkomulag gegn guðfræði kirkjunnar og þar með gegn allri grundvallarskipan sem verið hefur. Það brýtur um leið alla hefð í samskiptum ríkis og kirkju en kirkjan hefur kennt að allir menn skuli hlýða ríkisvaldinu á meðan það setur sig ekki á móti frelsi fagnaðarerindisins.

Í öðru lagi er hið kirkjulega embætti sett í uppnám. Tímanlegu öryggi prestakallanna og prestsembættisins er stefnt í hættu ekki síst úti um landið þar sem leifar eignaprestakallanna enn tryggja prestsþjónustu með því að gera prestum lífvænlegt þar að vera og þjóna.

Ég tel ákvæði frv. um fimm ára ráðningartíma presta raska svo kirkjuskipaninni, að kirkjulögum að öðru leyti óbreyttum, að ekki verði við unað. Því legg ég það til að lögin verði ekki látin taka til sóknarprestsembætta þjóðkirkjunnar. Reynist ekki unnt að koma þeirri breytingu á frv. við álít ég að umsvifalaust þurfi að undirbúa löggjöf um breytt fyrirkomulag á sambandi ríkis og kirkju svo unnt verði að tryggja kirkjunni þann umbúnað hins kirkjulega embættis er tryggt geti frelsi boðunarinnar með tryggari hætti en frv. gerir. Þau nýju kirkjulög yrðu þá að taka gildi um leið og ákvæðið um fimm ára ráðningartímann tækju gildi í kirkjunni ef ekki yrði gerður sá aðskilnaður ríkis og kirkju í nýrri löggjöf sem tryggði kirkjunni fullkomið frelsi boðunarinnar að því er tekur til ofangreinds máls.``

Hér tók ég út umsögn formanns Prestafélags Íslands varðandi stöðu stéttar sem hann er í forsvari fyrir. Það er ekki gerð tillaga um að breyta þessu ákvæði sem hann talar um varðandi ráðningartíma en hér boðar hann að setja þurfi ný lög ef þetta verður að lögum og það þurfi jafnvel að aðskilja ríki og kirkju. Það er auðvitað stórmál sem sumir mundu vilja skoða alvarlega. Sumir eru hlynntir slíku en aðrir telja það óráðlegt. Ég ætla ekkert að dæma um það. En ég er að draga þetta fram sem dæmi um áhrif af svona einhliða lagasetningu á ýmsar starfsstéttir í landinu. Eins og kemur fram í þessari tilvitnun er alveg augljóst að þetta er ekki að fullu rætt. Það hefur ekki verið skoðað nægilega hvort hér er einhver slík sérstaða á ferðinni að menn verði að leggjast betur yfir það. Ég er ekki að fullyrða neitt um að þessi sjónarmið hafi við rök að styðjast, ég veit ekkert um það. Þetta er sjónarmið eins formanns eins fagfélags varðandi þá meðferð sem hans stétt verður fyrir í þessu frv. Það komu fram fjölmargar slíkar ábendingar frá ýmsum umsagnaraðilum. Það komu t.d. fram mjög vandaðar álitsgerðir frá heildarsamtökunum BSRB og BHMR og Félagi hjúkrunarfræðinga sem voru mjög ítarlegar og fjölluðu um fjölmarga þætti sem snerta þær starfsstéttir. En það var ekkert gert með það í brtt. meiri hlutans. Það er ekki tekið neitt á því í þessu frv. að hjá starfsmönnum ríkisins verða tvenns konar kerfi í gangi. Nýir starfsmenn verða ráðnir samkvæmt því réttarumhverfi sem þessi lög gera ráð fyrir, þ.e. með tímabundinni ráðningu eða með gagnkvæman uppsagnarfrest og síðan verða náttúrlega þeir sem eru nú þegar í ríkisþjónustu og ýmsir þeirra búa við ótímabundna ráðningu eða óuppsegjanlegan samning þar sem ekki er gert ráð fyrir gagnkvæmum uppsagnarfresti. ,,Eldri starfsmenn`` munu starfa við hlið nýráðinna starfsmanna sem eru með gagnkvæman uppsagnarfrest og tímabundna ráðningu. Það er engin tilraun gerð til þess í þessu frv. að reyna að fella saman þessi ólíku kerfi, t.d. að þeir sem eru með svokallaða æviráðningu geti átt þess kost að fara inn í hið nýja réttarkerfi og þá á hærri launum gegn því að afsala sér æviráðningu. Það eru engin ákvæði í frv. um það að reyna að fella saman eldra og nýrra kerfi.

Almenna reglan í þessu frv. er sú að embættismenn séu skipaðir til fimm ára. En það er heimilt að framlengja stöðu þeirra án auglýsinga. Ég hefði talið eðlilegt að það væri grundvallarregla að auglýsa stöðu á vegum ríkisins ekki hvað síst þegar kemur að embættismönnum. Þetta býður því heim að óhæfir forstöðumenn geta setið langt umfram það sem eðlilegt mætti teljast vegna þess að stöðurnar verða ekki auglýstar lausar til umsóknar. Það er heimilt að framlengja tímabundna ráðningu án auglýsingar og það tel ég vera ámælisvert.

