Jafnréttisfræðsla fyrir dómara

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:49:32 (5796)

1996-05-08 14:49:32# 120. lþ. 133.6 fundur 466. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir dómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi BH
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:49]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og einnig þeim hv. þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Ég tel það vera ánægjuefni að dómsmrh. hafi boðað fund með þeim sem gætu mögulega gætu haft eitthvað um þessi mál að segja og sýni málinu þannig áhuga. Jafnframt vil ég hvetja hann til að taka forustu á þessu sviði og virkilega gera eitthvað í þessum málum.

Ég vil benda á það að þetta mál er mikið áhyggjuefni margra og ekki síst kvenna. Eins og hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir benti áðan á hefur þetta mál verið mjög rætt meðal kvenna og m.a. voru þingkonur boðaðar á fund fyrr í vetur þar sem þessi mál voru rædd ásamt stjórnarkonum í Kvenréttindafélagi Íslands. Þar var samþykkt að hvetja Dómarafélagið, Lögmannafélag Íslands og lagadeild Háskóla Íslands til þess að gera eitthvað í þessum málum þar sem almennt eru konur á því að að þessum málum sé alls ekki nógu vel staðið. Þess vegna fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli hafa sýnt málinu áhuga og ég hvet hann til þess að vinna áfram á þessari braut. Ég vil m.a. geta þess í leiðinni að það hefur verið haft samband við forseta lagadeildar út af þessum málum þar sem hann er hvattur til að standa að bættri jafnréttisfræðslu í lagadeild Háskóla Íslands, t.d. með því að taka upp kennslu í kvennarétti og hefur hann tekið vel í þá málaleitan auk þess sem að sjálfsögðu kemur til bóta í þessum efnum námsbraut í kvennafræðum sem fer af stað nú í haust.

En ég þakka ráðherranum svörin og hvet hann til að taka forustu í þessu máli því að það er mjög brýnt að það verði gert.