16. gr. frv. er sömuleiðis gagnrýnisverð. Þar er gert ráð fyrir að forstöðumenn geti framselt vald sitt. Þeir fara með mikið vald og framsal á þessu valdi hefði þurft að sæta verulegum takmörkunum. Það er mikilvægt að þær reglur sem settar verða um yfirborganir verði settar í samráði við stéttarfélögin. Það er ekki svo. Við spurðum margítrekað hvað yrði með þær reglur sem menn ætla að vinna með varðandi yfirborganir. Það er getið um þær í 9. gr. frv. Hvaða reglur eru þetta? Það kom í ljós að það voru engar reglur til. Hvort þessar reglur verða settar, þær á að setja í fjmrn., hvort þær verða settar í samráði við stéttarfélög eða ekki er algjörlega óvíst. Það sýnir betur en margt annað það mikla vald sem fjmrn. tekur sér með þessari löggjöf. Það eru settar takmarkanir á rétt embættismanna til að starfa að málefnum sem tengjast kjarasamningum og taka þátt í almennri kjaraumræðu. Það er álit ýmissa varðandi þetta ákvæði að það jaðri við brot á stjórnarskránni um málfrelsi. Þetta er dæmi um þann línudans sem frumvarpshöfundar stíga hér gagnvart stjórnarskránni.

Ákvæði til bráðabirgða eru að ýmsu leyti óljós og ýmis þeirra skerða réttindi þeirra sem nú eru í starfi. Eitt meginatriðið í frv. er aukið vald fostöðumanna. Það er gimsteinninn í frv. að mati hæstv. fjmrh.

Herra forseti. Ég sé ekki fjmrh., en geri ráð fyrir að hann fylgist grannt með úr hliðarsal. Ég er að verða þreyttur á að kalla eftir honum hér inn í þingsalinn. Ég vildi óska eftir að hann yrði hér við umræðuna.

(Forseti (GÁS): Forseti gerir ráðstafanir til að fá hæstv. ráðherra í salinn.)

Þetta aukna vald forstöðumanna sem frv. gerir ráð fyrir kemur m.a. fram í þeim rétti að ákvarða viðbótarlaun til einstakra starfsmanna sem hafa sýnt sérstaka hæfni í starfi. Því er hins vegar ekki lýst hvernig á að gera þetta. Það er ekki vitað eftir hvaða reglum á að vinna og það er bersýnilegt að hér er forstöðumönnum falið vald til eftirlitslausra launaákvarðana. Þeir geta hyglað einstökum starfsmönnum, enda er það tilgangurinn í sjálfu sér, án nokkurra afskipta t.d. af hálfu stéttarfélaganna.

Ein af röksemdum frumvarpshöfunda með þessu fyrirkomulagi er að segja: Svona er þetta gert á almenna vinnumarkaðnum. Það er rangt. Framkvæmdastjóri á almenna vinnumarkaðnum hefur vissulega vald til þess að gera sjálfstæðan launasamning við undirmenn sína. Og þeir sem til þekkja vita að slíkt er mjög algengt. Hins vegar hafa framkvæmdastjórar í fyrirtækjum á almennum markaði eftirlit á bak við sig. Þeir eru bundnir af stjórnarsamþykktum og þeir verða í langflestum fyrirtækjum á almennum markaði að standa reikningsskil gerða sinna gagnvart stjórn síns fyrirtækis. Þar á meðal, ef svo ber undir, yfirborganir til einstakra starfsmanna. Stjórn þarf síðan að svara fyrir rekstur fyrirtækisins á árlegum aðalfundi eða hluthafafundum. Hér á almenna markaðnum eru a.m.k. tvö virk eftirlitsstig ef borið er saman við forstöðumenn í ríkisþjónustu. Þannig að röksemdin sem borin er fram varðandi samanburðinn við almenna markaðinn á einfaldlega ekki við. Það er augljóst að það er stefna frv. að slíta yfirborganir úr samhengi við önnur ráðningarkjör. Það er alveg augljóst. Það er eitt af þeim stefnumálum sem fram koma í þessu frv.

Mig langar, herra forseti, að vitna aðeins í álitsgerð sem kom frá BSRB varðandi þennan þátt. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

[16:30]

,,BSRB telur líklegt að fram komnar tillögur`` --- þ.e. tillögurnar um yfirborganirnar --- ,,verði erfiðar og tilviljanakenndar í framkvæmd og kunni að skapa fleiri vandamál en þeim er ætlað að leysa. Þær kannanir sem BSRB hefur skoðað staðfesta að svo kunni að vera. Æskilegt er að Alþingi afli upplýsinga hjá fjmrh. hvað nákvæmlega eigi að leggja til grundvallar við launaákvarðanir og þær reglur sem hann kveður þær eiga að grundvallast á. Staðhæfingar fjmrh. um að með frv. sé stefnt að opnara og gagnsærra launakerfi standast engan veginn. Þvert á móti bendir allt til að hið gagnstæða verði upp á teningnum. Þá er nauðsynlegt að skoða sérstaklega hvort reglur frv. stangist að einhverju leyti á við kjarasamningsbundin heimildarákvæði til sérstakra launahækkana.``

Það er augljóst af þessari tilvitnun að menn telja að yfirborgunarvald sem forstöðumönnum er falið með þessum hætti veki upp fleiri spurningar en það svarar. Til að mynda vantar ákvæði um samráð um þessar reglur þannig að tryggt verði að konur og karlar njóti sömu möguleika varðandi viðbótarlaun. En það er alþekkt út ríkiskerfinu og reyndar annars staðar líka á vinnumarkaði að yfirborganir koma oft fyrst og fremst karlmönnum til góða en ekki konum. Þrátt fyrir að um sé að ræða sambærileg störf njóta þær yfirborgana í mun minni mæli en karlmenn. Þess vegna hefði verið mjög nauðsynlegt varðandi þennan þátt, ef menn hefðu ætlað að lögfesta slíka útfærslu, að það væri gert ráð fyrir að ekki yrði haldið áfram þessu misrétti sem viðgengst bæði á opinberum og almennum markaði.

Ráðherra, sem er yfirmaður forstöðumanna, er pólitískt skipaður. Það þarf að íhuga nokkuð varðandi þennan þátt að þótt forstöðumaðurinn beiti valdi sínu til yfirborgana eftir miðstýrðum reglum fjmrn. þá er augljóst að hann hefur vald til sjálfstæðra launaákvarðana gagnvart einstökum starfsmönnum. Það eru engar stjórnir eða fundir eins og eru á almenna markaðnum, yfirmaður forstöðumanna er viðkomandi fagráðherra. Það er hins vegar vitað að fjölmargir forstöðumenn innan ríkiskerfisins eru tiltölulega sjálfstæðir þannig að húsbóndavald fagráðherrans er í reynd ekki virkt. Því samanburður við almenna markaðinn er út í hött hvað því viðkemur að forstöðumaður séu með þessu orðnir sambærilegir við framkvæmdastjóra á almennum markaði. Forstöðumenn í opinberri þjónustu hafa með lögfestingu þessa frv. miklu meira vald. Þá vaknar spurning um skilin milli pólitísks valds og embættismanna stjórnsýslunnar. Á það var m.a. bent af Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins sem gerðu athugasemdir við frv. að þeir teldu rétt að starfsmenn þess ættu að búa við lengri ráðningartíma. Það voru fleiri sem báðu um það en þeir rökstuddu þetta út frá því að það sé nauðsynlegt að í æðstu stjórnsýslunni skapist stöðugt embættismannavald sem tryggi stöðugleika gagnvart pólitískt kjörnu valdi hverju sinni. Það er heilmikil hugsun fólgin í þessu. Menn hafa dæmi um hið gagnstæða þar sem framkvæmdarvaldið skiptir raunverulega út öllum æðstu yfirmönnum stjórnsýslunnar þegar það tekur við störfum. Þekktasta dæmið um stjórnarfar af þessum toga er í Bandaríkjunum við forsetakjör, en forseti er handhafi framkvæmdarvaldsins. Þá er skipt út helstu embættismönnum stjórnsýslunnar. Það er augljóst af þessu að hið pólitískt virka vald ráðherranna gagnvart forstöðumönnunum með hið aukna vald er í reynd ekki eins virkt og menn vilja vera láta. Ef nokkurt vit hefði verið í þessari umræðu hefði því átt skoða þetta mál betur. Það þarf að búa svo um hnútana varðandi þetta efni að geðþóttavaldi, sama hver fer með það geðþóttavald, sé haldið í eins föstum skorðum og mögulegt er. Þetta frv. gengur ekki út á það. Það ofurselur starfsmenn geðþóttavaldi án virks eftirlits. Það er ámælisvert. Það hefur e.t.v. verið hugsun frumvarpshöfunda, en það má vel vera að frumvarpshöfundar hafi einfaldlega ekki hugsað þessi mál í þaula eins og þyrfti að vera.

Það kemur skýrt fram í 19. gr. frv. að forstöðumanni er heimilt að ráðskast með starf undirmanna sinna næstum að vild án þess að starfsmaðurinn eigi raunverulega nokkurn rétt til áhrifa annan en þann að hætta störfum. Þetta er ótækt ákvæði og gengur miklu lengra en er á almennum vinnumarkaði. Það sem verið er að gera með þessu frv. er að það er verið að undirbúa að færa kjarasamningsgerðina úr stéttarfélagsfarveginum yfir í farveg einstaklingsbundinna launasamninga. Það er alveg augljóst hvert stefnir í þessum efnum. Það hefði þá komið til álita að mati okkar, ef menn vilja endilega taka dálítið á varðandi þessa forstöðumenn, að segja upp öllum núverandi forstöðumönnum ríkisins, auglýsa stöður þeirra lausar til umsóknar og endurráða þá í stöðurnar fyrri forstöðumenn eða aðra og reyna þannig að stokka upp í ríkiskerfinu. Flestir vita að mjög margir af forstöðumönnum ríkisins geta ekki farið með þetta vald sem þeim er veitt samkvæmt þessu frv. Þeir kunna ekki með það að fara og það er mikil hætta á að þeir misnoti það. Það er ámælisvert í þessu frv. að það er hvergi sleginn varnagli við því hvað eigi að gera við þá menn sem kunna ekki að fara með það mikla vald sem þeim er falið samkvæmt þessu frv.

Það hefur komið fram í umræðunni og hæstv. fjmrh. hefur verið hvað frískastur í því að tala fyrir því að nú þurfi að taka upp nýja stjórnunarhætti hjá hinu opinbera. Það sé komið að því að taka upp betri stjórnsýslu. Gott ef hæstv. fjmrh. var ekki framkvæmdastjóri Stjórnunarfélagsins einhvern tímann, ég man það ekki. (Gripið fram í: Jú, jú, hann var það. En það er orðið langt síðan.) Já, það er mjög langt síðan. En einhvern tíma kom hann þó að þessum málum. Hann hefur oft talað um bætta stjórnun og talað um að ýmislegt mætti betur fara í opinberum rekstri. En það sem gert er í þessu frv. hefur ekkert með nútímastjórnhætti að gera. Þetta er gamaldags hugmyndafræði sem var góð og gild fyrir svona tíu árum. Frv. gengur út á miðstýrt boðvald forstöðumanna og yfirmanna. Það gengur út á miðstýrða ákvarðanatöku í einstöku stofnunum. Þessi aðferðafræði hefur alls staðar vikið fyrir meiri valddreifingu, samráði og samstöðu milli forsvarsmanna, starfsfólks og samtaka þeirra. Það er sá stjórnunarstíll sem langflestir í nágrannalöndunum hafa fylgt undanfarin ár.

Nú eru til margar stjórnunaraðferðir og aðallega skiptast þær í þessa tvo meginflokka. Annaðhvort tala menn um miðstýringu eða dreifstýringu. Svo eru til margs konar útfærsla á þeim þáttum sem ég ætla ekki að fara út í hér. Þeir þættir hins vegar sem tengjast stjórnun í þessu frv. eru ekki nútímalegir. Þetta ber aftur merki þess að menn viti ekki hvað þeir eru að gera. Það er ekki leitað ráða varðandi nútímalega stjórnunarhætti sem menn hefðu getað gert við setningu þessara laga. Það er auðvitað eitt af því sem menn hefðu getað bætt. Ef menn hefðu viljað vinna þetta í einhvers konar samráði hefði verið hægt að upplýsa hæstv. fjmrh. um hvaða stjórnunaraðferðir, stjórnunarstíll og stjórnunarumgjörð væri heppilegur fyrir ríkisrekstur. Það er greinilegt að hann kann ekki skil á þeim efnum og ég er ekkert að álasa honum fyrir að vera ekki sérfræðingur á því sviði. En það er svo augljóst að hans menn sem komu að samningu þessa frv. þekkja ekki til.

Nú er það svo að við getum vitaskuld ekki lagt fyrirtækjamat á alla þætti þjónustu ríkisins. Ríkið er starfandi sums staðar á samkeppnismarkaði og þá verða menn að laga sig að því formi og þeim háttum sem þar ríkja. En það er meginmunur á ríkisvaldinu og fyrirtækjarekstri. Mjög mikilvægir þættir í ríkisumsvifunum varða t.d. öryggismál, velferðarmál og menntamál og þar verður ekki komið við fyrirkomulagi fyrirtækjaramma. Það virðist alveg skorta sýn á þetta í þessu frv. Hæstv. fjmrh. talar oft um að það þurfi að betrumbæta svo mikið og ríkissjóðurinn sé að sliga hann o.s.frv. Í framhaldi af því má geta þess að umsvif opinberra aðila hérlendis eru miklu minni en í nágrannalöndum okkar. Og það hefur engin úttekt farið fram á því hvort opinber umsýsla hér á landi sé á einhvern hátt verri en hún er í nágrannalöndunum. Ég fullyrði að svo er ekki. Ég fullyrði t.d. að innan heilbrigðisþjónustunnar séum við að gera betri eða a.m.k. jafngóða hluti fyrir mun minna fé en gert er í nágrannalöndunum. Ég hef trú á að það gildi það sama um margt í menntakerfinu. Það virðist vera einhver trú á því að allt sem ríkið gerir, allt sem hið opinbera gerir sé óhagkvæmt og það beri að draga úr því og minnka það. Helst fella það niður og láta einhverja aðra aðila gera það. Þetta er mjög mikill misskilningur á eðli þeirra umsvifa sem ríkisvald hlýtur alltaf að hafa á tilteknum þáttum sem varða okkur öll. Hér kemur náttúrlega að því að menn eru að draga hina pólitísku línu. Þeir sem vilja markaðsvæða og færa fyrirtækjaumhverfið yfir á alla þá þætti í ríkiskerfinu sem þeim dettur í hug, hvort sem er á sviði velferðarmála, heilbrigðismála eða menntamála, eru fulltrúar ákveðinnar stjórnmálaskoðunar. Hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin standa fyrir þessari stjórnmálaskoðun. Ég og minni hlutinn hér á Alþingi erum hins vegar á móti þessum viðhorfum. Ekki vegna þess að við teljum ekki að það megi oft bæta og nýta sér markaðinn af hálfu ríkisins þegar það á við. En við erum á móti því að markaðsvæða hér þætti eins og heilbrigðismál, velferðarmál og menntamál. Markaðshyggjan á ekkert erindi inn í þessa málaflokka. Flestar grannþjóðirnar, a.m.k. þær sem stýrt er af jafnaðarmönnum, hafa fyrir löngu komist að þessari niðurstöðu. En þarna skilur á milli pólitískrar sýnar einstakra manna. Það má segja að frv. endurspegli ágætlega hina pólitísku sýn sem stjórnmálaflokkarnir hafa á þessum málaflokki.

[16:45]

Þetta frv. er ekki að ná fram endurbótum í stjórnun sem hefði verið nauðsynleg. Sú miðstýringarárátta er mjög áberandi sem m.a. kemur fram í því að fjmrn. er falin framkvæmd á langflestum þáttum sem varða starfsmenn ríkisins. Í frv. er engin tilraun gerð til þess að reyna að tengja fagráðuneytin inn í einstakar ákvarðanir á árangursríkan hátt og efla eðlilega lýðræðislega stjórnarhætti innan stofnunarinnar sjálfrar. Það er engin tilraun gerð til þess í þessu frv. Eina sem gert er er að búið er til vald forstöðumanna, m.a. til yfirborgana og uppsagna, sem hefur ekkert með þá stjórnarhætti sem eru algengastir á almennum vinnumarkaði heldur eru hér dæmi um það að grípa einn, tvo þætti út sem geta ekki á nokkurn hátt tengst endurskipulagningu á ríkisrekstri einfaldlega vegna þess að þau mál hefði þurft að skoða í miklu víðtækara samhengi.

Ég gat áðan um að allar umsagnirnar sem hér eru, og vafalítið á eftir að vitna í þær í umræðunni, hefðu verið neikvæðar nema örfáar. Það er stuðningur við þetta frv. hjá einum aðila í þjóðfélaginu. Það er frá vinnuveitendum á almennum markaði. Það eru einu aðilarnir sem taka undir þetta frv. Með leyfi hæstv. forseta vildi ég fá að lesa hér upp úr umsögn sem okkur barst frá Vinnumálasambandinu sem er eitt af vinnuveitendafélögunum hér. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Hér er um mjög mikilvægt og þarft frv. að ræða sem tekur á þeim mismun sem myndast hefur milli opinberra starfsmanna og starfsmanna á hinum almenna vinnumarkaði.`` Síðar segir, með leyfi forseta: ,,Það er skoðun Vinnumálasambandsins að frumvarpið stuðli að jöfnuði milli launþega. Það er því von Vinnumálasambandsins að Alþingi veiti þessu frumvarpi brautargengi og leggjum við til að það verði samþykkt.``

Þetta var eina jákvæða umsögnin sem barst um frv. auk þess sem mátti lesa stuðning frá VSÍ við meginþætti þessa frv. Allir aðrir aðilar sem leitað var til, og þeir voru tugir ef ekki hundruð sem sendu inn umsagnir og hafa tjáð sig um þetta mál, leggjast gegn þessari lagasetningu. (Gripið fram í: Þú gleymdir Verslunarráðinu.) Já, ég hef líklega gleymt Verslunarráðinu. Það verður einhver annar að lesa upp umsögn Verslunarráðsins, ég hef hana ekki hér alveg tiltæka. (Gripið fram í: Það var talað fyrir þess hönd.) Umsagnirnar um málið lúta að tvennu. Það er form og innihald. Vinnubrögðin við þetta voru gagnrýnd, hvernig á að þjösna í gegn, án þess að hafa nokkurt samráð, löggjöf um mikilvæga þætti. Og síðan voru efnisatriðin gagnrýnd. Látum það nú vera þó vaðið sé yfir mann þá er það þó að minnsta kosti verra ef því fylgja þau högg sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Frv. var því bæði gagnrýnt fyrir innihald og form. Með leyfi hæstv. forseta vitna ég til hluta úr ályktun sem nefndin fékk frá Bandalagi háskólamanna um frv. og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta.

,,Bandalag háskólamanna bendir efh.- og viðskn. Alþingis á eftirfarandi meginatriði varðandi þetta frumvarp um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins:

1. Samráð um endurskoðun laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefur ekki verið virt.

2. Frumvarpið miðar einhliða að því að skerða ráðningarréttindi starfsmanna ríkisins og samningsrétt stéttarfélaga þeirra án þess að bæta þá skerðingu með nokkrum hætti. Þvert á móti eru boðið áform um enn meiri skerðingu á réttindum ríkisstarfsmanna með drögum að frumvarpi um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og frumvarpi um stéttarfélög og vinnudeilur.

3. Frumvarpið miðar að því að afnema ráðningarfestu og biðlaun ríkisstarfsmanna þrátt fyrir að laun þeirra hafi um áratuga skeið verið þeim mun lakari til að greiða fyrir þessi og önnur réttindi starfsmanna.

4. Með frumvarpinu er gengið á mikilvæg grundvallarmannréttindi starfsmanna ríkisins sem bæði eru varin af stjórnarskrá og alþjóðlegum samþykktum sem Ísland á aðild að.

5. Frumvarpið viðheldur flestum skyldum starfsmanna ríkisins umfram aðra launamenn og eykur þær í sumum tilfellum.

6. Með frumvarpinu er ýmist beint eða óbeint ýtt til hliðar ákvæðum stjórnsýsluréttar þegar ákvarðanir eru teknar um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og ríkisstarfsmönnum ekki tryggð sama vernd gegn misbeitingu valds og öðrum landsmönnum.

Bandalag háskólamanna telur að efh.- og viðskn. Alþingis beri að hugleiða alvarlega afleiðingar af þessari aðför að réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins. Verði frumvarp þetta að lögum verða kjör almennt og sérstaklega réttindi ríkisstarfsmanna á Íslandi lakari en í allri Norður-Evrópu og þótt víðar væri leitað. Það mun knýja suma hópa til þungra aðgerða en aðrir munu leita til annarra landa með dýrmæta sérþekkingu sína. Bandalag háskólamanna lítur á það sem skyldu sína að verja réttindi og kjör félagsmanna sinna með öllum tiltækum ráðum. Einskis verður látið ófreistað í baráttunni gegn þessum ólögum.``

Herra forseti. Þetta eru skýr orð og þetta eru mjög svipuð orð og koma fram í öllum þessum umsögnum sem okkur bárust. Þrátt fyrir það á að keyra í gegn þetta frv. sem felur í sér inngrip í kjarasamninga, felur í sér einhliða breytingu á réttarstöðu, frv. sem er illa unnið, frv. sem kallar á bæði laka stjórnarhætti, lakari stjórnsýslu og enn meiri miðstýringu en verið hefur.

Nú hefði kannski mátt búast við því að sú mikla gagnrýni sem frv. hefur fengið undanfarnar vikur og fékk í 1. umr. málsins hefði leitt til þess að gerðar hefðu verið á því breytingar í meðförum þingsins eins og oft vill verða. Það kemur nú oft ýmis þvæla inn í þing og kannski er gerður úr því góður hlutur. Það er ekki svo. Hv. formaður efh.- og viðskn. gerði grein fyrir tillögum meiri hlutans um málið. Það var í 19 liðum en þessar tillögur eru í reynd minni háttar og breyta frv. í engum mikilvægum atriðum. Hið fræga orð ,,minni háttar`` er fellt út, en í frv. var talað um ,,svo sem minni háttar skrifstofustörf`` eins og alþekkt er. Þetta orðalag er fellt út enda sýnir það vitaskuld ekkert annað en lítilsvirðingu gagnvart tilteknum störfum hjá ríkinu en engin efnisbreyting er gerð á þeirri grein. Því er bætt inn í frv. að hægt sé að afturkalla viðbótarlaun ef farið er fram úr fjárlögum og nú er það svo að fjárlög hafa oft og tíðum verið þannig að ýmsar stofnanir hafa farið fram úr þeim. Það þekkja allir, stofnanir innan heilbrigðiskerfisins sem hafa lent í þessu og samkvæmt þessari brtt. á fjmrh. að hafa vald til að afturkalla þessi viðbótarlaun. Hér er enn og aftur dæmi um miðstýringu fjmrn.

Nú er það hins vegar svo að það er ekki nema að hluta til á ábyrgð forstöðumanna hvort rekstur er samkvæmt fjárlögum. Það er Alþingi sem setur fjárlögin. Oft eru gerðar sérstakar kröfur um tiltekna þjónustu og stundum taka ríkisstjórnir ákvarðanir sem gera forstöðumanni ókleift að halda sig innan ramma fjárlaga. Í þessu sambandi mætti spyrja hvað yrði þá um stofnun eins og t.d. Sjúkrahús Reykjavíkur sem hefur verið gert ókleift að halda sig innan fjárlaga, einfaldlega vegna þess að ekki hefur verið tekið mark á þeim viðvörunarorðum sem bæði forsvarsmenn þeirrar stofnunar og reyndar stjórnarandstæðingar hafa margoft getið um. Nei, það er ekkert fjallað um þá erfiðleika sem þetta kynni að valda.

Í einni brtt. meiri hlutans er reynt að koma í veg fyrir að forveri manns í starfi fái laun eftirmanns, þ.e. viðbótarlaunin eiga ekki að skapa rétt til lífeyris. Hv. formaður efh.- og viðskn. lýsti þessu áðan. Hins vegar er ekki ljóst að þetta ákvæði haldi einfaldlega vegna þess að það er þannig með lífeyrismál opinberra starfsmanna að lífeyrir á að miðast við laun eftirmanns. Hvort brtt., sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir, komi í veg fyrir og taki af þennan rétt verður líklega útkljáð fyrir dómstólum. Þetta er dæmi um óljósa afgreiðslu meiri hlutans á þessu máli.

Í þessu frv. eru gerð sérákvæði varðandi æðstu embættismenn ríkisins. Kjaranefnd á að ákvarða laun fyrir dagvinnu og önnur starfskjör og ákveða hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hvað ber að launa sérstaklega. Síðan er búið til sérstakt ákvæði fyrir hæst launuðu menn ríkisins, þ.e. ráðuneytisstjóra og forstöðumenn. Þar fundu menn smælingjann í 56. gr. Þar bjuggu menn til sérstakt ákvæði fyrir þennan hóp þess efnis að kjaranefnd er falið að ákvarða um laun fyrir venjubundið vinnuframlag og starfsskyldur umfram dagvinnu og við þá ákvörðun getur nefndin tekið sérstakt tillit til hæfni sem nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir. Hér er enn og aftur verið að hygla þeim sem best mega sín í opinberri þjónustu. Þessir sérstöku trúnaðarmenn fá sérstaka meðferð í kjaranefnd. Nefndinni er falið að verðlauna þá sérstaklega. Þeim skal tryggt einhvers konar yfirborgunarkerfi í gegnum kjaranefnd. Almennir starfsmenn ríkisins eru ekki með nein slík ákvæði.

Í þessum brtt. er m.a. kveðið á um að ef uppsagnir eru í krafti hagræðingar séu þær án skýringar þannig að forstöðumönnum er í reynd í sjálfs vald sett hvernig þeir losa sig við starfsfólk. Það er hvergi reynt að tryggja eðlilegan samráðs- og samræðuvettvang milli starfsmanna og forstöðumanna innan ríkisins. Í frv. er alls staðar verið að byggja upp mjög sterkt húsbóndavald. Það er það sem frv. gengur m.a. út á. Í þessum brtt. er gert ráð fyrir að fresturinn sem gildir um biðlaun verði færður í fyrra horf en það ber að undirstrika að biðlaunaréttur er tekinn af nýjum starfsmönnum ríkisins og hann er felldur niður hjá núverandi starfsmönnum ríkisins ef t.d. yrði um að ræða breytingu á rekstrarformi einstakra stofnana. Þetta brýtur í bága við kjarasamninga, þetta brýtur í bága við stjórnarskrána. Þetta er ekki flóknara en það. Ef menn ætla að láta þessi ákvæði standa þá eru menn að kalla yfir sig, auk allra hinna vandræðanna, að slegist verður fyrir dómstólum endalaust um þessar útfærslur eins og ríkisstjórnin leggur upp með. Þessar brtt. eru smávægilegar og breyta í engu aðalatriðum í málinu. Ef vitnað er í ályktun sem BHM gerði varðandi þann þátt þá segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Frumvarpið setur í uppnám ýmis grundvallarréttindi starfsmanna. Áður hefur verið vísað til veikinda- og barnsburðarleyfisréttar. Með breytingartillögum nefndarinnar er gengið enn þá lengra og umsamdar einstaklingsbundnar viðbótargreiðslur starfsmanna eru teknar út úr ráðningarsamningi starfsmanna og færðar í geðþóttavald forstöðumanns. Með þessum síðustu breytingum er þetta vald síðan fært þráðbeint í fjmrn. Raunverulegur tilgangur breytinganna var þá ekki valddreifing til stofnana heldur aukin miðstýring.``

Þetta segir allt sem segja þarf um þessar brtt. og þann anda sem ríkir í þessu frv.

Herra forseti. Það er augljóst að þessi málsmeðferð af hálfu ríkisstjórnarinnar er að gera og mun gera næstu kjarasamninga einstaklega erfiða. Fulltrúar stéttarfélaganna sem komu á fund efh.- og viðskn. töluðu enga tæpitungu um þann þátt. Þeir töluðu um að það væri hrunadans í uppsiglingu ef menn ætluðu að ganga fram með þessum hætti. Þar sem öll stéttarfélögin í landinu eru sammála í þessari afstöðu, bæði gagnvart þessu frv. og gagnvart frv. um stéttarfélög og vinnudeilur og það stefnir í ein mestu átök við gerð kjarasamninga sem við höfum átt í mörg, mörg ár. Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin og meiri hluti á Alþingi skuli ekki reyna að fara að þessum varnaðarorðum sem menn hafa ítrekað sagt þeim. Friðurinn er rofinn í landinu. Það er slitinn sundur friðurinn milli ríkisvalds og starfsmanna þess með frv. Menn eru að endurtaka sama leikinn og fyrir sex, sjö árum með afnámi kjarasamninga 1989--1990. Menn eru kannski að ganga enn þá lengra í þessu frv. með því að setja heildarlöggjöf með þessum íþyngjandi hætti án þess að menn fái rönd við reist.

[17:00]

Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. er svo bjartsýnn á þróun mála að hann haldi að þetta gangi allt greiðlega fyrir sig og menn muni að lokinni þessari lagasetningu á næstu dögum hver og einn hverfa til síns heima og síðan vaxi gras yfir þetta mál og menn mæti bara með eðlilegum hætti upp úr áramótum til kjarasamningsgerða. Mín spá, hæstv. fjmrh., er að svo sé ekki. Ég byggi þá spá m.a. á því að ég hef ákveðna reynslu af kjarasamningsgerð bæði á vegum hins opinbera og á almennum vinnumarkaði. Ég hef komið að þessum málum í 15 ár þannig að ég þykist vita nokkuð hvernig á að meta stöðuna hverju sinni. Og mín varnaðarorð hafa verið mælt af heilum hug. Ég óttast það framhald sem við erum að sigla inn í. Það er augljóst að eitt af aðalatriðum í þessu frv. tengist öðru máli þessarar ríkisstjórnar, þ.e. biðlaunaréttinum. Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að ná því máli í gegn vegna þeirrar hlutafjárvæðingar sem hún hefur fyrirhugað. Þar á meðal er hlutafjárvæðing Pósts og síma, en það frv. er í meðförum þingsins. Jafnframt er fyrirhugað að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélag og ríkisstjórnin telur að það verði að afnema þennan rétt áður en að því kemur. Ég sagði í upphafi að ef menn vilja ræða um breytingar á kjarasamningsatriðum þá eiga þeir að gera það við kjarasamninga. Og ég treysti í sjálfu sér alveg stéttarfélögunum og ríkisvaldinu til að ræða þau mál þannig að skynsamleg niðurstaða fáist. Meginatriðið er að menn fari ekki með einhliða hætti inn í þætti sem snúa að kjarasamningum. Þegar afgreiðsla málsins var komin á lokastig og við höfðum heyrt aðvaranir, gagnrýni og ábendingar vegna þessa frv. gerðum við stjórnarandstæðingar kröfu til þess að fjmrh. kæmi ásamt helstu embættismönnum sínum á fund nefndarinnar til að ræða tiltekna þætti. Það er ekki alvanalegt en það eru fjölmörg fordæmi fyrir því að ráðherra komi á fund þingnefnda til að skýra sín mál. Og nú háttar svo til með þetta mál að það fjallar um breytingar á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna. Fjmrh. er handhafi framkvæmdarvaldsins í þessum málaflokki. Hér er verið að breyta heildarlöggjöf og þess vegna er mjög mikilvægt þegar málin eru rædd í nefnd að þá sé leitað allra svara sem hægt er. Og það er fjmrh. sem ber hina pólitísku ábyrgð á málinu. Þetta var ekki óeðlileg krafa og ekki gerðum við ráð fyrir að við mundum snúa fjmrh. hæstv. á þessum fundi. Samt sem áður neitaði fjmrh. að mæta á fund efh.- og viðskn. Embættismennirnir komu en auðvitað gátu þeir ekki svarað þeim pólitísku spurningum sem þurfti að spyrja varðandi þessi mál. Embættismenn gefa bara svör við þeim efnislegu spurningum sem tengjast þáttum við frumvarpsgerðina. Að fjmrh. skyldi neita að koma á fund efh.- og viðskn. og ræða málið í lokaafgreiðslu þess, en málið var að fara út úr nefndinni að vilja meiri hlutans, lýsir betur en margt annað vinnubrögðum manna í þessu máli. Það er ekki nóg með að þetta mál og þessi málsmeðferð sýni hroka og ögrun ríkisstjórnarinnar gagnvart umhverfi sínu heldur kaus hún líka að taka þetta mál með valdi, þ.e. með meiri hluta sínum gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga í efh.- og viðskn. Slíkt er sjaldgæft. Við töldum málið ekki fullbúið til 2. umr. en þeir notuðu meiri hluta sinn bæði í nefndinni og á Alþingi til að taka málið út og það gerðu þeir daginn fyrir 1. maí. Þeim var nákvæmlega sama þótt þúsundir manna mótmæltu þessum frv. daginn eftir. Þetta sýnir e.t.v. betur en margt annað hvílík harka er komin í þetta mál. Þessi stefna ríkisstjórnarinnar kemur fram grímulaust. Gleymum því ekki að meiri hlutinn hefur vald til þess að setja þau lög sem hann vill. Hann hefur vald til þess, hann er kosinn til þess. Þetta sýnir glöggt forgangsröðun stjórnarinnar. Það er reynt að knýja fram, kreppa að réttindum og skyldum opinberra starfsmanna og annarra launþega og það er verið að gera þeim erfiðara að sækja rétt sinn og kjör í næstu kjarasamningum. Það er augljóst, herra forseti, hverra erinda þessi ríkisstjórn er að ganga. Hún er að ganga erinda vinnuveitenda, alveg sama hvort sá vinnuveitandi er ríkisvaldið eða vinnuveitandi á almennum markaði. Það eru hagsmunir þeirra sem endurspeglast í þessu og öðrum frv. sem ríkisstjórnin hefur lagt fram um þennan málaflokk.

Við stjórnarandstæðingar erum andsnúnir þessum hugmyndum stjórnarinnar. Þær svara ekki til þeirra grundvallarhugmynda sem við höfum um samráð og samstarf aðila í þjóðfélaginu. Það er þess vegna sem við teljum eðlilegt að þessu frv. verði vísað frá. Frv. ásamt þessum brtt. er alvarleg árás á réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Önnur eins vinnubrögð og innihald hefur ekki sést á hinu háa Alþingi í áratugi. Þessi ríkisstjórn er augsýnilega ákveðin í því að ná fram sinni stefnu og það á fyrsta starfsári sínu. Hún er að þrengja að launafólki. Hún gerir það með frv. um stöðu þeirra á vinnumarkaði. Hún gerir það með niðurskurði á framlögum í fjárlögum og til heilbrigðismála og hún gerir það með tillögum um vaxandi ójöfnuð í skattakerfinu efnafólki í hag. Þetta ber allt að sama brunni. Ríkisstjórnin er að gæta hagsmuna hinna betur stöddu í þjóðfélaginu og hún gengur á rétt þeirra sem minna mega sín. Við í minni hlutanum og stjórnarandstæðingar mótmælum þessum vinnubrögðum og við munum berjast gegn þeim hér á Alþingi og annars staðar með öllum tiltækum ráðum. Við leggjum til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað frá.